fimmtudagur, 24. janúar 2008

Missir framsóknar.

það er nefnilega það. Björn Ingi segist hættur í pólitík. Það þýðir væntanlega að hann sé hættur og ætli ekki annað. Er samt ekki viss um það...

Hitt er ég viss um og það er að framsóknarflokkurinn mun finna fyrir brotthvarfi hans. Sjálfseyðingarhvöt þess flokks er viðbrugðið. Auðvitað er slegist í öllum flokkum og það stundum ótæpilega. Sérstaklega getur verið erfitt þegar ungir og sprækir strákar eins og Bingi ryðjast fram fyrir raðir sem sumir hafa staðið í lengi.

En framsóknarmenn hafa einhvernveginn ekki haft lag á því að lifa svona fæting af. Þorsteinn fór í fýlu út í Davíð, sem reyndar stendur enn, en Guðni opinberar allt í bók nánast í sömu mund og atburðir gerast. Össur og Ingibjörg gengu í gegnum erfiða tíma og það duldist engum. Samt tókst þeim að lenda á löppunum. Eins og gengur.

Fáir hafa verið duglegri, ef undan er skilinn Dagur B fyrir þremur mánuðum, að halda því á lofti að Björn Ingi sé spilltur en framsóknarmenn sjálfir. þarf spillingarsían ekki að fara eitthvað fyrr af stað en þegar menn eru orðnir oddvitar flokksins í borginni? Hef enga trú á þvi að hann sé verr haldinn af spillingu en margir aðrir.

Hitt hefur hann sem fáir í hans flokki hafa aðrir. Hann hefur einhverja manneskjulega taug. Getur náð til fólks. Best kom þetta í ljós þegar hann neyddist til þess að slíta meirihlutanum. Í raun absúrd mál en hann seldi meginþorranum það létt.

Hann er fjandakornið eini kjörni fulltrúi framsóknar í borginni hvort heldur sem við tölum um sveitarstjórn eða ekki. Sé ekki nokkurn annan leika það eftir eins og málum er háttað enda stefnir flokkurinn nú hraðbyri í sveitina.

Ekki vottar fyrir framsóknartaug í mér. En það er samt missir af drengnum og þetta veikir minnihlutann í borginni. Og rústar framsóknarflokknum.

Röggi.

Engin ummæli: