mánudagur, 23. janúar 2012

Súrrealískt ástand ríkisstjórnar

Þetta er ljóta ástandið. Það er ekkert mjög ónákvæmt að halda því fram að frá upphafi þrautagöngu þessarar ríkisstjórnar hafi allt verið upp í loft í samstarfinu. Fljótlega kom í ljós að þessir flokkar eiga enga samleið.

Hvorki að málefnum né aðferðum. Öll viðurkennd gildi hvað varðar heilindi og samstarf stjórnmálaflokka hafa verið fyrir borð borin frá upphafi. Flokkarnir hafa lamið á hvor öðrum án afláts og tókst ekki einu sinni að nýta sér örfáa hveitibrauðsdaga til gagns.

Jóhanna og Steingrímur hafa með hjálp fjölmiðla og bloggara reynt að eyða öllu tali um fullkomið gagnsleysi. Fyrst með þeim orðum að þeir sem stjórnuðu áður ættu ekki fá að hafa skoðanir framar. Þá gleymdist að Jóhanna og Össur stjórnuðu líka áður. Svo var það vandinn sem var svo stór ekki var nema eðlilegt að ekki tækist að taka góðar ákvarðanir.

Líklega erum við hætt að taka eftir því svo súrrealískt er ástandið en við fáum orðið engar fréttir aðrar úr stjórnaráðinu en þær hvernig gangi að forða ríkisstjórninni frá falli. Alls engar. Það er bókstaflega ekkert annað að gera þar en að reyna af öllum lífs og sálar kröftum að bjarga hræinu.

Svo kemur Jóhanna í Kryddsíldina og skilur ekkert í því að fólk geti ekki verið skemmtilegt. Ég finn til með Jóhönnu á minn hátt. Hún var véluð í djobbið og finnst örugglega sárt að sjá ferilinn enda með þessum ömurlega hætti. En það mun hann gera því Össur hefur slegið hana af.

Ég velti því fyrir mér hvenær Jóhanna sér sér leik á borði og stígur út úr þessum farsa. Áður en henni verður ýtt til hliðar þegar það þjónar hagsmunum flokksins. Þá kæmi hennar tími. Þá gæti hún stjórnað burtreiðinni og sagt það sem þarf að segja.

það virðist hún ekki geta því allt kapp er lagt á að halda áfram samstarfi sem allir vita að er ónýtt. Hvernig dagar eru það fyrir Jóhönnu sem fara eingöngu í það að reyna að halda saman fólki sem getur ekki unnið saman? Fólk sem svívirðir skoðanir hvers annars daglega liggur mér við að segja.

Stjórnmálamenn gera mistök og ekki eru allir dagar góðir. Við erum ýmist hægri menn eða vinstri og sumir þykjast vera hvorugt en eru það ekki. En við getum ekkert þóst láta eins og það ástand sem við lesum um daglega sé eðlilegt og eigi að halda áfram.

Meira að segja sumir vinstri menn eru farnir að sjá að það er enginn sigur í því einu að sitja bara.

Kannski óttast flokkarnir hvorn annan svo þegar sleppir að þeir þora ekki af þeim ástæðum að hætta. Sá ótti er ekki ástæðulaus en sé ekki að stríðið sem nú er reynt að hylja fyrir þjóðinni verði minna hatramt því lengra sem líður á.

Þetta er samstarf er búið og fyrir löngu orðið skaðlegt hagsmunum þjóðar sem þarf starfhæfa ríkisstjórn.

Röggi

Engin ummæli: