mánudagur, 29. desember 2008

Ekki mér að kenna...

Í grein í mogganum talar hann um skuldir og eignir. Hann talar um eigið fé. Prósentuhlutföll og pólitík. Vaxtaberandi skuldir eignarhaldsfélaga eða voru það fjárfestingafélög? Hagnað og tap og langtíma eða skammtíma hitt eða þetta.

Hann var að gera þetta allt fyrir okkur svo við hefðum vinnu. Selja sjálfum sér og sínum aftur og aftur á hækkandi verði sem engin innistæða var fyrir. Eigið fé hvað? Myndin sem hann dregur upp af sjálfum sér á heima í ævintýri H C Andersen.

Sakleysið er yfirþyrmandi. En reyndar sér hann mistök sín en þau snúa þá að því að HANN tapaði fé. það er kjarni málsins. Hvaða fé tapar hann? Mér sýnist hann aðallega hafa grætt og leyft öðrum að sjá um tapið.

Nú vill hann eins og félagar hans koma að því af fullum áhuga og harðdrægni að koma okkur á kjölinn aftur. Ég fyrir mína parta afþakka pent meiri harðdrægni úr þessari átt. Hún er svo dýru verði keypt harðdrægnin hans Jóns Ásgeirs.

Hann finnur ekki til ábyrgðar.

I rest my case...

Röggi.

mánudagur, 22. desember 2008

Eru allir að tala um mútugreiðslur?

það er ekki ofsögum sagt að fjölmiðlar eigi undir högg að sækja nú um stundir. Eigendahollir eins og áður og nú er mómentið þannig að full þörf er á að vanda sig. Virðingin fyrir þessum stofnunum á undanhaldi enda fagmennska á stundum aukaatriði.

Ísland í dag er merkilegur þáttur. Þar hafa verið nokkur gersamlega fáránleg augnablik undanfarin ár þar sem hlutdrægni og amatörismi hafa fullkomnast. Eða kannski bara getuleysi sem er vissulega betri kostur en hinir...

Í kvöld var Sölvi að tala við forsætisráðherra. þar hrukku frá honum magnaðar spurningar sem gersamlega var vonlaust að svara. Fátt kemur mér orðið á óvart þegar um fréttastofu Óskars Hrafns er að ræða en lengi er þó von á einum...

Sölvi ræddi það af fullri alvöru við Geir að altalað væri að forsvarsmenn lífeyrissjóða hefðu þegið mútur í tengslum við ákvarðanir sínar í starfi. Þessu er bara slengt fram rétt sí svona. þær verða varla alvarlegri ásakanirnar en þetta.

Meira að segja í kaffispjalli í Múlakaffi yrði venjulegur maður krafinn um heimildir fyrir svona löguðu. En á þessari fréttastofu nægir að menn telji hlutina altalaða til að henda þessu í loftið. Ég efast ekki um að þetta er altalað á fréttastofunni en það dugar ekki til. Reyndar er eitt og annað altalað um vinnuveitenda hans og sumt af því fréttnæmt en nær samt ekki í loftið....

Ætli fréttastofa stöðvar 2 að reka af sér slyðruorðið er að mínu viti hreint ekki vitlaust að stefna óhikað á fagmennsku. Enda alls engin ástæða til að gera minni kröfur til fjölmiðlamanna en til dæmis stjórnmálamanna.

Ég legg eindregið til að Sölvi segi okkur hvað hann veit um þessar mútu greiðslur sem allir eru að tala um.

Röggi.

föstudagur, 19. desember 2008

Hagar fá sekt.

það er ekki nýtt að Jóhannes stórkaupmaður í Bónus telji sig vera góða kallinn. Samkeppniseftirlitið hefur nú sektað Haga um fleiri hundruð milljónir fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Þó fyrr hefði verið segi ég.

Hann telur sig starfa í þágu viðskiptavina sinna. Þeir hafi byggt upp stórveldið eins og hann orðar það í sjónvarpi í kvöld. Þvílíkt þvaður. Undirboð á markaði eins og Bónus hefur stundað lengi voru og eru eingöngu til þess gerð að koma samkeppni fyrir kattarnef.

Þetta eru almenn sannindi og þau eru lika alkunna sannindin um að fákeppni er ekki neytendum til hagsbóta. það er bara Jóhannesi og öðrum fjölskyldumeðlimum í stjórn Haga til hagsbóta að fækka samkeppnisaðilum með svindli.

Kallinn talar um að þetta sé nöturleg jólagjöf. Þær eru ekki allar fínar jólagjafirnar sem viðskiptamenn þjóðarinnar eru að færa okkur fyrir þessi jól. Hagstæðast væri fyrir Jóhannes að borga þetta bara og loka svo strigakjaftinum því ég tel og vona að þjóðin sé nú loks að fá sig fullsadda af gjöfum frá þessari fjölskyldu.

Reyndar er miklu líklegra að hann sigi bara lögfræðingahjörðinni á kerfið og reyni að komast undan þessu. það er aðferðin sem hefur dugað svo vel. Verst er þó að geta ekki fengið goodvill hjá þjóðinni með því að klessa þessu máli á Davið.

Annars hef ég efasemdir um að sniðugt sé að sekta kennitölurnar sem skráðar eru fyrir rekstrinum. Miklu nær er að refsa þeim sem tóku ákvarðanir um svindlið því Jóhannes mun sækja sektina til þeirra sem kaupa mat af honum.

Getur verið að það sé hrein tilviljun að fjölskylda þessa manns er hingað og þangað í forgrunni þar sem svindl og svínarí eru í Íslensku viðskiptalífi? Er kannski hugsanlegt að sá dagur renni upp að almenningur hætti bara að versla við þetta fólk af prinsippástæðum?

Að þjóðin sjái loks að góðu kallarnir voru bara að plata.

Röggi.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Tryggð við eigendur eina boðorðið.

Hvað getur maður skrifað um Reyni Traustason? Þessi maður sem hefur farið mikinn og hvergi dregið af sér í því að draga menn í svaðið þegar honum og hans vinnuveitendum hefur hentað. Stóryrðin ekki spöruð og gjarnan talað um siðferði og ábyrgð.

Svo þegar endanlega sannast að Reynir er algerlega óhæfur og siðlaus þjónn eigenda DV þá er annað hljóð í strokknum. Blessaður kallinn metur þetta mál þannig að stærðargráðan skipti öllu. það er hlægilegur útgangspunktur.

Hér er um grundvallaratriði að ræða og það ætti hinn sjálfskipaði siðapostuli að vita. En auðvitað skiptir þetta litlu því þeir voru varla margir sem gerðu þær kröfur til DV að þar færi alvöru fjölmiðill.

Hér eftir er algerlega óþarft að gefa þennan snepil út því ritstjórinn er marklaus og eigendurnir siðlausir. En þessi hópur manna þarf að eiga fjölmiðil af þessari sort hvað sem það kostar.

Og það kostar. Makalaust tap ár eftir ár skiptir þar litlu enda vita þessir menn að til eru leiðir til að láta aðra borga skuldir. Reynir Traustason er heppinn að þurfa ekki að mæta kjósendum til að halda vinnu sinni eins og stjórnmálamenn munu gera og axla þá ábyrgð sína.

Hann er í öruggu skjóli þar sem tryggð við eigendur er eina boðorðið. Hann kann það boðorð betur en aðrir menn og nú hefur hann fengið syndaaflausn hjá sér og sínum.

Þvílíkur brandari...

Röggi.

mánudagur, 15. desember 2008

Ónýtt vörumerki, DV

Magnað að sjá blaðamanninn fyrrverandi í kastljósi í kvöld, af mörgum ástæðum. Framburður hans og upptaka af samtali hans við Reyni Traustason staðfestir auðvitað hvurslags rugl er í rekstri blaðs eins og DV.

Alveg ótrúlegt að hlusta á kappann reyna að telja blaðamanninum trú um að fréttin sem hann skrifaðii um Sigurjón bankastjóra hafi verið svo léttvæg að hann hafi barasta farið létt með að að láta ritskoða sig og kúga til að birta hana ekki.

Málsstaðurinn hafi verið svo góður! Ég get alls ekki varist því að hugsa um hvernig umgengi "manna út í bæ" er við Reyni þegar um stórtíðindi er að ræða. Þetta er maðurinn sem hefur gargað á að menn sýni ábyrgð. Hér þarf ekki að garga.

Hugsanlega mun ritstjórinn undirgefni fara langt með vinna mál gegn blaðamanninum enda vafasamt í meira lagi að taka svona samtöl upp og meðhöndla eins og hann gerir. Mér finnst í sjálfu sér skítalykt að því.

En gerum það ekki að aðalatriði þessa máls. Sem er staðfestingin á þvi að sumir menn eiga ekki að eiga fjölmiðla og aðrir ekki að ritstýra þeim. Blaðamanns heiður Reynis fór endanlega út í veður og vind í kvöld.

Kannski vilja eigendur DV eða þessir öflugu "menn út í bæ" samt hafa hann í vinnu. Ég held að vörumerkið DV þoli varla meira en það sem lagt hefur verið á það undanfarin misseri. Botninum ætti að vera náð núna.

Og þó. Annað eins hefur maður nú séð...

Röggi.

Illugi Gunnarsson og þrískipting valds.

Illugi Gunnarsson er flottur þingmaður. Málefnalalegur en þó fastur á sínu. Það er yfir honum pólitísk ró og yfirvegun og hann virkar traustur. Og nú undir það síðasta, kjarkmikill.

það þarf kannski ekki mikinn kjark til að segjast hneigjast til ESB eins vinsælt og það er í dag. En það sem hann segir um að hugsanlega þyrftum við að skoða margt af þvi sem Vimundur boðaði forðum þarfnast aðeins meiri kjarks.

Mig rekur ekki minni til þess að neinn flokkur hafa sýnt þeim tillögum hinn minnsta áhuga. Einn og einn þingmaður hefur nefnt þetta létt og vakið litinn áhuga. Þess vegna fagna ég því að Illugi nefni þetta núna. Bæði vegna þess að ég ber virðingu fyrir honum eins og margir en ekki síst vegna þess að hann er sjálfstæðismaður eins og ég og mér finnst þetta eiga að geta rímað fallega við grundvallaratriði okkar flokks.

Kjósum framkvæmdavaldið beint og löggjafann sér. Þrískiptum valdinu eins og stjórnarskráin segir til um. það er ekkert að óttast eins og margir virðast halda. Og þetta er ekki heldur flókið. Vissulega þarf að ráðast í breytingar en það er nú akkúrat það sem þarf er það ekki....

Með þessu fengjum við eðlilegra umhverfi í okkar stjórnsýslu en ekki það ráðherraræði sem nú er. Er nánast þeirrar skoðunar að þeir sem ekki vilja breyta og skipta valdinu í þrjá hluta þurfi að útskýra fyrir mér af hverju ekki!

Þetta hentar öllum flokkum og allri þjóðinni. Þjóðin getur kosið sér forstjóra til að reka batteríið og kýs sér svo þing sem setur forstjóranum reglurnar. Þingmeirihluti getur svo myndast utan um alls konar mál þar sem málefni ráða kannski meiru en vilji framkvæmdavaldsins. það sjáum við ítrekað í Bandaríkjunum og mér finnst það hollt.

Dropinn holar steininn og kannski mun þetta ná fram að ganga og vonandi fyrr en seinna. Og þá er ekki afleitt að menn eins og Illugi Gunnarsson vinni málinu kannski fylgi. Ég vona að minn flokkur taki þetta til umræðu af alvöru því þetta er raunverulega miklvægt til að tryggja okkur eðlilegri stjórnsýslu en við búum við núna.

Röggi.

Og augun eru að opnast...

Illugi Jökulsson fer mikinn núna og heimtar skýringar á því að ritstjóri DV skuli láta menn út í bæ hafa áhrif á það hvað fer í blaðið. þetta kemur Illuga á óvart sýnist mér.

Það er stórmerkilegt alveg. þetta kemur mér ekki á óvart enda fyrir löngu orðið ljóst að Reynir Traustason er kjölturakki eigenda sinna. Nú man ég ekki nákvæmlega hver afstaða Illuga var til fjölmiðlalaganna en hafi hann verið á móti þeim þá bað hann um þetta rugl.

Greinilegt alveg að æ fleiri eru að sjá ljósið. Jón Gerald er að verða hetja eftir að hafa þurft að þola magnaðar árásir árum saman í fjölmiðlum mestu þjófa sögunnar. Jónina Ben og reyndar fleiri sem reyndu að berjast gegn þessum mönnum voru skrifuð geðveik og rugluð og sökuð um að vera fótgönguliðar Davíðs. það var þá....

Núna tekst allt í einu að draga fram fræðimenn sem benda á hið augljósa. það sem blasti við allan tímann en hvorki fjölmiðlar né fólk sem ekki getur brotist út úr pólitískum slag vildu sjá. Þjóðin var höfð að fíflum og þeir sem bentu á það fengu að finna fyrir því.

Pólitíska uppgjörið mun fara fram því stjórnmálamenn þurfa að mæta kjósendum sínum á endanum. Nú skulum við einhenda okkur í það gera upp við þessa örfáu gaura sem stálu þjóðarauðnum, íbúðunum okkar til dæmis, skuldsettu okkur til eilífðar og sitja svo fínir menn erlendis og horfa á þjóðina basla við reikninginn.

Staðreyndirnar eru að ryðjast upp á yfirborðið núna og loks virðist þjóðin tilbúin að opna augun og það þrátt fyrir að sumir fjölmiðlar þegi þunnu hljóði.

Vonandi verður Illugi öflugur liðsmaður þegar kemur að þessari tiltekt þó hún lúti ekki að því að slá pólitískar keilur. Það eru nefnilega víðar rotin epli en bara í pólitík og á meðal embættismanna.

Röggi.

miðvikudagur, 10. desember 2008

Fréttablaðið í vörn.

Nánast sorglegt að sjá hvernig rítstjórar Fréttablaðsins reyna að telja okkur trú um að engu skipti hver borgar þeim kaup. Blindur maður sér að aðalfréttin er hvernig ekki er skrifað í þetta annars fína blað.

Engu skiptir hvort um er að ræða fréttstjóra stöðvar 2 eða fréttablaðsins. Alltaf er hlaupið til þegar eigandinn þarf að komast að og nú síðast til að leiðrétta grein sem birtist ekki í Fréttablaðinu. Lesendur Fréttablaðsins geta lesið leiðréttinguna en ekki greinina.

Eigendur Fréttablaðsins eru heppnir með ritstjóra því ég hef mjög mikla trú á Þorsteini Pálssyni þrátt fyrir allt. Það er bara Þorsteinn sem er ekki mjög heppinn með eigendur......

Röggi.

mánudagur, 8. desember 2008

Hagfræði Jóns Danielssonar.

Jón Daníelsson var í silfri Egils í gær. Sprenglærður hagfræðingur og viðurkenndur. Áheyrilegur og sannfærandi. Og ferkanntaður....

Hann talar um að betra væri að borga ekki Icesave reikningana og ekki sé skynsamlegt að taka lán hjá IMF. Út frá hvaða forsendum talar maðurinn? Er það betra fyrir okkur sem þjóð til framtíðar í ljósi þess að við stefnum að því að halda áfram að vera menn með mönnum? Stunda viðskipti og kannski sækja um aðild að ESB.

Ég er viss um að stjórnvöld hafa komist að sömu niðurstöðu og Jón. Miklu ódýrara fyrir okkur fjárhagslega að setja Íslensku bankana á hausinn og sleppa við að borga skuldir þeirra. Þá tapa Íslenskir innistæðu eigendur reyndar og ég sé ekki hvað stjórnmálamaður ætlar að taka þá ákvörðun.

það er nefnilega fleira í þessari mynd en bara tölur og hagfræði. Við getum auðvitað hagað okkur eins og villimenn og sagt okkur úr lögum við aðra menn og þjóðir. Það er líklega "ódýrara" bæði til lengri eða skemmri tíma.

En hvað er "ódýrt" í þessu og hvað er "hægt"? Engir kostir voru ódýrir eða sérlega freistandi. Hagfræði eru nytsamleg fræði en ekki er allt gull sem glóir þar.

Við erum í samfélagi þjóða og ætlum okkur að vera þar og margir vilja meira samneyti. Fyrir það fólk er málflutningur Jóns Danielssonar eiginlega alveg ónothæfur.

Við áttum einfaldlega engan annan kost en að standa við okkar. Svona úrtölur gera ekkert annað en að ala á óánægju. Sama fólkið og vildi ekki greiða niður skuldir ríkissins heldur miklu frekar að eyða meiru virðist nú ekki mega heyra minnst á skuldsettan ríkissjóð.

Ég vill að Egill fái Jón aftur til þess að segja okkur hvernig við hefðum átt að komast upp með að borga ekki. Og hvernig við hefðum átt að haga samskiptum okkar við aðrar þjóðir hvort heldur sem um er að ræða lönd ESB eða vini okkar á norðurlöndum.

Kannski heyra þau mál ekki undir hagfræði og því allsendis óvíst að Jón geti tjáð sig um þau. En stjórnvöld geta ekki leyft sér slíkan lúxus. þau þurfa að horfa á heildarmyndina.

þar liggur munurinn.

Röggi.

Röggi.

laugardagur, 6. desember 2008

Davíð yfir strikið.

Nú er komið að því að Davíð verður að hætta í Seðlabankanum. Trúnaðarbrestur milli hans og ríkisstjórnar er orðinn svo mikill og opinber að ekki verður við unað. Það er endapunktur að mínu mati.

Lengi hélt hann sjó. Lét ekki hafa sig út í hanaat í fjölmiðlum. Bankinn stóð fastur á sínu þrátt fyrir stanslausa ágjöf. Virtist trúa þvi alla leið að hann væri á réttri leið og að á endanum kæmi það í ljós.

Faglegur ágreiningur er eðlilegur og líklega hollur. Þegar staðan er orðin þannig að menn skattyrðast í fjömiðlum daglega þá verður að grípa til aðgerða. Þannig stjórnsýsla dugar ekki.

Mér sýnist Davíð hafa tapað þolinmæðinni endanlega núna. Kannski engin furða. Maðurinn hefur í óratíma mátt þola makalausar árásir á sig í fjölmiðlum Íslensku fjármála snillingnna.

Alveg frá því að Ingibjörg Sólrún fór í Borgarnes og sló skjaldborg um Jón Ásgeir og Baug hefur stríðið geisað. Þar fékk Jón pólitískt skjól og frið til athafna. Baugsmálið var gert að pólitík með fulltingi Samfylkingar sem gat ekki neitað sér um þennan fína höggstað á Davíð.

Bak við þennan skjólvegg hefur starfsemin dafnað og við sjáum afraksturinn. Davíð barðist við ofureflið og reyndi að benda á hvurslags lið þetta væri. Hann reyndi að koma í veg fyrir að þetta fólk kæmist yfir fjömiðlana. Við vitum hvernig það fór.

Nú situr hann í Seðlabankanum og enn er honum kennt um. Fjölmiðlar kónganna múlbundnir í kaf taka fullan þátt. Fullnaðarsigur er í sjónmáli. Davíð fer...

Það ætti að kæta þjóðina sem trúir öllu sem því hefur verið sagt um manninn. Ég hitti mjög reglubundið fólk sem hreinlega veit að hann er geðveikur alki. Gengur um öskrandi og ógnandi. Þetta vita allir að er staðreynd er sagt. Hvað er að fólkinu sem vinnur með manninum?

Þetta allt saman hentar ekki bara glæpamönnnum sem er enn þann dag í dag eru að véla um þjóðarauðinn í friði fyrir þjóð sem elskar að hata Davíð. Þetta hentar ekki síður misónýtum stjórnmálamönnum sem setja Seðlabankanum reglurnar ásamt ESB. Þeir eru að mestu stikkfrí.

Þeir ætla að setja saman nefndir sem skrifa hvítar bækur. Skipa væntanlega sjálfir í þá nefnd. Seðlabankinn vill ekki slíka nefndarvinnu. Óháða erlenda rannsókn takk. Líklega verður Davíð ekki til staðar þegar þeirri rannsókn líkur og ekki alveg víst að niðurstöðurnar verði í takt við það sem margir búast við.

Davíð er slagsmálahundur enginn vafi. það er líka kostur en eins og þessi nýjasti slagur lítur út þá getur hann ekki unnið. Seðlabankastjóri getur ekki slegist opinberlega við forsætisráðherra. Hvort söguhetjurnar heita Geir og Davíð eða eitthvað annað skiptir akkúrat engu. Svona gerist þetta bara ekki.

Þess vegna fer Davíð og Jón Ásgeir og félagar taka tappa úr kampavínsflösku á einhverri kyrrahafseyju í boði þjóðarinnar í taumlausum fögnuði. Maðurinn sem barðist hvað harðast við þá loks veginn. Ippon...

Þá getur þjóðin kannski snúið sér að því að reyna að koma lögum yfir gerendurna sjálfa. Brunað með eggjabakkana út á flugvöll eða fundið bílana þeirra og mótmælt í heimreiðinni.

Margir munu fagna og telja brotthvarf Davíðs mikinn sigur. En það er þannig með sigrana að einhver tapar. Þeir sem ekki sjá hver er óvinurinn eru ólíklegir til að vinna stóra sigra.

Röggi.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Lýðræðinu fleygt á dyr.

Lýðræði er merkilegur hlutur. Mótmælendur styðjast að jafnaði við þetta hugtak. Þegar fólk safnast saman á Austurvelli er hrópað á lýðræði. Þeir sem þar koma saman telja sig vera hina einu og sönnu fulltrúa lýðræðis hér.

Hvenær er tími til kominn fyrir lýðræðislega kjörin stjórnvöld til að fara frá. Er það þegar 5 þúsund manns mæta eða kannski 36 þúsund? Eða þegar búið er að grýta 250 kg af eggjum? Nú eða kannski þegar skoðanakannanir mæla óánægju yfir 50%? Veit það ekki en veit samt að ekkert er ólýðræðislegt við að stjórnvöld sitji áfram. Kann að vera heimskulegt en ekki ólýðræðislegt.

Mér hefur oft fundist mótmælendur leggja undarlegan skilning í lýðræðið. Nú sást það síðast þegar Ástþór Magnússyni er hent út af OPNUM borgarafundi vegna þess að hann og hans skoðanir passa ekki inn í það sem 99% fundargesta telja vera hina réttu skoðun.

þannig að fundur þessi er varla opinn og lýðræðislegur. Af því að þó fundarmenn komist að þvi með handuppréttingu að þessi maður og hans skoðanir séu ekki velkomnar þá getur það varla verið lýðræðinu hollt að halda bara einni skoðun á lofti.

Lokaður borgarafundur skoðanabræðra er heppilegra nafn á svona samkomum. Ekkert er að því að menn haldi slíka fundi en verra að menn skreyti sig með lýðræðishjali eftir uppákomuna.

Opnar samkomur eins og til dæmis þingfundir kæmust ekki upp með svona fundarstjórn. það er vegna þess að þingið er lýðræðisleg stofnun. Þar sem hver hefur fullan rétt á skoðun sinni og frelsið til þess að koma henni á framfæri óskert á allan hátt.

En fundarstjórar á borgarafundinum lokaða þurfa ekki á lýðræðislegri kappræðu að halda. Þar ræður eitt sjónarmið og ein aðferð til tjáningar. Óvinurinn eru þeir borgarar sem ekki eru með þetta á hreinu. Efinn er óþarfur.

það er lýðræðislegur réttur manna að hafa skoðanir og mótmæla. En þeir menn sem telja sig sjálfskipaða riddara lýðræðis verða að hafa skilninginn á bak við það á hreinu. það virðist eitthvað hafa skolast til þarna.

Þarna var samankominn hópur fólks sem tók lýðræðislega ákvörðun um að vera ólýðræðislegur félagsskapur.

Það er handónýtt.

Röggi.

þriðjudagur, 2. desember 2008

Vá fyrir fjölmiðladyrunum.

Nú er þetta að vera smart. Hundtryggur lögmaðurinn Hreinn Loftsson er nú kannski að eignast skuldir Moggans og þar með eignir. Þá er þetta þægilegt. Fjölmiðlar eru þá á tveimur höndum hér. Því hlýtur að vera fagnað allt frá Bessastöðum til höfuðstöðva Baugs.

Í því þjóðfélagi sem við byggjum erum fjölmiðlar eiginlega ekki fjórða valdið. Miklu nær að kalla þá þriðja ef ekki hreinlega annað valdið enda spörum við okkur valdastigana hér með því að hafa engin skil á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. Sumir segja svo að framkvæmdavaldið ráði yfir dómstólum! Þá eru stigin enn færri.

Hér þurfum við að skera upp eða öllu heldur að hverfa til þess sem stjórnarskráin segir um þrískiptingu valds. Og gera svo aðra tilraun til að koma lögum um eignarhald á fjölmiðlum í gegnum Bessastaði.

Sjá ekki allir að þetta er orðið hlægilegt? Og þó varla því málið er alvarlegt. Ekkert þjóðfélag getur sætt sig við svona fjölmiðla umhverfi. Mogginn hefur reyndar staðið sig vel undir núverandi ritstjóra en ég get ekki séð að ef Hreinn Loftsson kaupir hann fyrir vin sinn Jón Ásgeir að Ólafur verði langlífur í sínu starfi.

Til þess er Ólafur of mikill fagmaður og virðist ekki láta múlbinda sig við eigendur eins og alsiða virðist hér.

Þetta má ekki ganga eftir.

Röggi.

Reiðin á rúv.

Nú berast fréttir af uppsögnum nánast daglega. Kreppan verður varla meiri hjá einstaklingum en þegar uppsagnarbréfið berst. Sultarólin herðist og fáir finna ekki fyrir því. þannig er ástandið.

Fólki hefur verið sagt upp hjá 365 eða hvað það fyrirtæki heitir í dag, eða ætti ég kannski að segja , hét í gær svo ört er skipt um kennitölu þar. Skjár 1 er í dauðateygjunum og allir þar hafa fengið bréfið. Mogginn berst fyrir lífi sínu og mikil óvissa hjá þeim sem þar vinna.

Allt er þetta dapurt mjög en það er ekki fyrr en gamla ríkisfyrirtækið rúv þarf að reka sig á sömu forsendum og önnur fyrirtæki að allt fer á annan endann. Rúv er eins og önnur fyrirtæki í eigu ríkisins. Starfsfólkið telur sig eiga fyrirtækið. Þegar þeir sem bara ábyrgð á rekstrinum þurfa að gera breytingar á rekstrinum þá verður starfsfólkið reitt og vill beita neitunarvaldi.

Þetta sáum við þegar fréttamenn rúv komu í veg fyrir ráðningu fréttastjóra á sínum tíma. Þetta sjáum við í menntakerfinu okkar og heilbrigðis líka. Þessar greinar virðast hreinlega í eigu starfsfólksins. Engu má breyta sama hvað tautar og raular. Þetta er veikleiki opinbers reksturs.

Vissulega er sorglegt að rúv geti ekki haldið áfram að sólunda opinberu fé og reka sig með bullandi tapi ár eftir ár þrátt fyrir ríflegan heimamund frá skattgreiðendum. Starfsfólkið vill kannski að það haldi bara áfram?

Söngurinn er alltaf sá sami. Rifist yfir launakjörum forstjórans og bent á að sumir fái meira útborgað en aðrir. þannig mun það alltaf verða og þannig á það jafnvel að vera. Og ég spyr, hvernig getur það verið öðruvísi? Er starfsfólk stöðvar 2 að skammast yfir því að Logi Bergmann er betur launaður en margir aðrir þar inni?

Fjölmiðlar eru uppfullir af sögum að öðru fjölmiðlafólki sem nú er brjálað yfir þvi að það vinnur hjá fyrirtæki sem þarf að lúta eðlilegum lögmálum í rekstri. Ekki man ég til þess að aðrar starfsstéttir láti eins og þetta fólk gerir. Allavega hefur það ekki jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum...

það er persónulegur harmur að fólk missi vinnu sína, enginn vafi. En fyrir mig eru það gleðitíðindi að nú eigi að fara að reka þetta apparat að einhverju leiti eins og önnur fyrirtæki. Reksturinn gengur ekki upp og þvi er skorið niður.

Eins og eðlilegt er í öllum rekstri. Nema hjá ríkisstarfsmönnum. þeir eru stundum eins og heilagar kýr. Hvenær sjáum við svona viðbrögð í einkarekstri sem hefur þó mátt þola ofbeldi og yfirgang þesarar stofnunar mjög lengi á auglýsingamarkaði?

Niðurskurður er óhjákvæmilegur. Dugar kannski að lækka laun forstjórans?? Reyndar væri nær að láta hann hreinlega fara svo hraustlega hefur þessi stofnun farið illa með fé undir hans stjórn.

Nú verður að draga úr kostnaði. Engin önnur leið er fær núna. Enda hef ég ekki seð neitt uppbyggilegt í málfutningi starfsfólksins um það hvernig á að mæta þessu tapi. Bara reiði.

Hún er að einhverju leiti skiljanleg en ekki er mikill sparnaður í henni.

Röggi.

föstudagur, 28. nóvember 2008

Grein Jóns Steinssonar um viðskipti.

Jón Steinsson skrifar reglubundið frábærar greinar um Íslenskt viðskiptalíf í moggann. Í gær varaði hann okkur við því að láta menn komast upp með þær æfingar sem hafa átt stóran þátt í að koma okkur í þá skuldastöðu sem við erum í.

Þá er hann að tala um brellur tengdra aðila sem selja sjálfum sér fyrirtæki fram og til baka á sífellt hækkuðu verði. Nefnir í því sambandi Sterling og 10/11. það fannst mér áhugavert. Af hverju 10/11?

Voru viðskiptin með 10/11 ekki dæmd lögleg í hæstaretti? Kannski eru svona taktar löglegir hér. Frá mínum bæjardyrum séð voru viðskiptin sem áttu sér stað með 10/11 á sínum tíma skólabókardæmi um hvernig hægt er að þverbrjóta lög um hlutafélög og komast upp með það. Mér er enn hulin ráðgáta hvernig hægt var að koma þeim í gegnum dómskerfið.

Kannski verður æra þessa manns troðin ofan í skítinn eins og sumra annarra sem hafa reynt árum saman að benda á hvernig þessir menn stunda sín viðskipti. Öllu var til fórnað. Kannski sér til lands í þessu núna.

Hugsanlega rumskar þjóðin og sér það sem alltaf var augljóst. Þau viðskipti sem eiga sér stað með 365 og voru reynd við TM eru sú tegund viðskipta sem við eigum ekki að líða. Slugsarnir búnir að skuldsetja fyrirtækin upp í topp og fá svo bara niðurfellingu og meiri peninga að láni. Og hafa í leiðinni grætt verulega sjálfir.

Þetta þarf að stoppa og þó fyrr hefði verið því reikningurinn endar alltaf hjá okkur.

Röggi.

Málfrelsi Katrínar.

Katrín Oddsdóttir varð hetja á svipstundu um síðustu helgi þegar hún hélt þrumandi ræðu yfir reiðum Íslendingum á Austurvelli. Þar fullyrti lögfræðineminn að stjórnvöld hefði brotið lög á borgurnum en þessi málflutningur var hrakin eftirminnilega í mogganum í fyrradag. Fólkið var aftur á móti ánægt með messuna.

katrín þessi er víst að læra lögfræði en á margt ólært greinilega. Sagðist í útvarpi standa við hvert orð og mun hiklaust hvetja fólk til þess að beita ofbeldi gegn valdhöfum ef þurfa þykir. Þeim skal koma frá með illu frekar en góðu.

Merkilegur málflutingur hjá verðandi lögmanninum. Hvenær skipta lög máli og hvenær ekki? Makalaust hvað pólitísk blinda getur afvegaleitt. Ekkert er að því að vilja stjórnina burt en verra að hvetja til hluta eins og valdaráns. Fyrst er ráðist á lögregluna og næst kannski alþingi...

Orðum fylgja ábyrgð. Katrín telur að þetta snúist um málfrelsið. Vissulega er henni eins og öðrum frjálst að tjá sig á hvaða þann hátt sem henni sýnist. Engum dettur í hug að draga þann rétt í efa.

Né heldur rétt okkar hinna til að krefjast þess að viðkomandi axli ábyrgð á orðum sínum. Það ætti verðandi lögmaðurinn að vita.

Röggi.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Dylgjur um samning borgarinnar við Val.

Nú berast fréttir af óánægju íþróttafélaga í Reykjavík með það sem kallað er óeðlileg sérkjör sem Valsmenn fá hjá Reykjavíkurborg. Þessi óánægja virðist þó að mestu nafnlaus enda efnisatriði máls þannig að varla mun nokkur leggja nafn sitt við.

Því fer víðs fjarri að Valsmenn séu að fá sérmeðferð hjá borginni. Mér er nær að halda að þeir sem eru að blása þetta út viti hreinlega ekki mikið um þann samning sem borgin gerði við Valsmenn á sínum tíma. Reyndar er það þannig að fæstir í íþróttahreyfingunni trúðu því að Valur væri með söluvöru í höndunum í félagssvæði sínu. Það er önnur saga, og þó.

Valsmenn hf sem keyptu svæðið af félaginu tóku lán til að standa við sitt og ætlaði að ná sínu til baka með sölu á lóðum sem var búið að skipuleggja. Kannski rétt að minna á það að á þessum tíma var lóðaverð í Reykjavík skýjum ofar.

Svo gerist það að borgin biður um frest til að breyta skipulagi og var sá frestur veittur. Svo gerist það aftur og enn var sá frestur veittur og ég veit ekki betur en að enn sé skipulag á svæðinu óráðið.

Þeir sem ekki sjá að hér er borginni skylt að tryggja að Valsmenn hf beri ekki kostnað af láninu sem þeir tóku til að standa við sitt eru blindir. Í samningi Valsmanna hf var klausa um styrk til unglingastarfs sem ekki hefur, eðli máls samkvæmt verið hægt að standa við.

