föstudagur, 13. janúar 2012

Ábyrgðarhlutur

Stundum segja atvinnustjórnmálamenn að það sé ábyrgðarhluti að hlaupast undan mikilvægum verkum í miðri vinnunni. Þennan frasa nota menn stundum þegar stjórnarndstaða bendir á að hægt gangi og best væri að hleypa öðrum að.

Sú ríkisstjórn sem nú situr þykist einmitt vera í þeirri stöðu að allt fari hér á hliðina ef núverandi ráðherrar fara frá. Hér sé allt á réttri leið undir öruggri forystu. Það sé því ábyrgðarhlutur að hlaupa frá borði þó gefi á bátinn í ólgusjó sem aðrir gáruðu í upphafi.

Mikill og sívaxandi meirihluti þjóðarinnar sér þetta ekki svona heldur einmitt og algerlega á hinn veginn. Það er ábyrgðarhlutur að halda áfram eins og fyrir þessu samstarfi VG og Samfylkingar er komið.

Auðvitað vita það allir að samstarfinu er að mestu lokið. Héðan af reynir hver að bjarga sér sem betur getur. Þær fréttir sem af ríkisstjórn berast snúast að mestu um það hvernig leikfléttur eru að gera sig.

Hvernig klíkurnar innan flokkanna eru að lumbra hver á annarri. Þá þarf að skáka fólki til og koma í veg fyrir að hinn eða þessi ráðherra sem hefur styrka stöðu innan flokks en gegn eigendaklíkum sitji áfram í ríkisstjórn.

Byltingin hefur étið börnin sín. Man einhver fyrir hvað þessi ríkisstjórn átti að standa? Vá hvað mörgum fannst gaman að hlusta á talið um gagnsæið og upplýstar ákvarðanir. Lýðræðisástina sem ríkisstjórnin komst að að hún gat ekki umborið ef lýðræðið vildi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Skjaldborgin. Man einhver eftir henni? Allt var þetta svo sögulegt. Merkilegt hvað vinstri mönnum finnst allt vera sögulegt þegar andinn er yfir.

En þrátt fyrir afleitt samstarf flokka og opinská innanflokksátök sem háð eru úr ráðherrabílum er það eiginlega þó samt hálfgert aukaatriði þegar rætt er um grundvallarstefnuna sem lagt er upp með. Mér er kannski alveg sama þó ráðherrar berist á banaspjótum seint og snemma ef þeir eru ekki í leiðinni að fylgja liðónýtri stefnu í efnahagsmálum.

Reyndar eru til fræðimenn á Íslandi í undantekingum sem bera starfi ríkisstjórnarinnar gott orð. Þeir eiga greiðan aðgang að umræðunni sem af einhverjum ástæðum nær ótrúlega oft að snúast um þá sem ekki stjórna eða hafa stjórnað áður.

Auðvitað er engin ástæða til að forðast lærdóm og læra af fyrr mistökum en af hverju treysta fræðimenn sér ekki til þess að ræða það sem er að gerast í dag af akademískri stillingu og virðuleika? Skilin milli stjórnmála og fræðimennsku eru að þurrkast út.

Það er vissulega ábyrgðarhlutur að hlaupast undan þó á bátinn gefi. Sér í lagi ef mælanleg vissa er fyrir því að vel sé að ganga. Engu slíku er þó til að dreifa þegar reynt er að rýna í spilin.

Díllinn sem gerður var í upphafi og ég hef margbent á gékk út á að annar flokkurinn fær að gera það sem hann vill í efnahagsmálum á meðan hinn leikur lausum hala í Brussell. Hvorugur flokkanna getur svo lifað með þessu samkomulagi og þjóðin blæðir fyrir.

Og nú er svo komið fyrir flokkunum að hvorugur þorir að rifa seglin og horfast í augu við kjósendur. Össur og Steingrímur eru hræddir við búsáhöldin sem komu þeim að. Hver hefði trúað því? Hvað er að óttast þar spyr ég....?

Þess vegna horfum við upp á klíku og klækjapólitík eins og hún gerist dapurlegust. Þar sem einu hagsmunirnir sem gilda er flokksins og þeirra sem þar þurfa að ráða. Öll önnur sjónarmið eru látin lönd og leið og engu skiptir þó sett verði ný viðmið í orðhengilshætti. Þetta vita allir og sjá....

Á þessu öllu bera þeir ábyrgð sem um hana biðja. Engin fortíð skiptir hér máli. Engin stjórnarandstaða. Engir vondir hægri menn sem kunna ekki að skammast sín.

Verk og verkleysi þessarar ríkisstjórnar eru algerlega á hennar eigin ábyrgð. Ekkert sem hefur áður gerst breytir því alveg sama hversu oft er talað um það.

Það verður mjög áhugavert að fylgjast með hanaatinu þegar flokkarnir tveir hefja svo kosningabaráttuna úr ráðherrabústöðunum. Og þannig verður það. Það mun verða nauðsynlegt fyrir flokkana að sverja hvorn annan af sér og kenna hvor öðrum um.

Óþolið sem byggst hefu upp hratt og örugglega mun þá brjótast upp á yfirborðið þegar ráðherrastólaylurinn heldur ekki lengur.

Þá verður allt tal um ábyrgð með nýju sniði. Þá verður allt öðrum um að kenna. Ábyrgðin liggur hjá hinum.

Röggi

Engin ummæli: