þriðjudagur, 17. janúar 2012

Er hægt að tapa fallega?

Við töpuðum fyrir Króatíu í gær. Það þarf ekki að koma á óvart enda Króatía stórveldi eins og litla Ísland í handbolta. Líklega þarf helvíti góðan leik af okkar hálfu og þá kannski pínu dapran af þeirra hálfu svo við vinnum þá.

Íþróttir eru samt ekki raunvísindi og allt getur gerst. Stundum vinna "slakari" liðin þau betri. Sumir segja okkur betri en Norðmenn en ekkert þarf þó að vera óeðlilegt þó við töpum fyrir þeim.

Viðbrögð margra við viðbrögðum þjálfara og leikmanna eftir leikinn í gær hafa vakið áhuga minn. Þegar þjálfarinn segist sjá margt gott í liðinu og leiknum finnst sumum það óraunsæi og flóttatilraun. Samt eru flestir á þeirri skoðun að leikurinn hafi verið vel spilaður af okkar hálfu.

Er sem sagt ekki hægt að spila vel og tapa? Og þá kannski ekki heldur að spila illa og vinna? Spiluðu Króatar vel í gær eða við svona illa? Eru þeir ekki eins góðir og árangur þeirra segir til um og við betri?

Í fullkomnum heimi hefði markvörðurinn okkar varið meira. Mál Snorra Steins hefði ekki truflað allt og alla fram á síðasta dag. Óli Stef væri enn 27 ára. Ingimundur ekki að spila í deild þar sem geta hans og líkamsstyrkur hefur daprast niður. Alex fínn í öxlinni. Róbert Gunnarsson hefði skorað úr færum sínum.......

Krafan um að allir sem að leiknum koma geri ekki mistök er ekki sanngjörn. En hún er missanngjörn þó. Hægt er t.d. að gera meiri kröfur til reynslumeiri dómara en reynsluminni. Sama á við um leikmenn og þjálfara.

Við eigum flott lið með blöndu af reynslumiklum spilurum og svo yngri leikmönnum og mjög reynslumikinn þjálfara. Og gerum því eðlilega kröfur. En hverjar eru þær?

Eru þær að við vinnum alla leiki hvort sem við spilum illa eða vel? Liðið spilaði fínt í gær og leysti að mér fannst flest það sem andstæðingarnir buðu upp á taktískt sem er týpískt fyrir þjálfarann okkar. Það eina sem vantaði var að þetta skilaði okkur sigri.

Það er svo auðvelt að "reikna" sig upp í þetta og hitt á blaði þar sem andstæðingarnir eru stundum ekki teknir með í reikninginn. En við vitum að íþróttaleikir vinnast ekki á blaði sem betur fer og þeir tapast ekki heldur þar.

Ég veit líka að árangur í svona túrneringu er mældur í stigum og sigrum en er sanngjarnt að segja að lið sem ekki nær hámarksárangri eða jafnvel betri hvern einasta dag hafi spilað illa eða mistekist taktískt? Og auðvitað er ekkert tap sigur en alveg er ástæðulaust að loka augunum fyrir því þegar liðið spilar vel. Af hverju ætti þjálfarinn að gera það?

Kannski spilum við illa á morgun en vinnum samt Noreg. Það þykir alltaf gasalega fínt að spila illa en vinna þó. En mikil skömm að spila vel en tapa, jafnvel fyrir betra liði.

Röggi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vel mælt!! Merkilega gáfaður inn á milli!!.....:)

Nafnlaus sagði...

Var að horfa á Ísland - Noreg. Mér fannst Norðmenn tapa fallega...