fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Póker.

Þuríður Bachmann þingmaður VG var í útvarpinu í morgun. Tilefnið var þátttaka Birkis Jóns þingmanns í pókerspili. Þuríður er eins og of margir þingmenn illa haldin af forsjárhyggju. Verri einkunn fá þingmenn varla hjá mér.

Hræsnin í því að banna póker en leyfa allskonar fjárhættuspil önnur er furðuleg. Hvernig henni tekst að gera uppá milli atriða í þessu er merkilegt. Staðreyndin er sú að hér er spilað uppá peninga daglega án afskipta löggjafans.

Gjarnan er talað um spilafíkn þegar kemur að póker en ekki öðrum spilum. Póker er stundaður hér í bakherbergjum hingað og þangað eins og um ótínda glæpamenn sé að ræða. Væntanlega mæta spilafíklar ekki þangað af þvi að þuríður og félagar segja spilið ólöglegt.

Þvílík firra. Við sjáum þetta á fleiri sviðum því stór hluti þingsins telur að með því einu að banna hluti sem þegnarnir vilja gera þá hverfi þeir og séu ekki stundaðir. Hausnum stungið í sandinn. Málum sópað undir teppi og allir sáttir.

Best er að hafa hlutina upp á borði svo hægt sé að hafa eftirlit með þeim. Þetta sama fólk hélt því líka fram að þegar við fengjum að kaupa bjór fyrir opnum tjöldum í stað þess að smygla honum eða brugga að þá færum við öll á örlagafyllerí.

Þrýstum ekki hlutum undir yfirborðið. Það sem þar gerist er án eftirlits og hver græðir á því? Enginn þingmaður mun geta komið í veg fyrir að fullorðið fólk hittist og spili póker. Þess vegna er þetta bann ólög og vandséð hvaða hagsmunum það þjónar.

Röggi.

Engin ummæli: