laugardagur, 28. janúar 2012

Jóhanna skilur ekki stöðu sína

það er varla of mikið í lagt þegar ég segi að samstarf vinstri flokkanna sé að verða flokkunum báðum ofviða. Þeir eru í raun magnþrota og hafa hætt að stjórna landinu og nú snýst tilvera þeirra eingöngu um að halda eigin sjó. Hagsmunir þjóðarinnar eru á meðan aukaatriði.

Hjá VG eru hlutirnir nokkuð skýrir. Seinni klofningurinn er nú öllum ljós og Steingrímur ólíklegur til þess að leiða restina áfram eftir næstu kosningar.

Samfylkingin er rétt að byrja sitt uppgjör og þar á blóðið eftir að renna. Ég held hreinlega að margir Samfylkingarmenn og þar með talin Jóhanna hafi haldið að allt væri með felldu, undir control.

Þessa dagana reyna menn allt hvað af tekur að koma í veg fyrir að átökin komist uppi á yfirborðinu. Maður á aldrei að segja aldrei en mér sýnist svo stór orð og svo stórar ákvarðanir hafa verið teknar að ekki verði komist undan slagsmálum fyrir opnum tjöldum.

Jóhanna gerir sér enga grein fyrir stöðu sinni og reynir að láta umræðuna snúast um hið vonda íhald. Íhaldið hennar Jóhönnu hefur bara ekkert með það að gera að hún er í raun fyrir og kann ekki að vikja fyrir morgundeginum í flokki sem þarf breytingar.

Því fyrr sem Jóhanna sér að héðan af á hún enga vinningsmöguleika því betra. Núna ættu ráðgjafar hennar að hefja undirbúning að brottför á hennar eigin forsendum. Ef ekki er líklegt að fórnarkostnaður flokksins verði talsverður.

Og hvað ætli vinnist með því sem Jóhanna gæti kallað sigur í þeirri augljósu baráttau sem nú er háð innan flokksins? Ég sé engan sigur hvorki fyrir Samfylkingu né þjóðina að Jóhanna haldi áfram að reyna að leiða flokk og þjóð.

Spennandi tímar hjá þessum tiltölulega ungu flokkum sem enn eru greinilega í mótun. Flokkar sem ekki vissu hvað þeir ætluðu að verða þegar þeir yrðu stórir. Flokkar sem ekki voru tilbúinir til þess að vinna saman hvað sem allri vinstri rómantík líður.

Jóhanna getur svo tuggið gamlar tuggur um vont íhald sem einhverjir væntanlega vondir menn séu að leiða til valda hér aftur. Það mun engin leiða neinn til valda hér nema þjóðin sjálf. Það ætti Jóhanna að þekkja.

Og það er heldur ekki íhaldinu hennar Jóhönnu að kenna að ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta á þingi og ekki er með neinu móti hægt að kenna íhaldinu um að Jóhanna virðist ekki lengur njóta nægilegs stuðnings innanflokks.

Hennar tími er kominn og farinn og það eina sem unnið er að leynt og ljóst er að hennar eigin flokksmenn vilja koma henni frá.

Röggi

Engin ummæli: