mánudagur, 17. nóvember 2008

Skúrkarnir sleppa.

Egill Helgason setti fram þá kenningu að Hanesi Smárasyni hafi hugsanlega verið umbunað fyrir að taka að sér að verða blóraböggull þeirra útrásarvíkinga. Eitt er víst að hvort sem það var gert með samþykki Hannesar eður ei að þá hefur tekist að gera hann að holdgervingi spillingar.

Og hann á allt skilið sem um hann er sagt en frá mínum bæjardyrum séð var hann peð. Peð sem Jón Ásgeir og félagar fórnuðu þegar allt fór fjandans til. Engu skiptir hvort menn tala um viðskiptin með Sterling eða rekstur FL group/Stoða eða Baugs. Eða Icelandair áður. Eða.....

Allt í kring og alls staðar er sami maðurinn aðalsöguhetjan í bakgrunninum. Maðurinn sem er með aurana og er oftast formaður stjórna félaganna og ber því mesta ábyrgð á rekstrinum. Ræður forstjóra og rekur og tekur grundvallar ákvarðanir. Leggur línurnar og ræður för.

Þessi maður heitir Jón Ásgeir. Hef ekki tölu á því hvað maðurinn sat og eða situr í mörgum stjórnum. Og varla dettur nokkrum manni í hug að hann komi ekkert að ákvörðunum þeirra fyrirtækja sem hann og hans fólk á meirihluta í.

Hann segist hafa komið inn í stjórn Stoða um síðustu áramót og tekið til við að skera niður stjórnunarkostnað. þvílík ósvífni. Stoðir/Fl group eru fyrirtæki í hans eigu. Rúmlega 6 000 milljóna kostnaður á örfáa starfsmenn árum saman var ekkert að koma flatt upp á Jón nú um áramótin.

þeir eru kræfir þessir menn. Litli Björgólfur heldur því fram að hann hafi bara ekki ráðið neinu um rekstur Landsbanka vegna þess að bankanum sé svo þröngt skorinn stakkurinn af eftirlitsstofnunum. Á sama tíma tala menn í bankanum um að skortur á aðhaldi og eftirliti hafi verið málið.

Þetta er allt meira og minna gleypt hrátt í fjölmiðlum hér. þeir sem hafa vogað sér að benda á þetta árum saman hafa að jafnaði verið úthrópaðir og eru jafnvel enn. Þetta var allt pólitík...

Flettum nú ofan af þessum mönnum og drögum þá til ábyrgðar og hættum að gapa af aðdáun þegar þeir ljúga að okkur ítrekað. Þeir geta ekki vísað á neinn. Eins og ég sé þetta þá standa þeir á berangri og svívirðan blasir við þeim sem vilja sjá.

En við erum svo upptekin af því að berja á stjórnmálmönnum að við gleymum gerendunum sjálfum. Þeir kenna reglum ESB um að þeir svindluðu. Næst hlýt ég að geta kennt bankanum mínum um að hafa lánað mér svona mikinn yfirdrátt. Vel kann að vera að reglur bankans um útlán hafi verið of sveigjanlegar en ég ber þó fjandakornið ábyrgð í mínum eigin gjörðum og ákvörðunum.

það eiga þessir menn að gera líka. Ekki bara Hannes Smárason. Hann var ekki aðal. Nú er mál að við beinum sjónum okkar að kóngunum og sér í lagi Jóni Ásgeir. Hann er nefnilega kóngur eins og við sjáum aftur og aftur. Ekki bara er siðferðið á viðskiptasviðinu laskað heldur er virðing hans fyrir úrskurðum dómstóla lítil.

Hversu lengi ætlum við að láta bjóða okkur þetta? Fórnarkostnaðurinn er nefnilega miklu meiri en bara einn Hannes. Reikningurinn er á leiðinni og við ætlum að láta skúrkana sleppa af því okkur finnst svo gaman að lemja á ríkisstjórninni.

Við skulum ekki snuða okkur um það en kíkjum nú á þessar alþýðuhetjur okkar líka því stjórnmálamenn munu fá það sem þjóðin vill á endanum. Útrásarhetjurnar eru að sleppa létt með fangið fullt af aurum....

Sem börnin okkar eiga eftir að borga...

Röggi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svo sem ágætur pistill hjá þér í þetta skiptið en hvað með hina "ábyrgu efnahagsstjórn" Sjálfstæðisflokksins?
Þú tekur ekkert á henni í þessum pistli.

Nafnlaus sagði...

Röggi er bara að éta upp línuna frá náhirðinni. Málið er að Röggi er örugglega einn af þeim sem alltaf hefur dáðst að Davíð Oddsyni og elt ruglið í honum öll þessi ár. Nú eru menn eins og Röggi í krísu. Þeir eru að átta sig á því að sú stefna og sú leið sem þeir hafa stutt var heimskuleg, hrokafull og kolröng fyrir okkar þjóðfélag.
Þeir héldu að þeir væru að kjósa hægri flokk en í staðinn voru þeir að kjósa skringilegan flokk pilsfaldarkapítalista sem voru ofboðslega hrifnir af Sovéskum "heildarlausnum". Eins og risastórum ríkisstyrktum orkuframkvæmdum.
Þetta eru upp til hópa miklir þrjóskupúkar og eiga ákaflega erfitt með að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að hafa troðið kolröngum leiðum og lausnum upp á íslenska þjóð.
Þess vegna er náhirðin og þeirra heimsku fylgismenn að finna óvin í Jóni Ásgeiri and now they're going in for the kill. Nú sjá þeir færi til að gera það sem þeim tókst ekki í gegnum dómskerfið öll þessi ár.
Það væri öllum Íslendingum til mikillar gleði ef Röggi og náhirðin steinhéldi kjafti og gæfi okkur hinum frið til að byggja upp nýtt Ísland. Náhirðin og einfaldir fylgismenn hennar eru klárlega ekki hluti af lausninni þeir eru stærsti hluti vandans!

Nafnlaus sagði...

Til nafnlauss nr. 2 - Kárahnjúkavirkjunin var ekki ríkisstyrkt, fáráðurinn þinn. Og vertur ekki svona heimskur að kóa með útrásarvíkingunum svokölluðu sem veðsettu þjóðina langt fram í aldir með eyðsluflippi sínu og flottræfilshætti. Er virkilega svona mikil auðsdýrkun hjá þér maður? Svona auðsdýrkunarþvaður er svo mikið 2007. Wake upp man and welcome to the reality! Þú hlýtur að vera í Samfylkingunni, maður.
Röggi hefur lög að mæla!