laugardagur, 5. janúar 2008

Pólitík á Bessastaði.

Hún er næsta taumlaus gleði vinstri manna yfir því að frambjóðandi þeirra, Ólafur Ragnar, ætli að sækjast eftir því að sitja lengur á Bessastöðum. Ólafur hefur aldrei verið minn maður þó hann hafi að mestu komist vel frá sínu. Afskipti hans af pólitík í embætti eru þó að mínu mati vanhugsuð.

Af ýmsum ástæðum. Mér finnst ekki eðlilegt að maður sem var jafn umdeildur og hann var pólitískt bæði af samherjum sem andstæðingum taki það upp á sína arma að breyta eðli embættisins bara sísona. Gera það pólitískara en áður. Þeir sem hafa raunverulegan áhuga á að hugsa um þessi mál út frá embættinu en ekki bara steingeldri og gamaldags flokkapólitík geta sett Davíð Oddsson í hlutverk Ólafs og sjá þá kannski ljósið í rökræðunni.

Mér finnst ekki endilega útilokað að eðli embættisins geti og megi breytast. En þá að undangengnum umræðum um það. Forsetinn okkar hefur ekkert pólitískt umboð til eins eða neins. Sama hver hann er. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að viðkomandi nefni það í aðdraganda kosninga hverju sinni hvort og þá hvernig standi til að breyta áherslum og nálgunum. Annað er virðingarleysi fyrir sögunni og embættinu.

Þannig og aðeins þannig á það að gerast. Fagurgali manna um að forsetinn okkar skuli vera sameiningartákn þjóðarinnar er hjóm skoðað í þessu ljósi. Ég er ekki viss um að meginþorri þjóðarinnar vilji gera þetta að pólitísku embætti. Stórefast reyndar.

Veður geta skjótt skipast í lofti hér og glerharður hægri maður komist í embættið og þá heyrist væntanlega hljóð úr vinstra horninu haldi áfram sem nú horfir. Og kannski vex þeim á endanum mest fiskur um hrygg sem vilja bara leggja þetta niður.

Finnst ekki útilokað að vinstri mönnum takist jafnvel að fá öflugt hægri framboð gegn sínum manni. það er kannski það sem menn vilja gera með sameiningartáknið. Það væri breyting vissulega því ekki er hefð fyrir alvöruslag og vonandi fyrirgefst mér að líta ekki á framboð Ástþórs sem alvöru.

Höldum í hefðirnar þegar kemur að þessu embætti og reynum okkar besta að menga það ekki af skítugri pólitík. það geta engir menn sameinað þjóðina um neina pólitík.

Röggi.

Engin ummæli: