föstudagur, 25. janúar 2008

Skítug pressa.

það er bara þannig að þegar pólitískur rétttrúnaður og skepnuskapur rennur saman í fólki sem hefur svo vinnu af því að búa til blöð þá er auðvitað ekki von á góðu.

Þeir hafa ekki verið sparir á það íslensku vitringarnir sem skrifa blöð að gagnrýna bandarísk stjórnmál. Oft með réttu. Sér í lagi hafa margir þeirra haft ímugust á því þegar kappið ber menn í að blanda saman einkalífi og pólitík. Skítkastið þar vestra nær oft mögnuðum hæðum þegar verst lætur.

Þá er verið að eltast við það hvort menn hafi reykt hass á menntaskólaárum og hvort menn hafi borgað skuldir sínar. Framhjáhald hefur aldrei þótt gott. Allt týnt til og mörkin óljós milli einkalífs og stjórnmála. Fáir hér hafa verið tilbúnir til þess að verja þetta.

Hver man ekki eftir Clinton málinu sem margir íslenskir blaðamenn kölluðu frekleg afskipti af einkalífi og nefndu það sem dæmi um úrkynjun amerískrar blaðamennsku og stjórnmála. Nefndu gjarnan máli sínu til stuðnings að við evrópumenn værum svo fágaðir að menn hefðu ekki kippt sér upp við að forseti Frakklands ætti barn framhjá konu sinni.

DV í dag er búið að gleyma þessum þröskuldum. Prinsippin fokin enda liggur lífið á í baráttunni gegn nýja meirihlutanum. Þar er ekki hikað við að gera persónuleg mál Ólafs borgarstjóra að forsíðufrétt. Mál sem hafa ekkert með stjórnmál að gera.

Þetta voru ekki fréttir í síðustu viku. Er þetta svaðið sem við viljum sökkva í? Er ekki rétt að grafa upp erfið mál sem við öll getum lent í án þess að það sé talið skerða starfsgetu okkar? Ég efast ekki um að með lagni og nægum skepnuskap er hægt að finna ýmislegt um flesta.

Mér finnst þeir DV menn vera að ná þeim ótrúlegu lægðum sem fyrrum ritstjórar þessu snepils náðu áður en þjóðin og eigendur fengu nóg. Fordómar gangvart fólki sem á í geðrænum vanda skín í gegn og er þessum mönnum ekki til sóma.

Einungis þeir sem hafa rétt skírteini frá einum degi til annars og geta sannað að þeir séu ekki eða hafi ekki í neinum vanda helsufarslega geta sinnt stjórnmálum. Þeir sem hafa veikst eru að mati þessara manna ekki þess verðugir að sinna stjórnmálum.

Er ekki mál að linni jafnvel þó menn aðhyllist einn flokk frekar en annan? Viljum við sökkva í þetta fen? Vorum við ekki öll búin að fá nóg af svona blaðamennsku?

Röggi.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég myndi nú endilega vilja vita hvað er að Ólafi og sérstaklega af hverju hann vill halda því leyndu?

Það skiptir máli þegar menn sækjast eftir jafn veigamiklu starfi.

Hlynur Þór Magnússon sagði...

Hér er ég gersamlega ósammála þér, ágæti Rögnvaldur. Eiginlega finnst mér varla hægt að trúa því að þú hafir lesið samantektina sem hér um ræðir um heldur að þú hafir heyrt af henni frá einhverjum óvildarmanni DV. Ég las hana í morgun, mér þykir hún prýðileg og get hvergi séð þar neitt svað eða neitt af því tagi. Bendi á pistil Péturs Gunnarssonar hér á Eyjunni í dag um þessa úttekt í DV. Ég tek heils hugar undir það sem Pétur segir þar.

http://eyjan.is/hux/2008/01/25/ag%c3%a6t-grein/

Jón Garðar sagði...

Tökum þetta aðeins lengra - hvað finnst þér Daði nákvæmlega að skipti máli að komi fram?

Trúir einhver að Sjálfstæðismenn hafi gert geðveikan og óstarfhæfan mann að borgarstjóra?

Ef einhver gerir það þá er það af því að "vel" hefur tekist að skemma trúverðugleika hans með undirbeltis sögusögnum.

Ég er ekkert alltof spenntur fyrir Ólafi sem borgarstjóra - en ég bregð ekki fyrir mig þeirri lágkúru að telja Ólaf allt að því hafa tekið upp samstarf við Sjálfstæðismenn af því hann væri ekki með réttu ráði - og því væri auðvitað rétt að hann upplýsti alla um sín afar persónulegu veikindi.

Ég vona að þeir sem halda þessu sem mest á lofti þurfi aldrei að standa frammi fyrir svona lágkúru.

Er það von að mörgum finnist pólitíkin ekki virðingarverður vettvangur!

Nafnlaus sagði...

Mér finnast nú allar þessar umræður og ekki sízt þróunin í borgarpólitíkinni sýna fram á réttmæti þess að biðja um læknisvottorðið á sínum tíma.
Ég vildi gjarnan sjá framan í lækninn sem skrifaði undir það. Hann ætti að hætta eins og Bingi

Röggi sagði...

Bara svo það sé á hreinu Daði að þá veit ég ekki nákvæmlega hvað amaði að Ólafi. En hitt veit ég vel og þú líka að allir borgarfulltrúar Reykvíkinga treysta þessum manni fullkomlega til ábyrgðarstarfa fyrir borgina. Fyrri meirihlutinn gerði það og sá nýji líka.

Ég tel DV vera að draga persónuleg mál mannsins inn í umræðuna í pólitískum tilgangi.

Þetta er alþekkt bragð þar sem menn eru settir í þá stöðu að þeir þurfi að afsanna það sem á þá er borið. Er þetta glæsileg framtíðarsýn?

Þeir sem telja forsíðu DV í dag eðlilega verða sjálfsagt aldrei sammála mér.

Nema einhver sem þeir halda með lendi í svona svívirðu.