þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Flottur Jón Baldvin.

Ég fékk aðkenningu að gæsahúð þegar ég las grein Jóns Baldvins í mogganum í morgun. Þar var naglinn sleginn á höfuðið á snilldarlegan hátt á köflum.

Hvernig hann talaði um forseta vorn og fjölmiðla. Og viðskipti bankanna við eigendur sína. Allt þetta ætti að blasa við okkur þó margir geti ekki séð neina vankannta á forseta vorum af því að það hentar ekki pólitískt. Hann ber einn ábyrgð á því í hverri stöðu fjölmiðlar á Íslandi eru.

það sem gladdi mig mest var samt að Jón Baldvin skuli nú svo löngu eftir að Vilmundur klauf sig frá Alþýðuflokknum til að fylgja sannfæringu sinni sjá að Vimmi var með málið. Því eins og maðurinn orðaði það, það er kerfislæg villa hjá okkur.

Við erum ekki með aðskilnað milli löggjafans og framkvæmdavalds. Höfum aldrei verið með það. Hér er löggjafinn í vinnu hjá framkvæmdavaldinu. Þetta er í grundvallaratriðum þvæla og stórhættulegt. Menn voru ekki að grínast þegar talað var um þrískiptingu valds.

Hef sagt þetta þrjú hundruð sinnum og munar ekki um eitt skipti enn. Þingmenn eru ekki ráðherrar. Kjósum forsætisráðherra beint og hann velur sér stjórn. Þetta sá Vimmi fyrir löngu síðan að er rétta leiðin og vonandi munu fleiri sjá þetta nú.

Ég er sammála Jóni Baldvin með að nú er rétti tíminn til að koma með alvöru hugmyndir um uppstokkun á kerfinu. Ekki er nóg að skipta um andlit ef systemið er ónýtt. Geri mér grein fyrir þvi að mjög stór hópur hreinlega virðist ekki fatta að þetta er algert lykilatriði.

Þingið er löggjarsamkoma. Þjóðin kýs fólk til þings til að setja okkur lög. Ekki til að vera framkvæmdavald. Er það ekki augljóst? Þess vegna verðum við að kjósa forsætisráðherra beint og hann kemur svo málum framkvæmdavaldsins í gegnum löggjafarsamkunduna sem við völdum.

Jón Baldvin veit hvað hann syngur í þessu og þekkir spillingu þegar hann sér hana og veit kannski betur en margir hvar hún er uppalin og hvernig hún komst á legg. Gallað kerfi eykur líkur á slíku og því skulum við nú drífa okkur í því að koma þessu í lag.

Þetta er ekkert flókið. Þetta er lýðræðislegri leið til að velja sér forystu en sú sem nú er notuð. Í dag er alls ekki tryggt að "sigurvegarar" í kosningum komist að landsstjórn. Í kerfinu hans Vilmundar var það geirnelgt. Þjóðin kýs sér leiðtoga.

Það verður varla betra en það......

Röggi.

Röggi.

3 ummæli:

Björn Jónasson sagði...

Sammála. Hvar get ég skrifað undir?

Doddi

Nafnlaus sagði...

Já Jón Baldvin ætti nú að þekkja spillinguna þokkalega, enda sjálfur virkur þátttakandi í henni þegar hann var í pólitíkinni. Virkilega sterkur þegar hann var í Ríkisstjórninni.

Sem fjármálaráðherra afsalaði hann íslenska ríkinu skaðabótaábyrgð um leið og hann samdi við herinn um að vera 10 ár í víðbót. Arfaslakur samningur þar á ferðinni.

Hver man ekki eftir matarskattinum alræmda? Einu mesta níðingsverki síðari tíma. Hver skyldi hafa veitt honum brautargengi sem fjármálaráðherra? Já rétt, það var Jón Baldvin.

Kennarar muna vel eftir kauða sem fjármálaráðherra, þá ritaði hann fræga grein um kennara þar sem hann sagði laun kennara á þeim tíma fyllilega duga, og í raun rúmlega það.

Sem utanríkisráðherra hefur enginn verið duglegri en hann að skipa vini og samherja í pólitískar stöður. Grænustu framsóknarmenn komust ekki með tær þar sem Jón Baldvin hafði hæla.

Það er með ólíkindum að rakarinn glaðbeitti skuli mæla með þessum hætti. Helst gæti manni dottið í hug að hann hefði flogið á höfuðið með svona tali, en svona er Ísland í dag orðið. Það veit enginn hvað hver segir næst.
Síðustu mánuðina, eftir að kappi kemur heim frá bittlingaborði utanríkisþjónustunnar hefur hann eytt löngum stundum að minna á sig á alla vegu. Kemur með "hissa" svipinn í sjónvarpið og segir síma sína hleraða. Talar illa um allt og alla. Hann er einskonar mentor Össurar Skarphéðinssonar, sem hagar sér með sömu "hit and run" taktíkinni

Gunnlaugur Einarsson sagði...

Mér finnst að nafnlausi beiti smjörklípuaðferinni til þess að fegra eigin hugsun. Þarna eru fornar upprifjunaraðferðir notaðar til að kasta skugga á fólk sem hefur líklega sýnt yfirbót og vill allt gott til málanna leggja.

Gunnlaugur