fimmtudagur, 31. janúar 2008

Bankar.

Í starfi mínu hitti ég oft bankamenn. Þeir eru eðli málsins samkvæmt ólíkir, þannig séð. Samt eitthvað svo líkir. Einsleit hjörð. Öndvegismenn allt saman.

Bankarnir eru eins og þjóðin sjálf, ferlega óstöðugir. Sem er verra. Þeir ættu að vera mjög stöðugir. Sjá hluti fyrir og haga seglum eftir vindi og þá helst til lengri tíma en ekki skemmri.

Það virðast þeir ekki gera. Það er annað hvort heiðskýrt eða niðadimmt. Allt á útopnu og smjör á hverju strái eða eins og nú. Nú skal stígið þéttingsfast á bremsuna. Allt kælt langt niður fyrir frostmark.

Hvorug staðan getur verið æskileg. Hvernig stendur á því að ekki er hægt að reka þessi fyrirtæki öðruvísi? Nú blasir gríðarlegur vandi við því fólki sem bankarnir sannfærðu um að fínu íbúðarlánin þeirra myndu færa öllum gæfu.

Ég veit vel að efnahagsástand hér er ekki nógu stöðugt en það virðist samt alltaf koma bönkunum í opna skjöldu. Þeir gersamlega missa sig þegar útlitið er bjart. Þá er ekkert aðhald. Greiningardeildir þeirra virðast ekki skila nógu góðu starfi.

Forstjóri Glitnis vill auka innlán. Hvernig ætlar hann að gera það? Bankarnir hafa nær eingöngu hugsað um að koma nógu af peningum í vinnu. Hjá fólki sem vill taka lán. Og margir eru viljugir og treysta á bankana.

Það dugar greinilega ekki. Bankinn tapar sjaldan. Yfirdráttarþrælarnir borga á endanum brúsann. Bankar hugsa meira um að fyrir lánum séu traust veð en að lántakandinn hafi viðskiptasöguna jákvæða, geti staðið í skilum. Þetta er ávísun á vandræði.

Finnst næstum því að bankarnir séu enn á bernskuskeiði eftir einkavæðinguna. Vanti reynslu og vigt. Hvað á maður að halda?

það er annað hvort brjáluð gleði eða algert svartnætti. Er ekki einhver millivegur fær?

Röggi.

Engin ummæli: