mánudagur, 4. febrúar 2008

Aðförin að Ólafi.

Ég er sennilega með sömu þráhyggjuna varðandi umræðuna um Ólaf F og Egill Helgason, í öfuga átt við hann þó. Ég veit ekki með hvaða augum menn lesa blöð og fylgjast með fjölmiðlum. En það er nánast frábært að halda því fram að fjölmiðlamenn hafi ekki haldið því að fólki að Ólafur hafi ekki aðeins verið veikur, heldur allt að því geðveikur og óhæfur af þeim sökum.

þó er ég viss um að fólk almennt er ekki tilbúið að kalla taugaáfall vegna missis geðveiki þó meðöndlun vegna þess fari af praktískum ástæðum fram á geðdeildum. DV heldur áfram að reyna að klína á hann með því að tuða um meinta flughræðslu hans. Hvurslags er það? Er kannski von á úttekt á flughræðslu helstu stórlaxa í opinberri stjórnsýslu?

Hitt er rétt hjá Agli að fáir hafa haft nennu í sér til þess að fjalla um pólitík Ólafs. Helst að einhverjir hafi þá skoðun á því að maður með lítið fylgi sé borgarstjóri. Því er svo ekki fylgt eftir með neinum haldbærum rökum. Í mínum huga mælir fleira með því en færra að áhrif minni aðilans í svona samstarfi séu tryggð með þeim hætti en ekki. Málefni hafa helst ekki borið á góma enda voru þau ekki á dagskrá síðasta meirihluta.

Jú reyndar hafa sumir talað um að hann hafi fengið öllu sínu framgegnt gangvart sjálfstæðisflokknum en á sama tíma hafa þessar raddir ekki talið neina ástæðu til þess fyrir hann að skipta um pólitíska samstarfsmenn. Svona skipta málefnin miklu máli þegar menn vilja vera málefnalegir í tali.

Þarf ekki að taka það fram að ég gæti aldrei látið mér detta í hug að kjósa Ólaf. Þá skoðun hef ég haft allan tímann og aldrei látið mér detta í hug að skrifa um heilsufar hans hvorki þegar hann var talinn nýtilegur fyrri meirihluta né nú.

Mér sýnist tvær grímur vera að renna á æ fleiri. Það er ekki öllu fórnandi fyrir stjórnmál.

Röggi.

Engin ummæli: