mánudagur, 7. janúar 2008

Vingull dagsins.

Ég held að Dagur B Eggertsson sé haldinn valkvíða. Hann forðast að taka áhættur og virðist hræddur við óvinsældir. Þetta þrennt er sennilega það versta sem getur hrjáð stjórnmálamann.

En hann er að mörgu leyti nokkuð hentugur pólitíkus. Ásjálegur og ímyndin skotheld. Getur malað endalaust út í eitt um flesta hluti. Einfaldir hlutir verða í hans munni flóknir og mikilvægir og mörgum finnst hann hafa ógurlegt vit á öllu. Hann hefur svo margt að segja.

Mér finnst ekki endilega galli að menn hafi þor til þess að skipta um skoðanir. Hafi menn sannfæringu fyrir skoðanaskiptunum. Dagur skiptir oft um skoðun. Og þá yfirleitt þegar hann finnur fyrir hitanum af mótmælum og andófi. Þá gildir einu að hann hafi haldið innblásnar ræður til stuðnings eigin ákvörðunum. Gott dæmi var hvernig hann umpólaðist í afstöðunni til gatnaframkvæmdanna sem hann stóð fyrir í vatnsmýrinni.

Þá reis fólkið í 101 upp og andæfði enda trúir það fólk því að miðbær Reykjavíkur sé helst og bara fyrir þá sem geta farið fótgangandi um eða hjólandi.

Og núna er hann kominn í vandræði á ný hann Dagur okkar. Vegna húsanna við laugaveg sem eiga að hverfa þaðan. R listinn ákvað sjálfur að þau skyldu burt enda engin bæjarprýði. Fyrrverandi meirihluti hafði sömu skoðun og því var unnið áfram að málinu. Allar stofnanir sem nöfnum tjáir að nefna hafa ályktað á einn veg. Málið liggur fyrir.

En þá gerist það. Torfu samtökin rísa upp. Og hafa hátt og fá athygli fjölmiðla eins og von er. Og það er eins og við manninn mælt. Dagur vinglast allur til í málinu. Veit bara ekkert hvað til bragðs á að taka. Eins og áður trúir hann því að hægt sé að gera öllum til hæfis. Og talar mikið um lítið.

Stjórnmálamenn verða að þora að hafa vindinn í fangið. það vefst fyrir Degi.

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann er örugglega hræddur um hágreiðsluna .... :o