fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Patentlausn og það strax.

Hann er stór hópurinn sem heldur að ráðamenn okkar séu dusilmenni sem ekkert eru að gera. Enda fjölmiðlar fullir af fólki dag eftir dag sem hefur lausnirnar sem reynast síðan handónýtar við nánari skoðun.

Iss þetta er ekkert mál. Fáum bara peninga hjá gjaldeyrissjóðnum og málið reddast. Nú eða Rússum eða jafnvel Kínverjum. Norðurlandaþjóðirnar láta okkur svo líka hafa aur og allt verður gott.

Svo eru þeir að koma upp núna sem geta reddað málinu á viku! Tökum bara upp Evruna og þá verður þetta ekkert mál. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að halda að nú sé til einhver patentlausn. Það er Íslenska aðferðin.

Svo er skammast yfir því að ekki birtist einhver ráðherra daglega og segi við okkur að allt verði nú gott. Best væri ef allar upplýsingar lægju á borðinu frá einni klukkustund til annarrar.

Við eigum reyndar einn svona ráðherra. Hann Össur okkar sem er skemmtilegasti ráðherrann svo af ber. Hann rýkur til og lofaði okkur 1 000 milljörðum um leið og REY hugmyndin komst á rekspöl. Nú er það olían. Þetta er allt gott og blessað en ekki sérlega ábyrgt.

Betra er að tala þegar hlutirnir eru klárir. Nú eru ráðamenn lika skammaðir fyrir að lánið sem þeir töluðu um að kæmi sé ekki komið. Hefðu kannski betur þagað! Samt voru fulltrúar gjaldeyrissjóðsins sjálfir búnir að segja á fundi hér að allt væri meira og minna klappað og klárt.

Kannski er bara verið að greiða úr flóknum stöðum sem breytast dag frá degi alveg án þess að þær breytingar sé kokkaðar upp hér. Engin ástæða hvorki til þess að vekja upp falsvonir eða hræða. Róleg og yfirveguð skilaboð eru málið en ekki popúlismi.

Fólk hittist niðri í bæ vikulega núna og heimtar breytingar. Væntanlega kosningar. það væri snilld, fá stjórnarkreppu ofan í allt annað. Engin önnur stjórn mun gera þetta betur eða öðruvísi.

Við trúm því líka að með því einu að lýsa því yfir að við ætlum í aðlildarviðræður um inngöngu í ESB að þá muni allt lagast. Engin möguleg stjórn er sjáanleg í kortunum sem er tilbúin í það núna. Kosningar eru því óþarfi og leysa ekkert.

Patentlausna þjóðin lætur ekki að sér hæða. Gerir sér ekki grein fyrir þvi að við höfum slæman málsstað að verja og ríkistjórnin virðist hrekjast undan í vonlitilli tilraun til að reyna að komast undan ábyrgð. Ábyrgð sem umheimurinn allur virðist á einu máli um að við losnum ekki undan.

það eru engar góðar fréttir greinilega og mér sýnist mjög margt af því sem hérlendir fjölmiðlar hafa étið upp ef erlendum vera getgátur einar.

það verða engin töfrabrögð sem redda okkur núna. Hvorki stjórn né stjórnarndstaða munu galdra okkur á þurrt land. En menn geta verið handvissir um að unnið er nótt og dag við að finna leiðina þó það sé ekki gert í beinni.

Röggi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er alveg sárt að lesa svona meðvirkni.

Nafnlaus sagði...

Já...sé það núna Röggi að þetta er alveg rétt hjá þér.

Það eru allir að vinna vinnuna sína og við getum treyst því að besta fáanlega niðurstaða fæst enda eðal fólk sem sér um málin ;)

Og Davíð...hann er bara fínn.
Skil ekkert í mér að láta mér detta til hugar að ég gæti ekki treyst þessu fólki..... og Árni Matt! Eðal tappi! Amk ágætis dýralæknir

Nafnlaus sagði...

Vaknaðu maður. Sammála Daða, stoppum spillingun!