mánudagur, 27. október 2008

Molbúarnir gapa af aðdáun.

Loksins þegar feðgarnir fégráðugu skríða undan feldinum og þora að horfast í augu við fólkið sem treysti þeim fyrir peningunum sínum þá vantar ekki að menn neita að taka ábyrgð á viðskiptum sínum.

Bjöggarnir eru með sama sönginn og Jón Ásgeir. Vandinn lá að sjálfsögðu í því að ekki var hægt að fá meiri peninga að láni og nú að þessu sinni frá skattgreiðendum hér heima. Þessi menn hafa byggt allt sitt upp á því að fá meira og meira að láni.

Hvenær fá menn hér nóg af þessari þvælu? Átti seðlabankinn bara að hlaupa til og henda ótrúlegum upphæðum á bálið? Bál sem ekkert benti til að myndi slokkna við það að kasta peningum á það. Frekjan og græðgin á sér engin takmörk.

Einu bankamennirnir sem kunna sig núna og reyna ekki að spila á lægstu pólitísku hvatir landans, með fínum árangri, eru kaupþingsmenn. þar á bæ ýmist þegja menn eða reyna að axla þó ekki væri nema hluta ábyrgðar.

Hvoru tveggja er rismeira en þessi fáránlegi málflutningur sem við horfum upp á dag eftir dag. Nú er orðið tímabært að við hættum að láta þetta mál snúast um seðlabankann og pólitík. Þetta snýst um það hvernig þessi menn ráku sín fyrirtæki og ábyrgð þeirra.

Hvernig þessir menn hafa sópað til sín peningum fólks og skammtað sjálfum sér ríkulega og vonandi eru sögurnar sem nú ganga um það hvernig þeir umgengust bankana síðustu klukkutímana ekki sannar. En þó þær væru sannar tækist þeim hugsanlega að skrifa það á seðlabankann.

Við erum ótrúlegir molbúar. Við snobbum fyrir þessu liði og látum hafa okkur að fíflum. Virðing fyrir fólki sem annað hvort lítur út fyrir að eiga peninga eða á þá er hér barnaleg. Dettur engum í hug að þessir menn séu ekki að tala af hlutleysi um eigin mál???

Talar Thor um sjálfan sig og sitt klúður eins og óháður sérfæðingur? Voru það sérstakir hagsmunir seðlabanka að setja bankana á hausinn eða voru þessir kallar búnir að keyra skútuna á kaf með þeim hætti að ekki varð neinu bjargað?

Hvar annarsstaðar reyna bankamenn að kenna öllum öðrum um en sjálfum sér? Ábyrgðin er engin! Það þarf meira en lítinn vilja til að trúa þessu. Pólitísk fötlun hjálpar vissulega til en dugar varla ein og sér.

Hættum nú að gapa af aðdáun þegar þessir aðilar opna munninn þó þeir eigi einkaþotur og fótboltafélög erlendis. Tökum á þeim með gagnrýnum huga og látum ekki pólitík blinda okkur. Mig skiptir nákvæmlega engu máli hvað Jón Ásgeir, Bjöggarnir eða kaupþingsliðið kýs í kosningum. Framkoma þeirra og aðferðir eru ekki stjórnmál. Jafnvel þeir sem telja að það sé reglunum að kenna að menn haga sér svívirðilega hljóta að geta seð að þessir menn eru ekki í stjórnmálum.

Gleymum því ekki í miðju þrasinu að kalla þessa menn til ábyrgðar. Og hættum að gapa af aðdáun þegar millarnir tala um eigin mál eins og hlutlausir sérfræðingar. Smáborgarahátturinn hér er stundum algerlaga fáránlegur.

Kannski eigum við þessa menn skilið...

Röggi.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er alveg hjartanlega sammála þér með það að þessir menn bera mikla ábyrgð. Gríðarlegar skuldir þeirra lenda á mér og börnunum mínum!

En ekki gleyma því hverjir sömdu leikreglurnar og sáu um dómgæsluna í þessum "leik".
Brutu þessir "óreiðumenn" leikreglurnar?
Ef svo er, afhverju var ekki dæmd á þá villa eða víti?
Afhverju fengu þeir að halda leiknum endalaust áfram?
Voru engar reglur lengur eftir til að brjóta?
Sömdu þeir kannski leikreglurnar sjálfir?

Eitthvað grunar mig líka að regluverkið okkar sé þannig að það verði aldrei hægt að dæma þessa kalla fyrir eitt né neitt. Það verði fyrirtækið (sem er farið á hausinn) sem ber ábyrgðina en ekki stjórnendurnir, sbr. olíusamráðið.

Mig grunar að ef við förum í einhverja aðför að eigum stjórnendanna að þá verði þeim það bætt margfalt seinna á grunni stjórnarskrárvarins eignaréttar. Eins sorglegt og það nú er.

Nafnlaus sagði...

Eru það ekki stjórnvöld, eftirlitsaðilar og seðlabankinn sem eiga að tryggja að peningamál hér á landi séu í lagi? Síðan hvenær færðist sú ábyrgð yfir á bissness menn? Ég borga ekki bissness mönnum launin en ég borga hinum þau.

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist það nú ekki skipta máli hvort Seðlabankinn láni bönkunum til að verja eignirnar sínar eins og seðlabankar annarra ríkja hafa verið að gera eða hvort við þurfum að taka risastórt erlent lán til að taka yfir hluta skuldbindinga þeirra. Árni Matt, Geir Haarde, Doddson, Björgvin G og Össur eru búnir að rústa lánstrausti Íslands til ca 20 ára með sinni ótrúlegu vanhæfni og hroka.
Það er ekkert annað þvergirðingsháttur Sjálfstæðismanna og bjánanna sem kjósa þá sem hefur komið okkur í þessi vandræði. Það er búið að benda á þessa veikleika í fjármálakerfinu hér í mörg ár og benda á einfalda lausn sem hefði ótal fleiri kosti í för með sér sem var innganga í ESB.
Fávitaskapur og hroki Sjalla hefur ekki átt sér nein takmörk og því erum við stödd hér í dag.
IG

Nafnlaus sagði...

Bara af því að Björgólfarnir þora að opna munninn, þá virðast allir telja sig hafa veiðileyfi á þá. En hinir sem engu þora og fela sig í útlöndum eru bara stikkfrí. Mér finnst þessi ummæli og fúkyrði dæma sig sjálf, hér er bara verið að elta vinsælustu umræðuna hverju sinni.
Hvernig væri nú að lesa bara það sem Björgólfur sagði í viðtalinu við Morgunblaðið og tjá sig að því loknu? Þar er heilmikið af málefnalegum skýringum og upplýsingum og alveg óþarfi að setja málin upp svona svarthvítt.

Nafnlaus sagði...

Og það er verið að reyna að byggja upp ímynd þessara manna af þeirra eigin fjölmiðlaveldi sem er nokkurnvegin 365.

Íslenskir blaðamenn eiga eftir að skilja eftir sig stórkostlega arfleið frá þessari krísu!

Unknown sagði...

Hvaða helvítis þvaður er þetta endalaust í ykkur sumum að við höfum öll snobbað fyrir þessum mönnum. Það má vera að þú og þínir vinir hafið stundað þetta meinta snobb, en ég frábið mér að vera settur undir þennan hatt. Sama er að segja um langflesta sem ég þekki og umgengst - bruðlið og fylleríið í útrásinni og fjárfestingabransanum hefur ofboðið okkur um langt skeið. Það eru ágætispunktar hjá þér í þessum pistli en blessaður hættu þessu kjaftæði að allir hafi mært þetta fyllerí.

Nafnlaus sagði...

Talandi um smáborgarahátt...lestu þetta blogg ---> https://www.blogger.com/comment.g?blogID=5041779452834848835&postID=8506008731071337956

Nafnlaus sagði...

Já þar hittiru naglann á hausinn en þetta gengur á báða vegu sko !
Það er furðulegt að fylgjast með hvernig menn eru að skipa sér í fylkingar um þessi mál, vissulega er ábyrgð þessara manna mikil en ekki er ábyrgð stjórmálamanna minni .

Nú er svo komið að það eru menn með dökkblá gleraugu búnir að slá skjaldborg utan um mesta klúðrarann í þessu öllu sem situr á sínum feita rassi uppí svörtuloftum maður sem sat sem forsætisráðherra í á annan áratug og átti frumkvæðið að einkavinavæðingunni sem er nú búin að skila okkur og börnunum okkar þessum skuldapakka næstu áratugina.
Minnir þetta á dýrkunina á Hitler í Þýskalandi nasismans !
D.O. er búinn að tala í ca 180 gráður frá því að hann sat í byrjun ferils síns sem forsætisráðherra niðrí stjórnarráði þar sem hann mærði þetta allt saman og talaði um öll sóknarfærin og hvað þetta væri allt gott og blessað ,og rétti vinum sínum landsbankann á silfurfati enda var hans einkavinur og fyrrum framkvædarstjóri í sjálfstæðisflokknum þar fremstur í flokki .
Téður flokkur er búinn að spyrna hvað fastast við fótunum þegar hefur verið kallað eftir að bókhald stjórnmálaflokkanna sé opnað, það væri nú forvitnilegt að fá að sjá hverjir hafa verið að borga í kosningasjóði flokkanna !

En þetta er eitthvað sem RÉTTTRÚAÐIR sjálfstæðismenn mega ekki heyra minnst á !!!
Það er með ólíkindum að í kerfi sem er búið að eyða milljónatugum í að mennta fólk á heimsmælikvarða í hagfræði og viðskiftafræðum skuli ekki getað notað neitt af þessu fólki til að stýra seðlabankanum ,nei heldur skal hafa útbrunnin pólitíkus (lögfræðimenntaðan) til að hafa yfirsjórn á hagstjórn landsins svo finnst Rétttrúuðum bláliðum þetta bara gott og gilt !!!
Farið nú að taka niður þessi bláu gleraugu og reyna að skilja muninn á Trú annarsvegar og Trúarbrögðum hins vegar .
Þið varðliðar DO farið nú að hrista af ykkur þessa afneitun !

Fjármálaheimurinn útí heimi hlær að okkur og mun gera áfram þangað til að við hreinsum upp þessa pólitísku spillingu sem er búin að grassera hér aðeins of lengi !!!

Nafnlaus sagði...

Röggi litli...lestu þetta vel því þessi grein fjallar um þig og náhirð Davíðs og er eftir Pétur Tyrfings. Learn a little og wake up og skoðaðu allt sem þú hefur skrifað hingað til um FORINGJANN ÞINN.

Nú er auðvitað allt brjálað í Sjálfstæðisflokknum. Allir þó með kökkinn i hálsinum. Sumir vilja ESB og aðrir alls ekki og hvor um sig telur sjónarmið hins jafnast á við landráð eða ófyrirgefanlega heimsku. Nú vilja sumir stýrivaxtahækkun en aðrir tryllast auðvitað yfir því sem eðlilegt er - rekandi fyrirtæki alveg útá ystu nöfinni. Þrír ráðherrar verja stýrivaxtahækkunina í dag en ég heyrði ekki betur en varaformaðurinn hafi sagt að henni væri ekki skemmt. Og allir vita að sú kona er ekki í náðinni hjá heilögum Davíð.

Um nokkurt skeið hefur sálarástand Sjálfstæðisflokksins verið keimlíkt því sem var í Kommúnistaflokki Kína undir fjórmenningaklíkunni. Um alllangt skeið voru flestir litlu flokksgæðingarnir á móti þeirri klíku undir forystu frú Maó. En menn þorðu ekki að tala upphátt saman um hvað forystan væri með eindæmum heimsk og blind á hraðsiglingu sinni útí verri og hræðilegri vesöld en menn reyndu í “stóra stökkinu” forðum tíð. Þannig réði klíkann yfir flokksmaskínunni miklu lengur en hún átti þar vísan meirihluta í raun.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt við nákvæmlega sama bölið að stríða. Menn hafa ekki þorað að tala upphátt og í hóp þó þeir hafi ekki þolað Davíð lengi vel og stefnu hans. Einhver gæti kjaftað frá og þá er maður frystur úti eins og allir vita í þeim flokki og aldrei fyrirgefið. Það segir enginn neitt upphátt í Sjálfstæðisflokknum nema vera viss um að það falli í kramið eða hafa fengið fyrst leyfi. Þar hefur foringjadýrkun verið allra flokka mest á Íslandi. Menn hafa jafnvel skrúfað sig uppí geðshræringar og varið Davíð af miklum móð gegn betri vitund eða fullkomlega að ástæðulausu (hann getur nefnilega alltaf varið sig miklu betur sjálfur). Og kvótaránið… og sérhagsmuni Íslendinga (les: þeirra sjálfra og útgerðarkapítalista) utan ESB… og fram til skamms tíma hið gríðarlega öfluga fjármálakerfi Íslendinga sem stóð styrkum fótum í menntaðri íslenskri þjóð með allt sitt hugvit, hveri, fallvötn og lífeyrissjóði.

Einhver sagði einmitt að Íhaldinu stjórnaði fjórmenningaklíkan sem þeir mynda Davíð, BB, Hannes og Kjartan. Ég er þá að velta fyrir mér hvort Geir sé eins konar Sjóenlæ sem bíður alltaf eftir tækifæri til að redda hlutum en reddar aldrei neinu. Hvar ætli Tengsjaóping sé þá í samlíkingunni? Eru ekki Bjarni Ben og Illugi Gunnars búnir að missa af lestinni? Ætli endurreisnarmaðurinn sé Þorsteinn Pálsson? Það mundi smellpasa við Teng. Var það ekki Davíð sem velti honum úr sessi á sínum tíma? Er þá Davíð frú Maó? Ja, ýmislegt sem hann segir þessa dagana líkist býsna mikið digurbarkalegu gaspri þeirrar undarlegu kerlingar.

Nafnlaus sagði...

Sæll Röggi,

Datt athugasemdin mín út?

kv. Andrés