mánudagur, 21. janúar 2008

Hver klúðraði núna?

Nú tíðkast þau breiðu spjótin. Fyrstu viðbrögð mín við hinum nýja meirihluta voru að mér fannst þetta allt að því hlægilegt. Hvurslags lið hafa íbúar höfuðborgarinnar kosið yfir sig? Eru engin prinsipp til í stjórnmálum?´Veit ekki en ekki eru menn langræknir svo mikið er víst.

Ég sé ekki neinn reginmun á þessari aðferð sem notuð var en hinn fyrri sem Björn Ingi beitti. Það liggur í eðli málsins að logið er að borgarstjóra í einhvern tiltekinn tíma enda sé ég ekki annað en að Dagur sé álíka móðgaður yfir því eins og Villi síðast.

Dagur reyndar alveg búinn að gleyma að hann var hinn helmingur síðustu svika. Svona gerast þessi kaup á eyrinni og ekki á annan hátt. Eitt og annað virðist líkt með þessum byltingum.

Báðir þeir sem út undan sér hlaupa segjast hafa fyrir því gildar ástæður. Og báðir segjast trúa því að þeir muni hafa sitt fram. Munurinn hér gæti verið að Björn Ingi náði því ekki en Ólafur er þó með sitt á pappír. Getur verið að Dagur hafi klúðrað á því að nenna ekki að gera málefnasamning? Bar hann ekki næga virðingu fyrir Ólafi?

Ætli félagi Össur tali nú um sögulegt klúður sexmenninganna? Ólafur yrði þar með svikarinn þó Björn Ingi hafi ekki verið það á sínum tíma. Mér finnst þetta dapurlegt, fannst það síðast og finnst það nú. Þetta er samansafn fólks sem er ekki nógu sterkir stjórnmálamenn.

Hlutur Margrétar jafn absúrd og hann var síðast. Ef að líkum lætur mun hún spila með og fá að launum sama díl og síðast. Þægilegan og ylvolgann stól einhversstaðar. Hún hefur ítrekað hagað seglum eftir vindi og gerir það hér líka.

Nú er Birni Inga ekkert að vanbúnaði að yfirgefa borgina og taka slaginn við Guðna. Hlálegt að Guðni skuli vera búinn að eyða öllum deginum að lýsa stuðningi við Björn Inga!

Trúnaðarbrestur og svik eru að verða daglegt brauð í þessari aumu borgarstjórn. Spái því að nú verði nánast orðrétt sama tuðið í hinum kokkáluðu og var síðast.

Röggi.

Engin ummæli: