laugardagur, 24. nóvember 2007

Pútin fellir grímuna.

Ég hef stolist til þess undanfarna mánuði að benda á að gamli KGB fanturinn Pútin virðist ekki lengur nenna að fela eðlið. Hef verið áminntur um að kalda stríðið sé búið og svona málflutningur því orðræða gærdagsins.

Læt mér það í sjálfu sér í léttu rúmi liggja hvað menn vilja kalla stríðið sem Pútín heyr gegn þeim sem hann ekki getur mulið undir sig. Sennilega er það frekar heitt en kalt.

Lengi vel lét hann sér duga að skreppa með reglubundnum hætti yfir til Tjeteniu til að leggja Grosní í rúst. Hann getur hvorki þolað þeim né öðrum fyrrverandi undirmálsþjóðum neina sjálfstæðistilburði.

Vinir og vandamenn fara til London og kaupa sér fótboltalið til að auðvelda þeim þjófnaðinn á auðæfum Rússa. Svo eru alltaf einhverjir sem ekki uppfylla tilsett skilyrði og lenda þá í grjótinu. Heitir hann ekki Kodorkovski sem situr inni fyrir sakir sem enginn veit hverjar eru. Nýríkir Rússar flæða um allt í skjóli Pútins. Feitir af olíunni sem einu sinni var í eigu þjóðar og ríkis en ekki er alveg ljóst hver skilyrðin voru þegar einkavæðingarnefnd Pútins sérvaldi.

Blaðamenn myrtir og eitrað fyrir fyrrverandi þrjótum. Nú er Pútin alveg hættur að fela það að hann þolir ekki pólitískt lýðræði heima fyrir þó hann aðhyllist það af öllum mætti víða annarsstaðar. Hver bannar mótmælafundi? Og handtekur fólk sem vogar sér. Úlfurinn er að fella sauðargæruna.

Mjög margir þola ekki Bush og saka hann um eitt og annað misfagurt. Er almennt talinn stappa nærri því að vera þroskaheftur í ákveðnum kreðsum. Enginn frýr þó Pútin vits.

Hver er þá skýringin?

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eins og maðurinn sagði: "Russia has always been governed by deceit."