miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Kjarkaður Einar.

Hann er ekki alveg kjarklaus hann Einar K Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra. Ætlar greinilega að leggja það í vana sinn að fara að ráðum fræðinga um fiskiveiðar. Maðurinn er að vestan og þar hata allir hafró og kvótann. Og nú stoppar hann loðnuveiðar að ráðgjöf fræðimanna.

Þeir sem sækja sjóinn trúa að jafnaði ekki neinu sem fræðimenn segja um stofnstærðir. Útgerðarmenn stundum líka. Mér finnst þetta svona eins og að trúa á stokka og steina. Vill ekki gera lítið úr kunnáttu þeirra sem stunda veiðar en er ekki best að veðja á vísindin?

Hvað annað er í boði? Veðurfræði er ekki heldur skotheld vísindi en við höfum fátt betra þó veðurklúbburinn á Húsavík sé vissulega skemmtilegt fyrirbrigði. Við höfum ekkert val. Eða hvað?

Held að sjómenn hafi mótmælt öllum skerðingum á veiðum frá landnámi og alveg eðlilega. Þeir eru vanhæfir í málinu af augljósum ástæðum. Hafró ekki. Við heyrðum sömu röksemdir þegar síldin var kláruð og við heyrum í dag þegar menn vilja veiða meira en fræðimenn leggja til. Sjórinn er fullur af fiski.

Tek ofan fyrir Einari þó mér finnist niðurstaðan afleit. Það er þó hvorki honum né fræðimönnum okkar að kenna.

Röggi.

Engin ummæli: