þriðjudagur, 1. janúar 2008

Siðlaus þjóð.

Við erum enn kotbændur á mörgum sviðum. Okkur leiðast reglur. Grundvallaratriði og prinsipp stundum við helst ekki. Í stað þess að hafa eina reglu sem gildir jafnt um alla alltaf og allsstaðar þá tökum við afstöðu frá einu atviki til annars.

Þá koma við sögu hlutir eins og hvort einhver kunni hugsanlega að hafa verið óheppinn. Og hvort viðkomandi sé góður aðili eða almennt ekki talinn góður. Hvort hér sé um stóra hluti eða smáa að ræða. Gallar þannig fyrirkomulags er miklir og hætta á að ekki gildi jafnt um alla. Gagnsæið verður ekkert og slúður og sögusagnir fá líf.

það er í þessu ástandi sem stjórnmálamenn og aðrir reyndar líka komast upp með að þurfa ekki að axla ábyrgð. Sínkt og heilagt er hægt að benda á afbrigði og undantekningar. Dæmin eru fyrir framan okkur nær daglega og flest gerum við okkur sek um að taka þátt í þessu. Við verjum óverjandi hluti hjá stjórnmálamönnum bara ef þeir eru í okkar liði. Skammtíma hagsmunir taka langtíma hagsmunum fram.

Það er afleitt. Ekki gengur endalaust að skammast út í þetta ef við hvert og eitt höfum ekki sjálf siðferðislegan styrk. Þeir sem ekki krefjast siðferðis eru ekki líklegir til að búa við það. Því miður lýgur sagan engu í þessu.

Nú gerist það að stjórnmálamenn og stofnanir eru að fá gjafir frá aðilum sem eiga ekkert með að bera gjafir á þetta fólk. Margir hneykslast en ég hygg því miður að þeir séu líka margir sem munu verja þessa ósvinnu.

Þetta sé nú smáræði sem engu máli skipti fyrir fólk sem á nóg af aurum. Þarna sé bara góður hugur á bak við og fleira í þá áttina. Af hverju gerum við ekki eins og aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við og krefjumst þess að þetta breytist? Á meðan við gerum það ekki þá er svona nokkuð rétt mátulegt á okkur.

Rauðvínsgjafir til ráðherra var lítillega til umræðu í silfrinu nú síðast. Össur og Þorgerður voru þar og þetta þótti í besta falli tilefni til spaugs. Gott ef Össur tuðaði ekki yfir því að hafa ekki fengið kassa. Einungis fulltrúi vinstri grænna leit málið alvarlegum augum. það var sorglegt en kom ekki á óvart.

Til þess að þetta breytist verðum við að hætta að verja ruglið þó það komi frá okkar fólki. Stórt eða smátt, góðir menn eða minna góðir skiptir bara engu.

Einhversstaðar verðum við að byrja. Er þessi tími verri en annar?

Röggi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ruglið hættir ekki nema að tekið verði fyrir það með reglum eða lögum. Gjafir (mútur) til embættismanna ríkisins hætta ekki nema að þær verði bannaðar. Veitingavald þarf að taka af ráðherrum og færa til Alþingis til að koma í veg fyrir pólitíkskar ráðningar, annars heldur ruglið bara áfram.

Röggi sagði...

Vandinn er stundum sá er það ekki að að siðferði verður ekki svo auðveldlega skráð í lög og reglur. Því reynir á þrekið. Hjá okkur öllum.

Sjálfur sé ég engan ávinning í því að færa eitt eða neitt frá ráðherrum til alþingis. Við erum banalýðveldi að því leyti að ráðherrar eru hér bæði löggjafar og framkvæmdavald og þeir sitja því í öllum tilfellum báðu megin við borðið.

Best er að ráðherrar hætti að vera þingmenn eins og stjórnarskráin mælir fyrir um. Þá eru kannski einhverjar líkur á því að þingið verði mögulegt aðhald.

Nafnlaus sagði...

Ég held að það sé mikilvægt að lýðræðiskjörnir embættismenn og konur sinni starfi sínu af alvöru á þann hátt að það verði ekki dreigið í efa að siðferðiskennd þeirra séi ekki til fyrirmyndar.

Sé það rétt að stjórnarskráin mæli fyrir um að ráðherrar/konur séu ekki þingmenn, hvernig stendur á því að svo er þrátt fyrir það?

Röggi sagði...

Sæll nafnlaus.

Ég er ekki sérfræðingur í stjórnarskránni en veit þó að grunnurinn er þessi.

Þrískipting valds. Löggjafar, framkvæmda og dómsvald. Það stendur þarna svart á hvítu.

Ráðherrar eru framkvæmdavald varla efast nokkur maður um það. Þingmenn eru löggjafarvald. Þeir eru kosnir til þess að setja lög og eiga því ekki að vera báðu megin borðs.

Þetta þýðir á mannamáli að ráðherrar eru ekki þingmenn. Ekki er talið eðlilegt að menn setji leikreglur fyrir hádegi sem þeir fara svo sjálfir að vinna eftir síðdegis.

Þú ert svo með réttu spurninguna í lokin.

Af hverju er þessu ekki breytt?