mánudagur, 10. nóvember 2008

Eru stjórnvöld alltaf heimsk?

Það er þetta með eðli hlutanna. Liggur það bara í eðli hlutanna að hagfræðingar sem vinna hjá seðlabankanum séu að jafnaði á annarri skoðun en aðrir hagfræðingar? Man varla eftir öðru en að hagfræðingum bankans hafi verið mótmælt hátt og snjallt áratugum saman af hagsmunaaðilum.

Fjölmiðlar eru stútfullir af hagfræðingum og öðrum sérfræðingum sem fullyrða að stjórnvöld og seðlabanki séu að steypa okkur í glötun. Lausnin blasir við öllum öðrum en þeim sem stjórna hvar sem niður er borið í stjórnkerfinu.

Ef lausnin er að skipta um mynt á viku eins og hagfræðingur einn fullyrðir að sé ekki bara skynsamlegt heldur beinlínis auðvelt og fljótlegt, af hverju er það þá ekki gert? Vinna bara hálfvitar hjá hinu opinbera? Fólk sem veit ekki neitt og vill okkur hið versta? Vantar ekki eitthvað í þessa jöfnu?

Fyrir marga vantar ekkert. Þeir hafa hatrið á Davíð til að styðjast við. En dugar það? Varla getur hann haldið Samfylkingunni og öllum fulltrúum í bankaráði í faglegri og pólitískri gíslingu þó geðveikur sé.

Ég man varla eftir því að fjölmiðlar hafi getað haft upp á einum einasta sérfræðingi sem hefur stutt aðgerðir seðlabankans og stjórnvalda. Hvort það er matreiðsluaðferð þeirra sem þar ræður eða bara að engir slíkir finnist veit ég ekki.

Hitt veit ég að mér gengur illa að trúa því að þeir sem ákvarðanirnar taka séu illa innrættir. Samvinna við erlend stjórnvöld og sjóði daglegt brauð en samt ekki hægt að taka almennilegar ákvarðanir handa okkur. það eru bara þeir sem ekki ráða sem hafa lausnirnar.

Meirihluti þjóðarinnar vill ESB og evru. Hann vill líka afnema verðtrygginguna. Hann vill losna við Davíð. Hann vill meiri upplýsingagjöf. Hann vill kosningar. Og hann vill svo margt sem þeir sem ráða hlusta ekki á.

Hvernig stendur á þessu? Eru ráðamenn heyrnalausir eða bara hreinlega óheiðarlegt fólk sem vill illa? Varla, enda væru það mikil vonbrigði fyrir þann mikla meirihluta sem kaus núverandi stjórnarflokka. Verður til einhver sjálfvirk tregða hjá valdhöfum sem birtist þannig að aldrei er hvikað frá ákvörðunum sama hversu vitlausar sem þær reynast?

Er það málið? Misskilið stolt og þrjóska. Ætli þetta sé þá fjölþjóðlegt fyrirbrigði því fá stjórnvöld virðast hafa staðið sig í bankastykkinu og lenda nú í sömu súpunni og við þó kostnaðurinn sé víðast viðráðanlegur. Heimsk stjórnvöld sofa á verðinum á meðan þeir sem ekki stjórna segjast hafa séð þetta allt fyrir, og hafa lausnirnar sem þessi heimsku yfirvöld geta ekki komið auga á.

Er þetta kannski lögmál? Hæfasta fólkið vinnur kannski ekki hjá ríki og sveitarfélögum. Ég skil vel tregðuna hjá yfirvöldum að láta ekki þrýstihópa stjórna frá degi til dags. Núna er staðan þannig að þrýstihópurinn sem vill evru er eiginlega orðinn nánast allt atvinnulífið.

Ef lausnin á öllum okkar vanda liggur í því að taka hana upp með öllum ráðum á skömmum tíma af hverju er það ekki gert? Eru góðar ástæður fyrir því? þekki það ekki nógu vel en þekki það ekki heldur hvort lausnin svona augljós og auðveld.

Mér finnst vanta að stjórnvöld verji hendur sínar. Segi mér af hverju þetta en ekki hitt. Seliji mér það betur að bestu ákvarðanir séu teknar að vandlega yfirlögðu ráði eins og ég er viss um að sé reyndin.

Stjórnvöld eru að verða eins og hæstiréttur. Þegja bara í fullvissunni um að hafa rétt fyrir sér. Og að "þurfa" ekki að rökstyðja það frekar. Þar er ég ósammála.

Nú þurfa stjórnvöld að snúa vörn í sókn og fara í grendarkynningu á starfi sínu. Annars verða þau kafffærð varnarlaus af sérfræðingum utan kerfisins sem hafa lausninar. Eða hvað?

Röggi.

Engin ummæli: