miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Mergurinn málsins .

Nú fer að koma að því að fólk snúist í að finna til með Villa í stað þess að fordæma hann. það er að mörgu leyti skiljanlegt. Maðurinn hefur verið mjög lengi farsæll í sínum störfum og er þess utan viðkunnanlegur. Eins og ég sé málið þá er hann heiðarlegur og góður kall. Heiðarlegur en óhæfur.

Davíð og félagar vissu sem var að hann réði ekki við að leiða starfið í borginni og fóru því í þrigang út fyrir borgarstjórnarflokkinn eftir leiðtogum. Þeir vissu það sem við vitum núna. það vantar eitthvað uppá.

Góður vinur minn benti mér á að ég væri genginn í lið með andstæðingum flokksins og réðist nánast á liggjandi mann í stað þess að standa keikur með honum í gegnum skaflinn. Ég er á því að andstæðingar flokksins ættu alls ekki að leggja til að hann fari en við sem teljum okkur vera sjálfstæðismenn þurfum að bregðast við.

Ekki af skepnuskap. Alls ekki heldur vegna þess að hópurinn sem stjórnar borginni virðist vera að molna innan frá. Á meðan forysta flokksins heykist á því að taka afgerandi á málinu. Sá stuðningur við Villa sem formaður flokksins hefur verið að myndast við að lýsa er verri en enginn.

Mér finnst það lýsandi dæmi um ástandið að einhverjum geti dottið í hug að kjósa um eftirmann ef Villi fer frá. Enginn ætlar að treysta sér til þess að taka af skarið vegna þess að þá þarf að velja milli margra sem vilja heiðurinn. Látum börnin bara bítast um brauðið.

Það gengur ekki. Hægfara forysta flokksins verður nú að spretta úr spori. Engin ástæða er til þess að hengja Villa á torgum úti. Öðru nær enda spái ég því að hann hverfi fljótlega úr borgarstjórn með eins mikilli reisn og unnt er úr þessu. það á hann inni þrátt fyrir klaufaskapinn undanfarið.

Stjórnmál eiga að snúast um traust öðru fremur. Og þegar hópurinn sem þú átt að leiða treystir þér ekki lengur þá er ekkert eftir. Það er mergurinn málsins.

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vonandi heldur þú óhræddur áfram að hafa eigin skoðanir, þó þær séu gagnrýnar á flokkinn. Það þýðir ekki að þú sért genginn í annað lið, heldur bara að þú þorir að hafa skoðanir.