fimmtudagur, 13. desember 2007

Svekktur þjálfari.

Það er ekki ofsögum sagt að hann sé sársvekktur þjálfari kvennaliðs stjörnunar í handbolta. Aganefnd HSÍ tók myndarlega á ummælum hans síendurteknum í fjölmiðlum.

Gæti skrifað mikinn langhund um það hvernig þeir sem tengjast íþróttum geta misskilið margt sem kemur að dómgæslu. Þjálfarinn er einn af þeim þó að ég geti alveg skilið að ekki sé vel gott að fá óreynt par í stórleik sér í lagi þegar þeir menn eru svo ekki að standa sig.

Staðreyndin virðist vera sú að það sárvantar menn til að sinna dómgæslu í handbolta og mig undrar það ekki ef þetta er umgengin sem í boði er. Enginn verður óbarinn biskup í dómgæslu og einhverntíma þurfa menn að fá sénsinn sinn. Hvenær það er nákvæmlega getur verið álitamál.

Það er ekki að ástæðulausu sem þjálfurum víða um lönd er bannað að tjá sig með svona hætti um dómgæslu. Svona ummæli eru einfaldlega ekki góð auglýsing fyrir íþróttina auk þess sem þetta er engin leið til þess að umgangast fagaðila sem eru allir að vinna að framgangi íþróttarinnar.

Þjálarar eiga hiklaust að hafa faglega skoðun á öllu sem kemur að frammistöðu dómara. Slíkt getur verið mjög gagnlegt fyrir dómarana sjálfa ef umfjölluninni er beint á rétta staði og vandað til hennar.

Fjölmiðlar eru ekki þeir staðir.

Röggi.

1 ummæli:

Runar sagði...

Þennan pistil skrifaði ég á bloggið hjá Henry Birgi, læt hann vaða hér líka

Þetta mál staðfestir mig enn meir í þeirri trú sem ég hef haft lengi. Það er akkilesarhæll handboltadómara að vera í pörum. Ég hef sagt þetta lengi og rætt við ýmsa handboltamenn sem eru sammála.

Afhverju segi ég þetta, t.d. í þessum leik eru ungir og efnilegir dómarar, allavega að sögn Guðjóns formanns dómaranefndar HSÍ. Þessum tveimur mönnum er kastað út í djúpu laugina í þessum leik. Það er ekkert óeðlilegt við það, einhvern veginn verða þeir að öðlast reynslu af stórum leikjum. En þar komum við einmitt að galla dómarapara. Þegar að eru pör þá eru báðir dómararnir jafn ó/reyndir, ef það væru ekki pör eins og er t.d. í körfubolta (já ég var körfuboltadómari og þekki það vel), þá er hægt í þessu dæmi að setja einn kjúkling með reynslubolta á svona leik. Þannig fer sviðsskrekkurinn af kjúklingnum í skjóli reynsluboltans. Smá saman fær svo kjúklingurinn meiri reynslu af svona leikjum og getur dæmt með mönnum með minni reynslu en boltinn sem hann dæmdi með fyrsta leikinn.

Annað sem ég segi oft varðandi þetta paradæmi. Segjum svo að Ísland eigi t.d. frábært par sem dæmir á öllum Ól, HM, Em og hvað þetta allt heitir. Svo gerist það að annar þeirra hefur ekki sömu löngun lengur, kannski ný vinna með meiri kröfur eða stærri fjölskylda sem þarf að sinna. Hann einfaldlega hefur ekki tíma í dómgæsluna lengur. Hinn vill halda áfram en þar sem það er parakerfi þá þarf hann að ná sér í kjúkling og þjálfa hann upp. Hann fær ekki að fara með kjúklinginn á HM, ÓL, EM og allt það.

Svo einn enn punktur sem fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í handbolta sagði við mig, það er mikið auðveldara að múta pari þar sem báðir koma frá sama landinu en ef t.d. einn kæmi frá Austur Evrópu og hinn frá Vestur. Hangir þetta kannski eitthvða saman með leik Kuwait og SKóreu?

Ég styrkist allavega enn í trúnni að handbolti á að hætta með pör ef dómgæsla á að þróast í greininni.