Ég hef skrifað þessa grein áður. Það var reyndar að moggablogginu. Nenni ekki að fletta henni upp þannig að ekki er víst að ég muni hana orðrétt. Þið fyrirgefið.
Þá var umfjöllunarefnið mótmæla ofbeldi saving Iceland. Þar sem ruðst er inn á vinnusvæði og vinnustaði og efnt til mótmæla gegn einhverju sem mótmælendur telja ólöglegt þó ekki sé með neinu móti hægt að benda á neitt ólöglegt.
Heilagt stríð kemur upp í hugann. Forheimskur meirihlutinn hefur ákveðið að gera eitthvað sem réttlátur og sanngjarn minnihlutinn getur ekki látið yfir sig ganga. Þá er allt leyfilegt er það ekki? Í nafni lýðræðis og sannleika. Hversu oft hafa þessi orð ekki verið misnotuð?
Rétturinn til þess að hafa uppi mótmæli er að mínu viti heilagt fyrirbrigði. En hann gengur ekki yfir ýmislegt annað sem líka er nauðsyn til þess að halda uppi allsherjarreglu. Þeir sem telja sig þurfa að brjóta lög og reglur til þess að koma sauðheimskum meirihlutanum í skilning um afstöðu sína hafa ekki góðan málstað.
Stjórnskipan okkar er einföld. Við notumst við lýðræði. Kosið er reglulega til þings og sveitarstjórna. Þau yfirvöld sem verða til eftir kosningar eru lögleg. Og hafa því lögvarinn rétt til þess að taka ákvarðanir. Jafnvel ákvarðanir sem meirihluti kjósenda er mótfallinn. Þetta er grundavallaratriði og ekki umsemjanlegt. Löglega kosnir einstaklingar hafa fyrst og fremst skyldur gagnvart sannfæringu sinni. Þeir sækja umboð sitt til kjósenda á fjögurra ára fresti en ekki skoðanakannanna.
Fíflagangur sá sem við sáum í borgsrstjórn í gær á ekkert skylt við réttinn til að andæfa. Tilraun til þess að skemma og lítilsvirða fullkomlega löglegan gjörning er í besta falli dónaskapur og móðgun við lýðræðið.
Heyrði Sigurjón Egilsson fagna þessu í útvarpinu í morgun. Og það var rökstutt með rökum sem eiga akkúrat við um þá sem héldu fundinn. Sumsé rétt þeirra til lýðræðis. Engum hefur dottið í hug að svipta fólk réttinum til mótmæla en skríllinn vildi einmitt reyna að svipta lögleg yfirvöld sínum rétti. Hvernig þetta fólk vill hafa hlutina liggur svo ekki fyrir.
Best reynist að hafa eina skoðun á svona málum óháð því hvort menn halda með einhverjum eða ekki. Kemst ekki hjá því að hugsa um það hvernig Sigurjón og félagar hefðu brugðist við ef ungliðar sjálfstæðismanna hefðu hagað sér svona þegar Björn Ingi nýtti sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þess að fara eftir sannfæringu sinni þegar hann í reykfylltum bakherbergjum stakk undan síðast.
Hlutlaus pólitískur fréttaflutningur og rannsóknarblaðamennska er undantekning hér en ekki regla. Hér halda flestir með einhverjum og verja sig og sitt seint og snemma.
Alveg óháð kostnaði.
Röggi.
föstudagur, 25. janúar 2008
Réttlátur minnihlutinn.
ritaði Röggi kl 10:10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli