sunnudagur, 9. nóvember 2008

Ekki kenna veginum um.

það er gaman að hlusta á Jón Baldvin. Skeleggur og fluggáfaður. Talar af ástríðu og langoftast virkar hann mjög sannfærandi. Við erum þó að jafnaði ekki sömu skoðunar...

Hann var í útvarpinu í morgun að verja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þær reglur sem þar gilda en þær reglur eru einmitt reglurnar okkar. Frelsi í viðskiptum og frjálst fjármagnsflæði og þess háttar.

Hann líkti þessu við að lagður yrði vegur með akreinum til beggja átta til að auðvelda mönnum umferð. En þvertók fyrir að nokkurn tíma yrði hægt að kenna þeim sem lagði veginn um glæfra og eða glæpaakstur þeirra sem um veginn færu.

þarna komst hann vel að orði blessaður. því þó vegurinn sé lagður og ekki hægt að koma algerlega í veg fyrir að menn fari óvarlega þá er það varla veginum um að kenna menn hagi sér eins og bjánar. Ekki frekar en að innflytendur eiturlyfja geti með nokkru móti komið sér undan ábyrgð á eigin gerðum með því einu að benda á að eftirlit með landamærum sé svo gloppótt að þeir hafi hreinlega ekki komist hjá því að gera þetta.

Gerum við götin sem komu í ljós þegar misgráðugir bankamenn tóku sig til en látum þá ekki komast upp með að kenna öðrum um. þeir óku eins og brjálaðir menn um veginn sem lagður var.

það er ekki veginum að kenna. Jón Baldvin orðar þetta best...

Röggi.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þjóðin er frekar eins og saklaust lítið stúlkubarn sem fer í vist hjá frænku (stjórnvöld) og er nauðgað af heimilisföðurnum (útrásarkallinn).

Svo logar allt í meðvirkni þegar upp kemst um strákinn Tuma. Enginn látinn sæta ábyrgð gerða sinna og ekki má líta um öxl.

Nafnlaus sagði...

Aha ég skil.... þú ert að taka orð Jón Baldvins nota þau til að lýsa yfir sakleysi þíns flokks

Smart Röggi...eða hitt þá heldur

Björg sagði...

Alveg sammála þér Röggi.
Jón Baldvin er frábær hvar sem hann er og ætti að vera miklu meira áberandi í umræðunni sem nú á sér stað í þjóðfélaginu.

Nafnlaus sagði...

Það má vel kenna veginum um glæfraaksturinn - við tókum nefninlega bara aðra akreinina með EES samningnum. Hirtum frelsið, en skyldum öryggisnetið eftir.

Nafnlaus sagði...

Það var allt í lagi með veginn. Löggan leit bara í hina áttina.

Nafnlaus sagði...

Hver er munurinn á að kenna EES-samningnum um eða kenna krónunni um?

Nafnlaus sagði...

Það á enginn að aka með svona mikið hvítt í nösunum vinur

Nafnlaus sagði...

Blessaður vegurinn var rangt og illa lagður. Okkur var talið trú um að vegurinn væri á milli tveggja tilgreindra staða, en það gleymdist að segja okkur að einn og einn bíll tæki óvæntan krók.

Jón Baldvin er bara eins og allir aðrir. Það var ekkert sem hann gerði sem hefur nokkuð að gera með þetta. Hann kann að gagnrýna, en gleymir að samningurinn um EES er það sem bjó til hliðið, alls konar tilskipanir ESB sesm við tókum upp opnuðu hliðið og bankarnir gengu í gegnum það. Það sem gerðist hér á landi, hefði ekki getað gerst nema allt þetta þrennt hafi verið til staðar.

Nafnlaus sagði...

Jón Baldvin er stórlega ofmetinn.

Nafnlaus sagði...

Ég er nú - eiginlega alveg - ósamála enda hef ég (bæði í starfi og kennslu) notað samlíkinguna um saklausan og hægfara vegfaranda/neytanda (les nú: borgara) gagnvart hættulegum og hraðskreiðum bifreiðum - en eigendur þeirra samkvæmt langri norrænni löggjafarhefð meira meiri ábyrgð (svokallaða hlutlæga ábyrgð) en aðrir, þ.e. gangandi, vegfarendur.

Svo hef ég nú alltaf verið hlynntur vegriðum - bæði yst á vegum - en ekki síður á milli akreina þar sem hættan er mest eins og íslensk dæmi sanna - bæði úr raunheimi umferðar og í óeiginlegri merkingu.

Nafnlaus sagði...

Gleymdist að taka fram það sem mér hefur lengi fundist augljóst: bifreið = fyrirtæki/atvinnulíf; afar gagnlegt en stórhættulegt fyrirbæri ef óvarlega er farið og dómgreindin skert - einkum við erfiðar aðstæður.