miðvikudagur, 22. október 2008

Nú er þolinmæði dygð.

Nú gætir óþolinmæði hjá okkur. Við viljum fá lausn á peningavandræðum þjóðarinnar. það er eðlilegt. þessa óþolinmæði má greina vel hjá sumum sem vinna við að tala í útvarp. Ég hlusta stundum á Heimi og Kollu á bylgjunni á leið til vinnu á morgnana.

Oftar en ekki er ekki verið að kafa mjög djúpt hjá þeim skötuhjúum. Heimir lætur það fara í taugarnar á sér að ekki fæst upplýst hvað er að gerast nákvæmlega í viðræðum ríkisins við erlendar stofnanir. Í morgun lagði hann það til að ríkið myndi aðstoða "fólkið" í vandræðum sínum!

Frábært heilræði finnst mér og í raun merkilegt að ríkisstjórninni skyldi ekki hafa dottið þetta snjallræði í hug. það tók fólkið sem á bankana nokkur ár að koma okkur í þessa stöðu. Gefum nú þeim sem eru að taka til tíma til að gera það.

Er einhver sem heldur að menn séu ekki að gera neitt? Ekki sé neitt mál að redda bara nokkur þúsund milljörðum sísona. Fjöldi fólks vinnur nótt og nýtan dag út um allar koppagrundir í vinnu sem ekki sést en er nauðsynleg þó hún sjáist ekki á fréttastofum.

Trúnaður og þagmælska eru örugglega mikilvægir þættir þegar svona vinna fer fram. Óþarfa innantómt gaspur er ekki líklegt til að skila neinu þó það þjóni hagsmunum fjölmiðlamanna til skemmri tíma.

Nú eru þeir eðlisþættir Geirs sem pirra stundum, rólegheitin og yfirvegunin, til bóta. Gefum þessu fólki tíma til að moka flórinn og það almennilega.

Hins vegar er afstaða Heimis og Kollu alveg týpísk fyrir okkar þjóð. Redda bara málinu og það fljótt. Loka bara augunum og vona að vandinn verði farinn þegar við opnum aftur. Patentlausna þjóðin lætur ekki að sér hæða.

Röggi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kannski finnst okkur fávísum undarlegt að það skuli vera sama fólkið og hjálpaði bönkunum við glæpastarfsemi og það sem "kemur til bjargar".
Það örlar lítillega á vantrausti, Röggi
VIÐ VILJUM FÁ AÐ VITA HVERN ANDSKOTANN ÞESSI SKAÐRÆÐISKVIKINDI ERU AÐ GERA!!!!!!!

Nafnlaus sagði...

Vel orðað.... skaðræðiskvikindin eiga ekki að fá að vinna allt á bak við tjöldin núna. Það erum við, börnin okkar og jafnvel barnabörn sem koma til með að moka út flórinn eftir þessa vitleysinga

Nafnlaus sagði...

Þú ættir að lesa eftirfarandi pistla:
http://www.dv.is/leidari/2008/10/22/sok-biti-alla-seka/

http://hnakkus.blogspot.com/

Vonandi þeir geti aðeins hrist upp í flokksátrúnaði þínum