fimmtudagur, 9. október 2008

Snilld og dylgjur...

Hvort sem mönnum finnst ástandið í dag vera ríkisstjórninni að kenna eður ei er morgunljóst að þar á bæ er verið að vinna ótrúlegt starf þessa dagana við ömurleg og nánast vonlaus skilyrði á meðan gerendur í málinu flugu burt í einkafákum sínum til eigna sinna erlendis. Geir og Björgvin standa í stefninu og reyna að halda andliti og berja í okkur ró og skynsemi. Frá mínum bæjardyrum séð eru þeir að brillera.

Ég hef aldrei verið ráðherra en veit að allajafna er það erfitt og erilsamt djobb. Takist ríkisstjórninni að koma plottinu í framkvæmd eins og vonast er til yrði það afrek. Hlýtur samt að vera erfitt að taka gjaldþrota fyrirtæki og liða það í sundur og hirða það sem er í lagi en henda skuldunum í lánadrottna erlendis. Vonum það besta...

Ríkisstjórnin stendur sterk sýnist mér og samhent. Í öllu nema einu. Sumir ráðherrar birtast nú og eru hreinlega hættir að reyna að tala undir rós þegar kemur að stjórn seðlabankans. Nú skal hreinsa til og það strax.

Burtséð frá því hvaða skoðun menn kunna að hafa á seðlabankanum er mikilvægt að ráðherra séu ekki að dylgja hver í sínu horni. Annað hvort er tekin ákvörðun um breytingar eða ekki. Ef ekki þá er eðlilegt að ráðherrar standi að baki þeirri ákvörðun.

Nóg er grafið undan bankanum og vandséð að stjórn hans lifi lengi úr þessu. Þá ganga menn hreint til verks og samhentir og gera breytingar vafningalaust. Þannig á að gera hlutina. Og þannig gerir ríkisstjórnin hlutina best eins og við sjáum nú dag eftir dag.

Röggi.

Engin ummæli: