föstudagur, 31. október 2008

Rúv burt af auglýsingamarkaði.

Páll Magnússon ríkisútvarpsstjóri er borubrattur. Eins og áður búin að steingleyma því hvernig er að reyna að standa í samkeppni við ríkisfyrirtæki. Nú er hann nebbla réttu megin við óréttlætið.

Hvaða réttlæti er í því að ríkið þjösnist á einkaaðilum sem eru að reyna að reka fjöliðmla í þessu landi eins og gert er með rekstri rúv ohf? Fullkomlega óþolandi að lesa um uppsagnir hjá 365 og skjánum á meðan blaðskellandi starfsmenn ríkissins framleiða niðurgreidda dagskrá alla daga. Og selja auglýsingar í leiðinni með undirboðum og alles.

Stöndum endilega vörð um ríkisútvarpið ef við teljum nauðsynlegt að ríkið sé í þeim bransa. En gerum það ekki þannig að mismunun eins og nú er stunduð komi í veg fyrir að aðrir geti verið á markaðnum. Splæsum þessu á okkur á fjárlögum eða með skattheimtu en ekki með þessu óréttlæti sem nú viðgengst.

Burt af auglýsingamarkaði og það strax. Það getur enginn unnið í þessu umhverfi eins og við sjáum núna. Nema Páll Magnússon. Hann nýtur lífsins með hærri laun en fjölmargir mikilvægir starfsmenn ríkissins. Og man nú ekki í hverju óréttlætið er fólgið.

Kippum þessu nú snarlega í liðinn. þetta snýst ekki um hægri vinstri stjórnmál. Þetta snýst einfaldlega um lágmarks sanngirni.

Röggi.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Á tímum sem þessum er við hæfi að kostnaði í verðmyndun vöru sé haldið í lágmarki.Einn af þessum kostnaðarþáttum sem vissulega má skera niður er aulýsingakostnaður
Það er því við hæfi að auglýsingareknar stöðvar verði lagðar niður tímabundið og lækka vöruverð til samræmis því.
Það má treysta RUV til að halda uppi nausynlegri þjónustu fyrir bæði áhorfendur og auglýsendur á næstu missirum

Nafnlaus sagði...

Ég vona bara að fólk haldi ekki að auglýsingatekjur RUV fari beint yfir á stöð 2 og Skjá 1 ef RUV fer af auglýsingamarkaði. Það vill nefnilega svo undarlega til að auglýsendur vilja auglýsa þar sem áhorfið er! Ef menn fá ekki að auglýsa á RUV, munu þeir frekar fara yfir í blöð og markpóst.
Nema RUV yrði skilt að hafa svo leiðinlega dagskrá að enginn nennti að horfa lengur. Þá er auðvitað hugsanlegt að áhorfið að Stöð 2 og Skjá 1 yrði slíkt að það borgaði sig að auglýsa bara þar.
Haukur

Nafnlaus sagði...

Ætli RÚV verði ekki sett í að taka yfir litlu stöðvarnar eins og ríkið tók yfir bankana. Það er kaldhæðni örlaganna að flokkur sá sem hvað mest hefur kennst sig við einkaframtakið er að takast að skilja við sig með öllu atvinnulífi landsins í ríkisforsjá.

Héðinn Björnsson

Heiða sagði...

Voðaleg læti eru þetta!
Þegar bæði Stöð 2 og Skjárinn fóru út í þetta var RÚV fyrir .... Samt fóru þeir inn á þennan markað.
Skjárinn hefur aldrei nokkurn tímann verið rekinn með hagnaði.... ef það er ekki hægt á góðæristímum hverjum dettur þá í hug að það sé hægt á krepputímum?
Gildir það sama um Skjáinn og fríu dagblöðin... þessháttar rekstur gengur einfaldlega ekki upp.

Og eins og Haukur bendir á hérna ofar... þá er ekkert sjálfgefið að auglýsingatekju RÚV færist yfir á hinar tvær.
Auglýsendur sem vildu ná til sama fjölda og hjá RÚV þyrftu í mörgum tilvikum að kaupa auglýsingatíma á báðum hinum stöðvunum.......en myndu samt ekki ná í jafn stóran markhóp í sumum tilfellum.

Nafnlaus sagði...

Ríkið á klárlega að vera með eina verðskrá sem á að vera dýr verðskrá, meðan frjálsir fjölmiðlar mega bítast um tilboðin... og málið er dautt...

Nafnlaus sagði...

Sammála Röggi, góður.

Það væri gaman að fletta því upp sem Páll lét hafa eftir sér þegar hann var yfirmaður á fréttastofu 365 um afnotagjöld RÚV og siðleysi og lögleysi þeirrar einokunaraðstöðu.

Er búinn að benda á þetta oft áður. En þetta er einmitt það sem er að á Íslandi, að menn taka oftast (alltaf) afstöðu út frá eigin stöðu.

Páll ætti að skammast sín fyrir það sem hann hefur nýlega látið út úr sér og varið einokunaraðstöðu RÚV.

Annars held ég þetta sé of seint í rassinn gripið, Röggi, því að ástandið á eftir að slátra bæði Skjá 1 og 365 miðlum. Af hverju hefur þú ekki haft skoðun á þessu fyrr, ef ég má spyrja? Þurfti kreppu til eða?

Skrýtið að menn líkt og þú séu fyrst að hafa skoðun á þessu núna. Starfsfólk 365 miðla hefur mátt þola ótrúlegt einelti (frá þér líka, Röggi) og það verið réttlætt vegna þess að öflum innan Sjálfstæðisflokksins líkaði ekki við stærsta eigandann. Það hefur ekki átt það skilið. Ef viðtal líkt og það sem Agnes Braga átti við Björgólf um daginn í MBL hefði átt sér stað í einhverjum miðli 365 við Jón Ásgeir þá hefði stórskotaliðið heldur betur verið ræst út af X-D. En það virðist ekki vera sama hvaðan slæmt kemur.

Hef ekki séð það sama einelti eiga sér stað gaqnvart starfsfólki MBL eftir að Björgólfur eignaðist það þó auðvitað sé búið að sameina þetta núna þá er það kannski í lagi vegna þess að stærsti eigandinn er flokknum þóknanlegur. (Eða er það liðin tíð líka kannski?)

Auðvitað á að vera búið að afnema þetta fyrir löngu en ég vona bara að þessi færsla þín nú tengist ekki þeim breytingum sem hafa átt sér stað á eignarhaldinu. Nú má ekki einoka en það var í lagi áður þegar 365 miðlar stóðu fast í báða fætur.

Hugsaðu það.

Góðar stundir

Röggi sagði...

Sæll.

Ég hef haft þessa skoðun lengi og skrifað um hana áður. Ekkert nýtt í minni afstöðu.

Ég hef líka haft þá skoðun að 365 hafi verið óheppið með eigendur lengi. Upp á síðkastið hefur fréttastofu 365 verið allt að því fáránlega hlutdræg og ekki þarf neinn stjörnufræðing til að sjá af hverju.

Ég var einn af þeim sem mótmælti af krafti þegar forseti vor stoppaði fjölmiðlafrumvarpið. það hefði kannski komið í veg fyrir að peningamenn þjóðarinnar ættu einir hér nánast alla fjölmiðlun eins og nú er.

Þeir sem stoppuðu það bera meiri ábyrgð á viðtölum eins og Agnes tók við vinnuveitenda sinn eða Sindri við sinn heldur en ég.

það að Berlusconi eða Björgólfur eða Jón Ásgeir megi ekki komast í þá stöðu sem þeir eru í snýst ekki um hægri vinstri stjórnmál. Það snýst um grundvallaratriði. Hagsmunir allra fara þarna saman. Það voru einmitt þeir menn sem áttu mest undir þvi að missa ekki tökin á miðlunum sínum sem gerðu málið flokkspólitískt. Með svona líka ljómandi góðum árangri.

Mín skoðun hefur ekki breyst og mun ekki breytast.

Röggi.

Páll Jónsson sagði...

Það er ótrúleg heimska að segja að hægt sé að leggja niður auglýsingasjónvarp til að lækka vöruverð. Það er ljóst að ef aðrar sjónvarpsrásir leggjast niður þá hækkar RÚV verðið hjá sér. Þannig var það þegar þeir voru einir á markaði og þannig verður það. Því er mjög ábyrgðarlaust að segja að þetta sé í lagi, því á endanum kemur þetta niður á vöruverði.
Þá má líka benda á það að RÚV hefur aldrei verið rekið réttu megin við núllið og því er þetta að hækka skattana þína, því á endunum ert þú og ég að borga fyrir þeirra misgjörðir, undirboð á auglýsingum og yfirboð á amerískum seríum, hjá þeim sem reka RÚV.
Það er heldur engin að segja að allar auglýsinga tekjur sem eru á RÚV fari yfir hina miðlana, ef RÚV færi af auglýsinga markaði myndi loksins verða eðlileg samkeppni og verðmyndun á auglýsingum á Íslandi myndi verða sanngjörn. Hvernig stendur á því að þeir sem segjast vera með bestu vöruna, gefa mesta afsláttinn og undirbjóða aðra á markaðnum.
Kv Páll Jónssson

Nafnlaus sagði...

Röggi...
Einangrun hvað? X-D er búið að sækja um í ESB (sjá að neðan). Eða, nei, þeir eru að sækja um í neyðarsjóði ESB!!!

Bíddu, er þá til ókeypis hádegisverður eftir allt saman? Hvað segja stuttbuxnadeildin núna og náhirð Davíðs um þetta?

Geir Haarde forsætisráðherra.

Jón Hákon Halldórsson skrifar:

„Evrópusambandið hefur frumkvæðið að því að viðra þessa hugmynd við okkur í gegnum sendiráðið í Brussel. Það byggir meðal annars á því að ég skrifaði Sarkozy Frakklandsforseta fyrr í mánuðinum til að útskýra stöðuna á Íslandi," segir Geir Haarde um mögulegt lán Íslendinga úr neyðarsjóði Evrópusambandsins. Á vefútgáfu Times í dag segir Joaquín Almunia, framkvæmdastjóri peninga- og efnahagsmála ESB, að enn sem komið er séu Íslendingar og Ungverjar einu umsækjendurnir úr sjóðnum en heildarupphæðin í sjóðnum er 25 milljarðar evra.

Geir segir allt of snemmt að segja til um hversu hátt lánið yrði eða hvað fælist í láninu og skilyrðum sem því myndi fylgja. Framkvæmdastjórnin eigi eftir að fara yfir málið og svo Evrópusambandsþingið. Geir segir að lán úr þessum neyðarsjóð sé ekki eitthvað sem geti komið í staðinn fyrir eitthvað af því sem nú þegar er byrjað að ræða. Frekar yrði um viðbót við aðrar ráðstafanir að ræða ef til lánsins úr neyðarsjóðnum kæmi."

Flottir á því í X-D núna. Ótrúlegt lið alveg. Vilja ekki sækja um aðild að ESB en geta hugsað sér að fara þar um með betlistaf núna til að hreinsa upp ógeðið sem þeir hafa skilið eftir sig við eigið hagststjórnar klúður hér heima. En ESB er samt ekki treystandi.

Þarf að segja meira?