laugardagur, 5. janúar 2008

Ráðherrar eiga ekki að vera þingmenn.

Ég hef mjög lengi átt bágt með að skilja af hverju við tökum ekki kaflann um þrískiptingu valds í stjórnarskránni alvarlega. Það er varla að nokkur maður hafi nefnt þetta að neinu gangi frá því Vilmundur gerði það forðum. Hann á enn talsvert í mér blessaður.

Jú framsóknarmenn voru að nefna þetta lítillega en þá dó málið að sjálfsögðu snarlega. Fáir geta þolað framsókn neitt gott. Spilling heyrðist hrópað hátt. Nútímafjölmiðlafólk annað hvort hefur ekki á huga á svona leiðindum eða nennir ekki. Hlutlaus rannsóknarblaðamennska er ekki stunduð hér nema í mýflugumynd.

Kannski finnst mönnum þetta ekki skipta neinu máli. Sem er í sjálfu sér mögnuð túlkun á stjórnarskránni. Ég nefnilega hélt að þrískipting valds væri upphafið og endirinn. Grundvallaratriði sem flestar siðmenntaðar þjóðir telja sig ekki geta gefið afslátt af. Hér liggur þetta á milli hluta.

Ég held að þetta skipti höfuðmáli. Það er lykilatriði að valdið sér þrískipt. Það þýðir einfaldega að ráðherrar eru ekki þingmenn. Kannski væri við hæfi að spyrja, hvað réttlætir það að ráðherrar hér séu þingmenn? Er það góð stjórnsýsla að menn sitji við það fyrir hádegi að semja leikreglur sem þessir sömu menn fara svo að vinna eftir síðdegis? Ég hef heldur enga sannfæringu fyrir því að ráðherra eigi að skipa dómara. Get haldið áfram...

Mér finnst kominn tími til þess að við leggjum afdalamennskuna til hliðar. Hættum að trúa því að allir séu góðir menn þangað til annað sannast. Tökum upp reglurnar sem stjórnarskráin gefur okkur og minnkum líkurnar á því að misvel heppnaðir stjórnmálamenn geti hoppað í holurnar og leikið sér með fjöreggið.

Er ég kannski að misskilja hressilega?

Röggi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert ekki að misskilja neitt. Þetta er að mínu mati mikilvægasta mál stjórnsýsluumhverfis Íslendinga. Það er ekki langt síðan framkvæmdavaldið og dómsvaldið í mörgum héruðum landsins var í höndunum á sama manni, sýslumanni, sem bæði rannsakaði málið og dæmdi í því. Í dag þykir þetta fráleitt.

Það nákvæmlega sama er að gerast á Alþingi á meðan ráðherrar eru þingmenn. Í dag getur forsætisráðherra á hverjum tíma samið frumvarp, leitt umræðuna um frumvarpið sitt á Alþingi í krafti þess að vera formaður stærsta stjórnarflokksins og loks náð meirihluta meðal handhafa forsetavalds sé forseti erlendis þegar frumvarpið er samþykkt. Handhafar forsetavalds eru forsætisráðherra (sem samdi frumvarpið og leiddi umræðuna um það), forseti Alþingis (sem er undantekningarlaust samflokksmaður og því undirmaður forsætisráðherra í flokknum) og forseti hæstaréttar. Það þýðir að títt nefndur forsætisráðherra ræður í raun tveim af þremur atkvæðum handhafa forsetavalds. Hann er því búinn að fylgja frumvarpinu sínu alla leið í gegnum kerfið.
Þetta er auðvitað afleitt og undirstrikar mikilvægi málskotsréttar forseta þar sem hann er sá eini sem ekki er báðum megin við borðið. Eini öryggisventillinn.

Jón Eiríksson sagði...

Hjartanlega sammála þér þarna. Þetta er fráleitt eins og þetta er.