Borgin leggur nú út fyrir þessum styrk og kannski rétt að árétta að þar er verið að leggja út peninga sem á að endurgreiða þegar skipulag verður loks komið á og hægt að selja lóðir.

Borgin er sem sagt að hjálpa Valsmönnum hf til að lágmarka það tap sem þeir verða alveg augljóslega fyrir vegna þess að borgin hefur ekki getað staðið við sitt. Þó er klárt mál að Valsmenn hf munu ekki fá það verð fyrir lóðirnar og þeim stóð til boða þegar beiðnir Reykjavíkurborgar um frestun á fullnustu samnings tóku að berast.

Staðreyndir þessa máls liggja allar fyrir og því er furðulegt að ónefndir forráðamenn einhverra félaga skulu komast upp með dylgjur sem þessar. Valsmenn fengu ekkert gefins en bera samt talsvert tap sem klárlega verður ekki að fullu bætt.

það að borgin reyni að bjarga því sem bjargað verður gagnvart félaginu er í hæsta máta eðlilegt og sanngjarnt.

Röggi.

NRK lýgur upp á Jón Ásgeir!

Nú er það svart. NRK í Noregi er nú farið að ljúga upp á Jón Ásgeir. Hann á fullt í fangi með að leiðrétta vitleysuna í þeim. Þetta hlýtur að vera mjög pirrandi fyrir Jón enda á hann því ekki að venjast að fjölmiðlar fjalli um annað en hann segir þeim að fjalla um.

Merkileg þessi rógsherferð gegn þessum mesta fjárglæframanni landsins. Hún er bara orðin alþjóðleg. Nú er að útvega sér lánsfé og kaupa bara upp félagið. Hlýtur að fást keypt þó um ríkisfyrirtæki sé að ræða.

Og þó. Ætli sé til löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum í Noregi? Þá stofna menn bara margar kennitölur og eignarhaldsfélög....

Röggi.

Flottur Jón Baldvin.

Ég fékk aðkenningu að gæsahúð þegar ég las grein Jóns Baldvins í mogganum í morgun. Þar var naglinn sleginn á höfuðið á snilldarlegan hátt á köflum.

Hvernig hann talaði um forseta vorn og fjölmiðla. Og viðskipti bankanna við eigendur sína. Allt þetta ætti að blasa við okkur þó margir geti ekki séð neina vankannta á forseta vorum af því að það hentar ekki pólitískt. Hann ber einn ábyrgð á því í hverri stöðu fjölmiðlar á Íslandi eru.

það sem gladdi mig mest var samt að Jón Baldvin skuli nú svo löngu eftir að Vilmundur klauf sig frá Alþýðuflokknum til að fylgja sannfæringu sinni sjá að Vimmi var með málið. Því eins og maðurinn orðaði það, það er kerfislæg villa hjá okkur.

Við erum ekki með aðskilnað milli löggjafans og framkvæmdavalds. Höfum aldrei verið með það. Hér er löggjafinn í vinnu hjá framkvæmdavaldinu. Þetta er í grundvallaratriðum þvæla og stórhættulegt. Menn voru ekki að grínast þegar talað var um þrískiptingu valds.

Hef sagt þetta þrjú hundruð sinnum og munar ekki um eitt skipti enn. Þingmenn eru ekki ráðherrar. Kjósum forsætisráðherra beint og hann velur sér stjórn. Þetta sá Vimmi fyrir löngu síðan að er rétta leiðin og vonandi munu fleiri sjá þetta nú.

Ég er sammála Jóni Baldvin með að nú er rétti tíminn til að koma með alvöru hugmyndir um uppstokkun á kerfinu. Ekki er nóg að skipta um andlit ef systemið er ónýtt. Geri mér grein fyrir þvi að mjög stór hópur hreinlega virðist ekki fatta að þetta er algert lykilatriði.

Þingið er löggjarsamkoma. Þjóðin kýs fólk til þings til að setja okkur lög. Ekki til að vera framkvæmdavald. Er það ekki augljóst? Þess vegna verðum við að kjósa forsætisráðherra beint og hann kemur svo málum framkvæmdavaldsins í gegnum löggjafarsamkunduna sem við völdum.

Jón Baldvin veit hvað hann syngur í þessu og þekkir spillingu þegar hann sér hana og veit kannski betur en margir hvar hún er uppalin og hvernig hún komst á legg. Gallað kerfi eykur líkur á slíku og því skulum við nú drífa okkur í því að koma þessu í lag.

Þetta er ekkert flókið. Þetta er lýðræðislegri leið til að velja sér forystu en sú sem nú er notuð. Í dag er alls ekki tryggt að "sigurvegarar" í kosningum komist að landsstjórn. Í kerfinu hans Vilmundar var það geirnelgt. Þjóðin kýs sér leiðtoga.

Það verður varla betra en það......

Röggi.

Röggi.

mánudagur, 24. nóvember 2008

Jón Ásgeir hótar málssókn.

það er þetta með Jón Ásgeir.

Hann er ekki feiminn við hlutina. Ég bara man ekki lengur hversu oft hann hótar málssókn. Nú er það umfjöllun um vafasöm viðskipti sem tengjast honum enda á hann ekki að venjast því að fjölmiðlar séu að fetta fingur út í hans bisness.

Nær væri að lögsækja þá menn sem hafa ekki fjallað um viðskipti hans í gegnum tíðina. Baugsmálið er hreint smámál þegar farið er ofan í saumana á því hvernig hann hefur mjólkað peninga út úr fyrirtækum sínum. En við erum bara sátt.

Horfum upp á ruglið og segjum fátt. Nú nýverið fór pilturinn í enn eitt trixið með fjölmiðlana sína. Þar afskrifaði hann ca 5 000 milljónir skulda. Þeim milljónum tapar einhver. Þær duttu ekki af himnum ofan frekar en allir hinir milljarðarnir sem hann skuldar en við borgum.

Þessu er fagnað enda verið að tryggja starfsfólkinu vinnu! Fyrst starfaði hann í pólitísku skjóli og svo þegar honum tókst að tryggja sér fjölmiðla landsins þá hefur hann starfað í skjóli þess sem ræður því hvað er til umræðu hér. Enda leggur hann allt upp úr því að eiga fjölmiðlana þó þeir tapi peningum hvert ár. Enda borgar hann hvort eð er ekki tapreksturinn eins og við vitum.

Árum saman hafa örfáir reynt að stympast við og skrifað um manninn. Þeir aðilar hafa mátt þola ótrúlegar svívirðingar frá fólki sem trúir öllu sem það sér skrifað í fjölmiðla. Eins og í Baugsmálinu var ráðist að persónu viðkomandi en alls ekki reynt að svara fyrir sig. það virkaði vel þar og verður reynt áfram.

Í stað þess að reyna nú að reka af sér slyðruorðið er reynt að sparka í menn. Það er aðferðin enda auðmýkt ekki til. Af hverju svarar hann ekki fyrir sig heldur hefur í hótunum sífellt?

Skilur hann ekki að nú hefur hann ekki sömu spil á hendi og áður? Fleiri og fleiri eru að vakna þó langflestir sofi enn vært. Og á meðan tekur hann eins og einn snúning til viðbótar á þjóðinni fyrir litlar 5 000 milljónir. það er reyndar vel sloppið í þetta skiptið. Hinir snúningarnir eru allir á gjalddaga með mig og þig sem greiðendur.

Kannski tekst honum svo að klína tapinu á Stoðum/Fl group á einhvern Hannes. Eða kannski Davíð sem væri mjög nærtækt. Umgengi hans í Íslensku viðskiptalífi er orðinn hreinn farsi og aðganseyrinn að farsanum hækkar stöðugt.

En þjóðin borgar sig samt enn inn. Hvernig á því stendur er bara eitthvað sem ég skil ekki og hef aldrei gert.

Og mun ekki skilja...

Röggi.

Óskastjórn Steingríms.

Hvernig dettur Steingrími J í hug að Samfylkingin fari í stjórn með VG eftir kosningar? Eða að einhver fari yfirleitt í stjórn með VG. VG virðist helst vilja vera í andstöðu.

Í því ástandi sem nú er vill Steingrímur ekkert gera. Hann vill ekki taka erlend lán enda nýlega kominn á þá skoðun að skuldir ríkissins séu vont mál. Hann hefði betur haft þá skoðun þegar hann var sjálfur við kjötkatlana.

Ef þessari fáránlegu tillögu fylgdu einhverjar aðrar hugmyndir væri hægt að taka þetta alvarlega. En svo er ekki enda lausnin ekki auðfundin og allra síst ef ekki á að fá peninga að láni.

Auk þess telur VG að við séum ein í heiminum og þurfum ekki að axla ábyrgð á reikningum erlendis. Þar vill hann bara lemja höfðinu við steininn og verða bara harður. Gömul þjóðremba sem hljómar örugglega vel í einhverjum eyrum en skilar okkur engu. Nema kannski alþjóðlegri einagrun.

Ég held að hvorki þjóðin né Samfylking þurfi á slíku samstarfi að halda. VG ætlar sér ekki inn í ESB en þangað stefnir Samfylking hraðbyri með stuðningi þjóðarinnar. Þar mun ekki verða gefinn neinn afsláttur við næstu stjórnarmyndun.

Af þessum ástæðum og mörgum öðrum er langlíklegast að VG sitji um langa tíð á bekknum jafnvel þó fylgið færi í 30%. Ég held að málflutningur VG sé í raun lím þessarar ríkisstjórnar.

það er ekki í nein önnur hús að vernda.....

Röggi.


















Röggi.

Álfheiður Ingadóttir ruglar.

Borgaraleg óhlýðni varð á þessu ári tískufyrirbrigði. Vörubílstjórar ruddust á göturnar og sköpuðu umferðaröngþveiti sem vatt svo upp á sig þannig að þeir sem voru óánægðir með bara eitthvað bættust í hópinn og öllu var mótmælt. Við vitum hvernig það fór. Eitt allsherjar rugl sem snérist undir það síðasta um að lemja á lögreglunni.

Nú er tími mótmæla og óánægju. Ekkert nema gott um það að segja ef fólk vill koma saman og mótmæla. Og líklega verður seint hægt að koma í veg fyrir eggjakast og fánahyllingar í kringum svoleiðis. Sumum finnst það tilheyra og vera sniðugt. Mér ekki...

Þeir sem standa fyrir mótmælum og fundum á torgum þurfa að muna að sýna ábyrgð í tali. Annars er hætta á stigmögnun sem enginn veit hvar endar. Svo eru auðvitað þeir til sem vilja bara að svona magnist og endi helst í allsherjar óreglu.

Álfheiður Ingadóttir er nálægt því. Hún hafði ágætan skilning á því að hópur fóks reyndi með hreinu ofbeldi að ráðast inn á lögreglustöð. þeirri árás var hrundið sem betur fer. það er grafalvarlegt að ýta undir svona hegðun þó henni þyki þessi borgaralega óhlýðni kannski smart.

Hvurslags þjóðfélag vill konan að við eigum hér? Eigum við að safna saman hópi af reiðum vinum okkar og ráðast til inngöngu hjá skattinum ef við teljum menn þar ósanngjarna? Ættum við að ráðast inn í þingið og taka það í gíslingu?

Undir engum kringumstæðum er hægt að mæla með svona hegðun. þeir sem ekki sjá að með því er vegið að grunnstoðum samfélagsins og allsherjarreglu eru frá mínum dyrum séð blindir eða eitthvað þaðan af verra.

Kannski gott að ryfja það upp að Álfheiður situr á löggjafarþingi okkar Íslendinga. Þar er hún fulltrúi löggjafans.......

Röggi.

föstudagur, 21. nóvember 2008

Óskynsamlegt að kjósa núna.

Nú rísa hárin á Samfylkingarfólki vegna þess að Ingibjörg Sólrún lýsir því yfir að ekki sé tímabært að kjósa. Ég heyrði hana ekki segja að ekki yrði kosið áður en kjörtímabilinu lýkur. Bara að þetta væri ekki tíminn.

Enda er þetta ekki tíminn. Öfugt við það sem mætir menn halda fram þá þarf hér ríkisstjórn. Þeir sem halda að við þurfum núna að fara í nokkurra vikna kosningabaráttu og slag á meðan Róm brennur hugsa þetta ekki í botn.

Vissulega er freistandi fyrir Samfylkingarfólk að innleysa fylgisaukningu núna en það má varla kosta hvað sem er. Núna syttist að krónan verði sett á flot og þá gengur hreinlega ekki að vera í kosningabaráttu.

Einhverjir munu nú koma með tugguna um að við viljum ekki að ÞETTA fólk taki þessar ákvarðanir heldur eitthvað óskilgreint annað fólk. Hvaða fólk er það? Er einhver von til þess að flokkarnir umpólist bara allir og fyllist af glænýju fólki einn tveir og þrír.

Miklu líklegra er að ef kosið er síðar að þá muni flokkunum gefast ráðrúm til að endurmeta alla hluti. Það gerist ekki á tveimur mánuðum. Eina "nýja" fólkið sem í boði er eru frjálslyndir og svo "nýja" fólkið sem stýrir VG. Rétt upp hendi sem vill að Steingrímur J komist að til að skila lánunum sem við erum að fá.

Svo er hinn möguleikinn auðvitað. Demba sér í kosningar til að kjósa sama fólkið aftur en bara í nýjum hlutföllum og sleppa því að setja krónuna á flot á meðan. Gera eins og VG vill hafa það, sumsé ekki neitt. Þá erum við alveg örugg um að fyrirtækin fara öll á hliðina. Hver græðir á því?

Kosningar núna eru út í hött. Efast ekki um fólk sem ekki hefur neitt málefnalegt til málanna að leggja telur að ég segi þetta vegna þess að ég er Sjálfstæðismaður. Ég held því fram að margir af þeim sem leggja þetta til séu Samfylkingarfók sem sér fylgisaukingu í kosningum í hyllingum.

Ég geri mér stútfulla grein fyrir því að kosningar fyrir timann eru eðlilegur hlutur. það verður þó að vera síðar en fyrr þvi nú er verk að vinna fyrir stjórnvöld. Þau stjórnvöld sem nú eru við völd eru örugglega ekki verr til þess fallin en fólkið sem er á hliðarlínunni.

Þar eru engar lausnir. Bara róið á reiðina og óánægjuna. Hún kann að vera réttlát en skilar okkur engu.

Röggi.

Rausandi ráðherrar.

Hvað ætlar Samfylkingin að verða þegar hún er orðin stór? það er brennandi spurning. Mér finnst Ingibjörg Sólrún vera á góðri leið sjálf. Gríðarlega mælsk og beinskeytt og fer nánast aldrei yfir strikið. Er að reyna að búa til landsföðurslega ímynd sem er svo nauðsynleg.

Núna er hún í ríkisstjórn með mínum mönnum við skilyrði sem enginn stjórnmálamaður hefur nokkru sinni þurft að horfast í augu við. Ólíkir flokkar um flest og ágreiningur um stór mál öllum ljós. Geir og Ingibjörg fara býsna vel með samstarfið og ágreininginn. Eru hófstillt og virka samhent.

Enda ekki vanþörf á akkúrat núna. Margir heimta kosningar núna þó flestum virðist augljóst að slíkt tal eru í besta falli broslegt. Kosningar núna þegar við þurfum mest á stöðugu stjórnafari að halda gagnvart okkur sjálfum og umheiminum væri glapræði.

Reyndar voru þeir skoðanabræður, Sigmundur Ernir og Sigurjón Egilsson, saman í útvarpinu í morgun að éta þessa kröfu upp eftir hvor öðrum. Annar taldi stjórnmálamenn hrædda við kjósendur og hinn taldi okkur ekki þurfa ríkisstjórn! það væri hvort eð er búið að taka allar ákvarðanir. Þetta er fólkið sem býr til fjölmiðlana...

þeir eru kannski að taka þetta upp eftir tveimur ráðherrum Samfylkingar. Af hverju ráðherrarnir rjúka nú til og bulla um þetta er mér hulin ráðgáta. það er akkúrat svona uppákomur sem hafa staðið vinstri flokkunum fyrir þrifum árum saman. Upphlaup og óstöðugleiki.

Ekkert er að því að hafa þessa skoðun og lang líklegast er að fljótlega verði kosið. Þetta fólk er að leitast eftir stundar vinsældum en sú leit hefur leikið margan stjórnmálamanninn grátt. Þetta veit Ingibjörg enda hefur hún stórbætt pólitískt stöðumat sitt og tímasetningar.

Og hafi hún líka kjarkinn þá fjúka þessir ráðherrar nokkuð örugglega úr stólum sínum og geta þá hafið eftirsóknina eftir vindi sem óbreyttir. Með því tæki hún stórt pólitískt frumkvæði og styrkur hennar yrði öllum ljós.

það er nefnilega þannig hjá okkur að alltaf er leitast við að fyrirgefa og gleyma. Verja sitt fólk í gegnum þykkt og þunnt. Akkúrat þessa dagana fer þetta rosalega í taugarnar á fólki.

Með því að losa sig við þessa ráðherra sem er þreyttir þá tæki hún frumkvæðið af mínum mönnum sem þyftu svo sannarlega á andlitslyftingu að halda líka.

Þetta er dauðafæri.

Röggi.

Dómgreindin hans Ólafs.

það er svo sem ekki nýtt að dómgreindin og eðlið svíki Ólaf Ragnar. Allur hans pólitíski ferill, sem enn stendur yfir, er meira og minna markaður því að karlinn tapar dómgreind reglubundið.

Nú situr hann á Bessastöðum og hefur gersamlega einangrast frá þjóð sinni eins og vinir hans útrásavíkingarnir. Hann sleikti þá og kjassaði seint og snemma árum saman. Gékk svo erinda þeirra í fjölmiðlafrumvarpinu og gerði þjóðinn mikinn óleik í leiðinni eins og öllum ætti nú að vera ljóst.

Þar var Ólafur á sögulegum lágpunkti því kostnaður okkar vegna þessa pólitíska vinargreiða er verulegur. Og nú skrifar hann bók á meðan hann enn gegnir embætti. Kannski er kostnaður okkar eitthvað minni við þann gerning enda svívirðir hann bara embættið með þessu en ekki bæði þing og þjóð.

Situr svo bara í hásætinu og neitar að tjá sig um bomburnar sem hann setti fram. Enda grunar mig að honum finnist blóðið sitt vera farið að blána mikið. Fyrir neðan hans virðingu að svara spurningum um bókina en í góðu lagi að skrifa hana.

Já dómgreindin hans Ólafs Ragnars lætur ekki að sér hæða....

Röggi.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Flottur forstjóri Landspítala.

Nú er fyrirsjáanlegur niðurskurður sem mun ná til allra með einum eða öðrum hætti. Ríkið verður líka að spara og þá byrjar venjulega mikill harmagrátur. Á sumum sviðum er sparnaður erfiðari en öðrum eins og gengur.

Í heilbrigðskerfinu hefur öllum sparnaðar og hagræðingartillögum verið tekið mjög illa. Forstjórar hafa farið mikinn venjulega og talið sparnað útilokaðann. Þess vegna var sérlega ánægjulegt að sjá lítið viðtal við nýráðinn forstjóra Landspítalans í gær.

Þar kvað við nýjan tón. Hún taldi þetta allt gerlegt og var jákvæð og bjartsýn. Með skynsemi og skipulagningu væri þetta mögulegt og það án þess að skerða þjónustu. Öðruvísi mér áður brá.

Ég efast ekki eitt augnablik um að þetta verður snúið i framkvæmd. Fitan sem safnast hefur utan á ríkisrekið heilbrigðiskerfið verður ekki svo auðveldega skorin af. Starfsfólkið mun líklega andmæla eins og vant er enda ekki í vinnu hjá rikinu heldur öfugt.

Svona finnst mér að forstjórar í vinnu hjá ríkinu eigi að vera. Rífast og berjast fyrir auknum fjárheimildum við ráðherra á réttum vetfangi en koma svo fram af fagmennsku út á við. það er jákvætt og býr til góða umgjörð um reksturinn og þær breytingar sem óhjákvæmilegt er að gera. Sjúklingum og starfsfólki mun bara líða betur í stað þess að selja fólki endalaust þá hugmynd að viðkomandi sjúkrahús sé sífellt í svelti og geti ekki staðið sig.

Fram til þessa hafa sjúkrahús forstjórar yfirleitt hlaupið í fjölmiðla og kvartað. Það er trúnaðarbrestur gagnvart yfirvöldum og ætti ef allt væri eðlilegt að reka slíka menn. Hvernig ætli yrði tekið á forstjóra í einkageiranum ef hann hlypi í fjölmiðla til að úthrópa vinnuveitendur sýna vegna ákvarðana sem þeir þurfa að taka?

Er harðánægður með þennan nýja forstjóra.

Röggi.

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Frammistaða fjölmiðla.

Góðir menn héldu fund á NASA í gær. Þar var rætt um frammistöðu fjölmiðla undanfarið. Var ekki á staðnum en fékk sérvalið úrtak í fréttum áðan. Þar kenndi ýmissa grasa.

Auðvitað er hverjum manni ljóst að fjölmiðlar hafa brugðist. Flestir virðast hafa áhyggjur af því að stjórnvöldum hafi ekki verið veitt nægilegt aðhald. Eflaust má endalaus bæta það en mér finnst nú ekki minna mál að eignarhaldið á þeim hefur komið í veg fyrir að auðmennirnir okkar hafi fengið það aðhald sem þeir hefðu svo sannarlega þurft.

Upprifinn Sigmundur Ernir kvartaði yfir því að lygnir stjórnmálamenn fengju kosningu aftur og aftur. Sérlega magnað að heyra þetta frá manni sem er í vinnu hjá fyrirtæki sem hefur hlaðið undir eiganda sinn árum saman. Sá maður hefur verið í baráttu fyrir frelsinu og eftirlitsleysinu allan tímann til að geta stundað sín viðskipti. Verið í slag við bæði löggjafann og framkvæmdavaldið. Heimsku stjórnmálamennina sem létu plata sig. Stjórnmálamennina sem nú er sagt að hefðu átt að stoppa ósómann. Hvað hefðu þessir hlutlausu fjölmiðlar sagt ef það hefði verið reynt. Kannski talað um pólitískar hefndir og annað í þeim dúr. það er nefnilega vandlifað...

þeir sem halda því fram að fjölmiðlar hafi ekki reynt að veita stjórnvöldum aðhald hafa ekki fylgst með. Þeir hafa ekki gert neitt annað. Reyndar af sérstakri yfirborðsmennsku sem oftar en ekki hefur snúist það með hverjum er haldið. Og þegar þú færð laun frá einum þá heldurðu víst ekki með hinum.

þasð er mergurinn málsins þó vissulega megi endalaust deila á augljósan skort á fagmennsku og reynslu. Til þess að fjölmiðlun verði sjálfstæð og eðlileg verður að setja lög um eignarhald og tryggja viðgang einkarekinna fréttamiðla eins og þess ríkisrekna.

Hér eru bara til lög um einn miðil og það er rúv og þau ólög tryggja bara enn frekar í sessi yfirburði þess miðils. Það er engum hollt og allra síst rúv sem má svo búa við ásakanair um að vera handbendi stjórnvalda ofan í kaupið.

Kannski er ekki við því að búast að í okkar mjög svo ófullkomna þjóðfélagi séu fjölmiðlar í hæsta klassa. Það væri nánast stílbrot. Á þessum tímum hefðum við þurft öfluga og sjálfstæða fjölmiðla sem gætu veitt alvöru aðhald.

Ekki bara stjórnvöldum því ég bara veit ekki hvað ætti að hafa komið í veg fyrir að Sigmundur og félagar hefði veitt þeim aðhald, heldur líka viðskiptalífinu en ég veit vel af hverju þeir gátu ekki veitt þeim aðhaldið sem þeir ekki fengu.

Af hverju var Ólafur Ragnar ekki boðaður til þessa fundar? Hann hefði átt þarna fullt erindi enda stöðvaði hann lög um eignarhald á fjölmiðlum til að vernda hagsmuni....

Hverra?

Röggi.

mánudagur, 17. nóvember 2008

Skúrkarnir sleppa.

Egill Helgason setti fram þá kenningu að Hanesi Smárasyni hafi hugsanlega verið umbunað fyrir að taka að sér að verða blóraböggull þeirra útrásarvíkinga. Eitt er víst að hvort sem það var gert með samþykki Hannesar eður ei að þá hefur tekist að gera hann að holdgervingi spillingar.

Og hann á allt skilið sem um hann er sagt en frá mínum bæjardyrum séð var hann peð. Peð sem Jón Ásgeir og félagar fórnuðu þegar allt fór fjandans til. Engu skiptir hvort menn tala um viðskiptin með Sterling eða rekstur FL group/Stoða eða Baugs. Eða Icelandair áður. Eða.....

Allt í kring og alls staðar er sami maðurinn aðalsöguhetjan í bakgrunninum. Maðurinn sem er með aurana og er oftast formaður stjórna félaganna og ber því mesta ábyrgð á rekstrinum. Ræður forstjóra og rekur og tekur grundvallar ákvarðanir. Leggur línurnar og ræður för.

Þessi maður heitir Jón Ásgeir. Hef ekki tölu á því hvað maðurinn sat og eða situr í mörgum stjórnum. Og varla dettur nokkrum manni í hug að hann komi ekkert að ákvörðunum þeirra fyrirtækja sem hann og hans fólk á meirihluta í.

Hann segist hafa komið inn í stjórn Stoða um síðustu áramót og tekið til við að skera niður stjórnunarkostnað. þvílík ósvífni. Stoðir/Fl group eru fyrirtæki í hans eigu. Rúmlega 6 000 milljóna kostnaður á örfáa starfsmenn árum saman var ekkert að koma flatt upp á Jón nú um áramótin.

þeir eru kræfir þessir menn. Litli Björgólfur heldur því fram að hann hafi bara ekki ráðið neinu um rekstur Landsbanka vegna þess að bankanum sé svo þröngt skorinn stakkurinn af eftirlitsstofnunum. Á sama tíma tala menn í bankanum um að skortur á aðhaldi og eftirliti hafi verið málið.

Þetta er allt meira og minna gleypt hrátt í fjölmiðlum hér. þeir sem hafa vogað sér að benda á þetta árum saman hafa að jafnaði verið úthrópaðir og eru jafnvel enn. Þetta var allt pólitík...

Flettum nú ofan af þessum mönnum og drögum þá til ábyrgðar og hættum að gapa af aðdáun þegar þeir ljúga að okkur ítrekað. Þeir geta ekki vísað á neinn. Eins og ég sé þetta þá standa þeir á berangri og svívirðan blasir við þeim sem vilja sjá.

En við erum svo upptekin af því að berja á stjórnmálmönnum að við gleymum gerendunum sjálfum. Þeir kenna reglum ESB um að þeir svindluðu. Næst hlýt ég að geta kennt bankanum mínum um að hafa lánað mér svona mikinn yfirdrátt. Vel kann að vera að reglur bankans um útlán hafi verið of sveigjanlegar en ég ber þó fjandakornið ábyrgð í mínum eigin gjörðum og ákvörðunum.

það eiga þessir menn að gera líka. Ekki bara Hannes Smárason. Hann var ekki aðal. Nú er mál að við beinum sjónum okkar að kóngunum og sér í lagi Jóni Ásgeir. Hann er nefnilega kóngur eins og við sjáum aftur og aftur. Ekki bara er siðferðið á viðskiptasviðinu laskað heldur er virðing hans fyrir úrskurðum dómstóla lítil.

Hversu lengi ætlum við að láta bjóða okkur þetta? Fórnarkostnaðurinn er nefnilega miklu meiri en bara einn Hannes. Reikningurinn er á leiðinni og við ætlum að láta skúrkana sleppa af því okkur finnst svo gaman að lemja á ríkisstjórninni.

Við skulum ekki snuða okkur um það en kíkjum nú á þessar alþýðuhetjur okkar líka því stjórnmálamenn munu fá það sem þjóðin vill á endanum. Útrásarhetjurnar eru að sleppa létt með fangið fullt af aurum....

Sem börnin okkar eiga eftir að borga...

Röggi.

Enn og aftur um Steingrím....

það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að skrifa einn ganginn enn um Steingrím J og VG. Mér sýnist í fljótu bragði sem þessu tæplega 30% flokkur, ef marka má skoðanakannanir, sé að mestu algerlega liðónýtur þegar kemur að því að stunda stjórnsýslu.

Enn tuður æðstipresturinn yfir því að yfirvöld eru að reyna að koma undir okkur fótunum aftur. Blessaður maðurinn lætur eins og um fjölmargra góða kosti sé að ræða.

Við höfum vondan málsstaða að verja og höfðum allan tímann. það er auðvitað á mörkum þess siðlega að ætla að verja innistæður sumra en ekki annarra. Við bara föttuðum það ekki enda þjóðaríþrótt hér að gera þetta svona. Aðrar þjóðir tóku þetta ekki í mál.

Og þegar það gerðist áttum við enga kosti aðra en að standa okkar pligt. Þeir sem nú æpa hæst á aðild að ESB ættu að fagna, því ef við hefðum haldið því til streitu að standa okkur ekki hefði verið þrautin þyngri að komast í ESB ylinn enda regluverkið okkar ættað frá Brussel.

Hvernig væri nú að fjölmiðlar þessa lands settust nú niður með þessum óánægjumanni og bæðu hann að útlista fyrir okkur hvernig hann tæki á vandanum. Í þeirri stöðu sem nú er upp kominn skiptir akkúrat engu hvað honum hefur fundist um það sem gerðist undanfarin ár.

Núna þurfum við að fá að vita hvað hann vill gera. Ekki bara hvað hann vill ekki gera. Í þeirri stöðu sem við erum í núna er ekkigera stjórnmál nánast landráð. Kannski þurfum við annað fólk en núna er við stjórnvölinn.

En alveg er öruggt að það fólk er ekki Steingrímur J og félagar. Ég skora á fjölmiðla að pressa upp úr Steingrími hvað hans aðgerðaleysi myndi þýða fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið til lengri tíma.

Röggi.

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Patentlausn og það strax.

Hann er stór hópurinn sem heldur að ráðamenn okkar séu dusilmenni sem ekkert eru að gera. Enda fjölmiðlar fullir af fólki dag eftir dag sem hefur lausnirnar sem reynast síðan handónýtar við nánari skoðun.

Iss þetta er ekkert mál. Fáum bara peninga hjá gjaldeyrissjóðnum og málið reddast. Nú eða Rússum eða jafnvel Kínverjum. Norðurlandaþjóðirnar láta okkur svo líka hafa aur og allt verður gott.

Svo eru þeir að koma upp núna sem geta reddað málinu á viku! Tökum bara upp Evruna og þá verður þetta ekkert mál. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að halda að nú sé til einhver patentlausn. Það er Íslenska aðferðin.

Svo er skammast yfir því að ekki birtist einhver ráðherra daglega og segi við okkur að allt verði nú gott. Best væri ef allar upplýsingar lægju á borðinu frá einni klukkustund til annarrar.

Við eigum reyndar einn svona ráðherra. Hann Össur okkar sem er skemmtilegasti ráðherrann svo af ber. Hann rýkur til og lofaði okkur 1 000 milljörðum um leið og REY hugmyndin komst á rekspöl. Nú er það olían. Þetta er allt gott og blessað en ekki sérlega ábyrgt.

Betra er að tala þegar hlutirnir eru klárir. Nú eru ráðamenn lika skammaðir fyrir að lánið sem þeir töluðu um að kæmi sé ekki komið. Hefðu kannski betur þagað! Samt voru fulltrúar gjaldeyrissjóðsins sjálfir búnir að segja á fundi hér að allt væri meira og minna klappað og klárt.

Kannski er bara verið að greiða úr flóknum stöðum sem breytast dag frá degi alveg án þess að þær breytingar sé kokkaðar upp hér. Engin ástæða hvorki til þess að vekja upp falsvonir eða hræða. Róleg og yfirveguð skilaboð eru málið en ekki popúlismi.

Fólk hittist niðri í bæ vikulega núna og heimtar breytingar. Væntanlega kosningar. það væri snilld, fá stjórnarkreppu ofan í allt annað. Engin önnur stjórn mun gera þetta betur eða öðruvísi.

Við trúm því líka að með því einu að lýsa því yfir að við ætlum í aðlildarviðræður um inngöngu í ESB að þá muni allt lagast. Engin möguleg stjórn er sjáanleg í kortunum sem er tilbúin í það núna. Kosningar eru því óþarfi og leysa ekkert.

Patentlausna þjóðin lætur ekki að sér hæða. Gerir sér ekki grein fyrir þvi að við höfum slæman málsstað að verja og ríkistjórnin virðist hrekjast undan í vonlitilli tilraun til að reyna að komast undan ábyrgð. Ábyrgð sem umheimurinn allur virðist á einu máli um að við losnum ekki undan.

það eru engar góðar fréttir greinilega og mér sýnist mjög margt af því sem hérlendir fjölmiðlar hafa étið upp ef erlendum vera getgátur einar.

það verða engin töfrabrögð sem redda okkur núna. Hvorki stjórn né stjórnarndstaða munu galdra okkur á þurrt land. En menn geta verið handvissir um að unnið er nótt og dag við að finna leiðina þó það sé ekki gert í beinni.

Röggi.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Gjaldeyrinn heim.

Okkur vantar gjaldeyri. Og það snarlega því ef ég hef trausta heimildarmenn þá er gjaldeyrir seðlabankans hreinlega að verða uppurinn. Varla þarf að ræða hvað það þýðir ef rétt reynist.

Á meðan sitja útgerðarmenn og fleiri á gjaldeyri sínum erlendis og koma ekki með hann heim. Þrýstingur á að menn sýni ábyrgð og komi með þessa peninga heim hlýtur að fara að aukast.

Og kannski ekki alveg ólíklegt að þær raddir sem vilja hreinlega hætta að notast við kvótakerfið verði háværari og fleiri. Hugsanlega ætti bara að fara að hóta útgerðinni að það muni gerast ef þessi leikur heldur áfram. Öllu skipt upp og gefið upp á nýtt.

Ég þekki fólk sem hingað til hefur ekki mátt heyra á þetta minnst ræða þetta af alvöru nú þegar menn þykjast sjá þessar tilhneigingar....

Röggi.

mánudagur, 10. nóvember 2008

Er ESB með ofbeldi í okkar garð?

Nú les maður að ráðherrar ESB séu að reyna að kúga smáþjóðina til að borga skuldir einkafyrirtækja í löndum ESB. Reglur ESB gerður reyndar ekkert til að koma neinum böndum á bankana eins og við vitum öll.

Bretar og Hollendingar virðast vera með gjaldeyrissjóðinn í skrúfstykki. Stórþjóðirnar hika ekki við blanda málum sínum saman við faglega umsókn okkar um lán.

Nú gæti liðið hratt að ákvörðuninni. Um það hvort við látum vaða og reynum að fara í ESB eða snúum okkur annað eftir bandamönnum. Ég er ekki viss um þvinganir ESB og Breta og Hollendinga eigi eftir að verða vatn á myllu aðildarsinna.

Spennandi tímar...

Röggi.

Eru stjórnvöld alltaf heimsk?

Það er þetta með eðli hlutanna. Liggur það bara í eðli hlutanna að hagfræðingar sem vinna hjá seðlabankanum séu að jafnaði á annarri skoðun en aðrir hagfræðingar? Man varla eftir öðru en að hagfræðingum bankans hafi verið mótmælt hátt og snjallt áratugum saman af hagsmunaaðilum.

Fjölmiðlar eru stútfullir af hagfræðingum og öðrum sérfræðingum sem fullyrða að stjórnvöld og seðlabanki séu að steypa okkur í glötun. Lausnin blasir við öllum öðrum en þeim sem stjórna hvar sem niður er borið í stjórnkerfinu.

Ef lausnin er að skipta um mynt á viku eins og hagfræðingur einn fullyrðir að sé ekki bara skynsamlegt heldur beinlínis auðvelt og fljótlegt, af hverju er það þá ekki gert? Vinna bara hálfvitar hjá hinu opinbera? Fólk sem veit ekki neitt og vill okkur hið versta? Vantar ekki eitthvað í þessa jöfnu?

Fyrir marga vantar ekkert. Þeir hafa hatrið á Davíð til að styðjast við. En dugar það? Varla getur hann haldið Samfylkingunni og öllum fulltrúum í bankaráði í faglegri og pólitískri gíslingu þó geðveikur sé.

Ég man varla eftir því að fjölmiðlar hafi getað haft upp á einum einasta sérfræðingi sem hefur stutt aðgerðir seðlabankans og stjórnvalda. Hvort það er matreiðsluaðferð þeirra sem þar ræður eða bara að engir slíkir finnist veit ég ekki.

Hitt veit ég að mér gengur illa að trúa því að þeir sem ákvarðanirnar taka séu illa innrættir. Samvinna við erlend stjórnvöld og sjóði daglegt brauð en samt ekki hægt að taka almennilegar ákvarðanir handa okkur. það eru bara þeir sem ekki ráða sem hafa lausnirnar.

Meirihluti þjóðarinnar vill ESB og evru. Hann vill líka afnema verðtrygginguna. Hann vill losna við Davíð. Hann vill meiri upplýsingagjöf. Hann vill kosningar. Og hann vill svo margt sem þeir sem ráða hlusta ekki á.

Hvernig stendur á þessu? Eru ráðamenn heyrnalausir eða bara hreinlega óheiðarlegt fólk sem vill illa? Varla, enda væru það mikil vonbrigði fyrir þann mikla meirihluta sem kaus núverandi stjórnarflokka. Verður til einhver sjálfvirk tregða hjá valdhöfum sem birtist þannig að aldrei er hvikað frá ákvörðunum sama hversu vitlausar sem þær reynast?

Er það málið? Misskilið stolt og þrjóska. Ætli þetta sé þá fjölþjóðlegt fyrirbrigði því fá stjórnvöld virðast hafa staðið sig í bankastykkinu og lenda nú í sömu súpunni og við þó kostnaðurinn sé víðast viðráðanlegur. Heimsk stjórnvöld sofa á verðinum á meðan þeir sem ekki stjórna segjast hafa séð þetta allt fyrir, og hafa lausnirnar sem þessi heimsku yfirvöld geta ekki komið auga á.

Er þetta kannski lögmál? Hæfasta fólkið vinnur kannski ekki hjá ríki og sveitarfélögum. Ég skil vel tregðuna hjá yfirvöldum að láta ekki þrýstihópa stjórna frá degi til dags. Núna er staðan þannig að þrýstihópurinn sem vill evru er eiginlega orðinn nánast allt atvinnulífið.

Ef lausnin á öllum okkar vanda liggur í því að taka hana upp með öllum ráðum á skömmum tíma af hverju er það ekki gert? Eru góðar ástæður fyrir því? þekki það ekki nógu vel en þekki það ekki heldur hvort lausnin svona augljós og auðveld.

Mér finnst vanta að stjórnvöld verji hendur sínar. Segi mér af hverju þetta en ekki hitt. Seliji mér það betur að bestu ákvarðanir séu teknar að vandlega yfirlögðu ráði eins og ég er viss um að sé reyndin.

Stjórnvöld eru að verða eins og hæstiréttur. Þegja bara í fullvissunni um að hafa rétt fyrir sér. Og að "þurfa" ekki að rökstyðja það frekar. Þar er ég ósammála.

Nú þurfa stjórnvöld að snúa vörn í sókn og fara í grendarkynningu á starfi sínu. Annars verða þau kafffærð varnarlaus af sérfræðingum utan kerfisins sem hafa lausninar. Eða hvað?

Röggi.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

Ekki kenna veginum um.

það er gaman að hlusta á Jón Baldvin. Skeleggur og fluggáfaður. Talar af ástríðu og langoftast virkar hann mjög sannfærandi. Við erum þó að jafnaði ekki sömu skoðunar...

Hann var í útvarpinu í morgun að verja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þær reglur sem þar gilda en þær reglur eru einmitt reglurnar okkar. Frelsi í viðskiptum og frjálst fjármagnsflæði og þess háttar.

Hann líkti þessu við að lagður yrði vegur með akreinum til beggja átta til að auðvelda mönnum umferð. En þvertók fyrir að nokkurn tíma yrði hægt að kenna þeim sem lagði veginn um glæfra og eða glæpaakstur þeirra sem um veginn færu.

þarna komst hann vel að orði blessaður. því þó vegurinn sé lagður og ekki hægt að koma algerlega í veg fyrir að menn fari óvarlega þá er það varla veginum um að kenna menn hagi sér eins og bjánar. Ekki frekar en að innflytendur eiturlyfja geti með nokkru móti komið sér undan ábyrgð á eigin gerðum með því einu að benda á að eftirlit með landamærum sé svo gloppótt að þeir hafi hreinlega ekki komist hjá því að gera þetta.

Gerum við götin sem komu í ljós þegar misgráðugir bankamenn tóku sig til en látum þá ekki komast upp með að kenna öðrum um. þeir óku eins og brjálaðir menn um veginn sem lagður var.

það er ekki veginum að kenna. Jón Baldvin orðar þetta best...

Röggi.

laugardagur, 8. nóvember 2008

VG hendir reikningunum.

það er engu logið upp á VG. Steingrímur aðal birtist okkur grautfúll yfir því að stjórnvöld reyni að bjarga okkur frá hörmungum. Hann er á móti eins og alltaf og mun væntanlega minna okkur á það eftir 12 ár að hann hafi nú verið á móti skuldsetningu ríkissjóðs. þannig póltíkus er hann.

Eftir höfðinu dansa lirmirnir stundum og í dag ætla ungir VG liðar að bjóða til samkvæmisleiks. Fólki býðst nefnilega að henda reikningum sínum í ruslið fyrir framan þinghúsið. Sniðugt, og þá eru þeir væntanlega úr sögunni. Svo hjálpar svona auðvitað í þeirri uppbyggingu sem nauðsyn er. Í besta falli misheppnaður brandari.

Ef þetta er nauðsynlegt af hverju er þá ekki mótmælt við bankana? Þetta minnir á vörubíla mótmælin um daginn. Sökudólgar látnir í friði en nördast í stjórnvöldum. Það var ekki pólitísk ákvörðun að losa menn undan ábyrgðum.

Muna svo bara að eyða reikningunum út úr heimabankanum líka. Þá erum við orðin eins og fólkið sem við erum svo reið út í.

Ég kemst ekki.....

Röggi.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Þrískiptingin..

Katrín Jakobsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru í viðtali um daginn sammála um að alþingi væri hálflömuð afgreiðslustofnun fyrir ráðherra og ráðherra frumvörp væru einu frumvörpin sem fengju afgreiðslu þingsins. Þetta fannst þessum ágæti þingkonum ótækt og lái þeim hver sem vill.

Þær ræddu um hvernig mætti breyta þessu. Nefndu breytta vinnutilhögun og fleira gott en ekki það sem er augljósast. Sjálfstæði þings gagnvart framkvæmdavaldinu er í dag ekkert. Framkvæmdavaldið setur okkur lög og reglur. Þingmenn rétta svo upp hendur þegar við á. Ráðherrarnir skunda svo út í bæ að vinna eftir reglunum sínum.

Þetta er og hefur alltaf verið ótækt. Þingið á ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir stjórnvöld. Þingið er löggjafasamkoma sem á að setja stjórnvöldum leikreglur. Við kjósum fólk til þings í þeim tilgangi. Til að setja lög en ekki til að framfylgja þeim. Dómstólar sjá svo um að lögum sé fylgt. Þrískipting valds.

Hér hjá okkur er þetta ekki þannig. Ráðherrar, framkvæmdavaldið, setur sjálfu sér reglurnar. það er vandinn sem þær stöllur ræddu. Þetta er grunnvandinn. Engu mun breyta þó við reynum að bæta verklag í þinginu. Þetta system er bara þannig að það mun alltaf virka illa.

Þess vegna var þrískiptingin sett í stjórnarskrána. það var ekkert djók eða vanhugsuð aðgerð. Og núna þegar margir tala um allsherjar uppstokkun á kerfinu er gráupplagt að skoða nú þennan þáttinn.

Og tryggja að þrískipting valds verði ástunduð svo stjórnvöld, framkvæmdavaldið, á hverjum tíma geti ekki farið fram án aðhalds þings og þjóðar. Og sett sjálfu sér leikreglurnar. það var aldrei meiningin.

Röggi.

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Rífa nú fram fjölmiðlafrumvarpið.

Margt er skrýtið í kýrhausnum. Mér hefur verið tíðrætt um það lengi að við verðum að passa upp á fjórða valdið, fjölmiðlana. Nú er kominn upp staða sem ekki má koma upp. Stórlega varasamur fýr hefur eignast allt heila klabbið. Allir virðast sjá að það er óhæfa.

Verulega er skemmtilegt að fylgjast með fólki sem barðist hér með oddi og egg gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sinum tíma. Andstaðan gegn því þá snérist auðvitað ekki um neitt annað en pólitíska andúð á Davíð. Þingið var sátt og þverpólitíkst.

Málflutingur andstæðinganna snerist meðal annars um að frumvarpið væri sett til höfuðs Jóni Ásgeir. Líklega eitthvað til í þvi enda hann sá maður sem mest átti og á enn. Frumvarpið snérist um grundvallaratriði en ekki persónur. Persónurnar sem voru í yfirburðaaðstöðunni héldu öðru fram og kannski eðlilega. Hagsmunirnir lágu bara þannig. Frumvarpinu var ætlað að koma í veg fyrir slysið sem nú ríður yfir. Fikniefnainnflytendur gætu með sömu hundalógík kvartað yfir þvi að löggjöf um innflutning á eiturlyfjum snérist gegn þeim!

Rukkum nú forsetann og einkaþotufarþegann Ólaf Ragnar um hvernig honum lýst á stöðuna. því jafnvel þó kjölturakkar eins og Reynir Traustason telji það litlu máli skiptir hver á fjölmiðla þá fullyrði ég að það skiptir eiginlega öllu máli. Af hverju halda menn að þessir atvinnubraskarar telji sig þurfa að tapa þúsundum milljóna árlega á þessu eignarhaldi?

Við erum nú að drölsa þessu liði út úr bönkunum okkar og nú er kominn tími á að löggjafinn taki aftur upp fjölmiðlafrumvarpið og tryggi að þessir menn stjórni ekki allri umræðu hér áfram. kannski er einhver von til þess að fólkið sem taldi öllu fórnandi á sinum tíma til að koma höggi á Davíð geti látið þetta þjóðþrifamál ganga fram.

Einhverjir munu nú, eins og síðast, rjúka til og minna mig á að hér hafi Mogginn verið með yfirburðastöðu lengi og ekkert hafi verið gert þá. Röksemdin um að óréttlætið hafi verið lengi við lýði og því sé eðlilegt að viðhalda því fellur kylliflöt hvernig svo sem hún verður krydduð pólitískt og snædd.

Hugsanlega dettur ábúandanum á Bessastöðum ekki lengur í hug að þjónusta vini sína aftur eins og síðast. þetta mál hefur aldrei snúist um stjórnmál þó embættisfærsla Ólafs hafi svo sannarlega gert það. þann blett þvær hann ekki af sér héðan af.

Skaðinn ætti að vera öllum ljós...

Röggi.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Fjölmiðlafarsinn fullkomnaður.

Ég vill óska þjóðinni til hamingju með að Jón Ásgeir hefur nú eignast alla fjölmiðla landsins að ríkisútvarpinu undanskildu. Jafnvel þó menn þjáist heiftarlega af ofnæmi fyrir Davíð þá hljóta menn að sjá að þetta er fullkomlega fáránlegt og snýst ekki um stjórnmál.

Er ekki einu sinni viss um Berlusconi hafi þessa stöðu í hinni gerspilltu Ítalíu. Þeir sem harðast fagna þessu eru eru svo pikkfastir í pólitískri fötlun að engu tali tekur. það að menn í stöðu Jóns Ásgeirs geti ráðið því hvernig fjölmiðlun er er grafalvarlegt mál í prinsippinu. Við höfum öll horft upp á hvernig fréttastofan hans hefur verið nánast ónýt undir hans eignarhaldi.

Engu betra væri ef Björgólfur kæmist þessa stöðu. Þetta er hvergi leyft hjá siðuðum þjóðum. Enda búa ekki allar þjóðir að forseta eins og við hér. Veit ekki hvort vó þyngra þegar hann tók að sér að taka fram fyrir hendur á þinginu sem var kosið til að setja okkur reglur, pólitískt eðlið eða vinargreiði við gamla samherja og vini. Sagan mun ekki fara fögum orðum um þennan gjörning.

Eftir sitjum við í súpunni með einn aðal útrásarvíkinginn rétt nýbúinn að setja okkur á hausinn kominn með öll spil á hendur. Hann er ekki af baki dottinn blessaður og snarar hér fram einhversskonar gjaldmiðli til að ná þessu til sín. Hvort það eru aurar eða ekki aurar veit ég ekki.

Skipti lítlu. Ef að líkum lætur mun einhver annar borga á endanum.....

Röggi.

föstudagur, 31. október 2008

Rúv burt af auglýsingamarkaði.

Páll Magnússon ríkisútvarpsstjóri er borubrattur. Eins og áður búin að steingleyma því hvernig er að reyna að standa í samkeppni við ríkisfyrirtæki. Nú er hann nebbla réttu megin við óréttlætið.

Hvaða réttlæti er í því að ríkið þjösnist á einkaaðilum sem eru að reyna að reka fjöliðmla í þessu landi eins og gert er með rekstri rúv ohf? Fullkomlega óþolandi að lesa um uppsagnir hjá 365 og skjánum á meðan blaðskellandi starfsmenn ríkissins framleiða niðurgreidda dagskrá alla daga. Og selja auglýsingar í leiðinni með undirboðum og alles.

Stöndum endilega vörð um ríkisútvarpið ef við teljum nauðsynlegt að ríkið sé í þeim bransa. En gerum það ekki þannig að mismunun eins og nú er stunduð komi í veg fyrir að aðrir geti verið á markaðnum. Splæsum þessu á okkur á fjárlögum eða með skattheimtu en ekki með þessu óréttlæti sem nú viðgengst.

Burt af auglýsingamarkaði og það strax. Það getur enginn unnið í þessu umhverfi eins og við sjáum núna. Nema Páll Magnússon. Hann nýtur lífsins með hærri laun en fjölmargir mikilvægir starfsmenn ríkissins. Og man nú ekki í hverju óréttlætið er fólgið.

Kippum þessu nú snarlega í liðinn. þetta snýst ekki um hægri vinstri stjórnmál. Þetta snýst einfaldlega um lágmarks sanngirni.

Röggi.

mánudagur, 27. október 2008

Molbúarnir gapa af aðdáun.

Loksins þegar feðgarnir fégráðugu skríða undan feldinum og þora að horfast í augu við fólkið sem treysti þeim fyrir peningunum sínum þá vantar ekki að menn neita að taka ábyrgð á viðskiptum sínum.

Bjöggarnir eru með sama sönginn og Jón Ásgeir. Vandinn lá að sjálfsögðu í því að ekki var hægt að fá meiri peninga að láni og nú að þessu sinni frá skattgreiðendum hér heima. Þessi menn hafa byggt allt sitt upp á því að fá meira og meira að láni.

Hvenær fá menn hér nóg af þessari þvælu? Átti seðlabankinn bara að hlaupa til og henda ótrúlegum upphæðum á bálið? Bál sem ekkert benti til að myndi slokkna við það að kasta peningum á það. Frekjan og græðgin á sér engin takmörk.

Einu bankamennirnir sem kunna sig núna og reyna ekki að spila á lægstu pólitísku hvatir landans, með fínum árangri, eru kaupþingsmenn. þar á bæ ýmist þegja menn eða reyna að axla þó ekki væri nema hluta ábyrgðar.

Hvoru tveggja er rismeira en þessi fáránlegi málflutningur sem við horfum upp á dag eftir dag. Nú er orðið tímabært að við hættum að láta þetta mál snúast um seðlabankann og pólitík. Þetta snýst um það hvernig þessi menn ráku sín fyrirtæki og ábyrgð þeirra.

Hvernig þessir menn hafa sópað til sín peningum fólks og skammtað sjálfum sér ríkulega og vonandi eru sögurnar sem nú ganga um það hvernig þeir umgengust bankana síðustu klukkutímana ekki sannar. En þó þær væru sannar tækist þeim hugsanlega að skrifa það á seðlabankann.

Við erum ótrúlegir molbúar. Við snobbum fyrir þessu liði og látum hafa okkur að fíflum. Virðing fyrir fólki sem annað hvort lítur út fyrir að eiga peninga eða á þá er hér barnaleg. Dettur engum í hug að þessir menn séu ekki að tala af hlutleysi um eigin mál???

Talar Thor um sjálfan sig og sitt klúður eins og óháður sérfæðingur? Voru það sérstakir hagsmunir seðlabanka að setja bankana á hausinn eða voru þessir kallar búnir að keyra skútuna á kaf með þeim hætti að ekki varð neinu bjargað?

Hvar annarsstaðar reyna bankamenn að kenna öllum öðrum um en sjálfum sér? Ábyrgðin er engin! Það þarf meira en lítinn vilja til að trúa þessu. Pólitísk fötlun hjálpar vissulega til en dugar varla ein og sér.

Hættum nú að gapa af aðdáun þegar þessir aðilar opna munninn þó þeir eigi einkaþotur og fótboltafélög erlendis. Tökum á þeim með gagnrýnum huga og látum ekki pólitík blinda okkur. Mig skiptir nákvæmlega engu máli hvað Jón Ásgeir, Bjöggarnir eða kaupþingsliðið kýs í kosningum. Framkoma þeirra og aðferðir eru ekki stjórnmál. Jafnvel þeir sem telja að það sé reglunum að kenna að menn haga sér svívirðilega hljóta að geta seð að þessir menn eru ekki í stjórnmálum.

Gleymum því ekki í miðju þrasinu að kalla þessa menn til ábyrgðar. Og hættum að gapa af aðdáun þegar millarnir tala um eigin mál eins og hlutlausir sérfræðingar. Smáborgarahátturinn hér er stundum algerlaga fáránlegur.

Kannski eigum við þessa menn skilið...

Röggi.

sunnudagur, 26. október 2008

VG.

Fáir velkjast í vafa um það hvar ég er staðsettur í stjórnmálum. það kemur því ekki á óvart að ég finni mig knúinn til þess einn ganginn enn að skrifa um VG.

Forystumenn flokksins fjargviðrast núna út í stjórnvöld sem leggja nótt við dag til að bjarga okkur úr fpraðinu sem bankarnir komu okkur í. Ekkert þykir VG vera nógu gott og tortryggnin ræður algerlega för.

Steingrímur talar eins og við höfum um fjölmarga góða kosti að velja. Hitt nátttröllið, Ögmundur, skammast yfir því að stjórnvöld ætli að skuldsetja ríkissjóð án umboðs!

Ég veit sjálfur ekki hvaða umboð vinstri stjórnir síðustu aldar höfðu til að skuldsetja ríkissjóð en í þeirri stöðu sem nú er upp komin er ekkert annað í stöðunni. Um það eru að ég held allir sammála nema þessi tveir.

Ég var og er á móti, taktíkin þeirra verður til þess að þeir eru algerlega vonlaus valkostur þegar kemur að því að raða saman ríkisstjórnum. Þeir hafa alltaf hreina samvisku enda gerir þessi flokkur í raun ekkert. Annað en að vera á móti.

Til þess að VG verði valkostur þarf flokkurinn að losa sig við Steingrím og Ögmund úr forsvari. VG á nefnilega þrælefnilegan varaformann sem gæti fært flokkinn eitthvað inn í nútímann.

Þá verður kannski hægt að líta VG. Í dag er er þeir óravegu frá að vera nothæfur flokkur.

Röggi.

Stækkum álverið.

Hvenær ætli verði bankað upp á hjá mér og mér boðið að skrifa upp á það að kosið verði aftur um deiliskipulag hér í Hafnarfirði? Þá gefst tækifæri til að leiðrétta fyrri kosningu sem kom í veg fyrir að álverið hér fengi þá stækkun sem lofað hafði verið.

Pólitískt hugleysið í Lúlla bæjó kom í veg fyrir að staðið yrði við loforðin. Nú er lag og ekki eftir neinu að bíða enda hefur þessi vinnustaður aldrei truflað nokkurn mann hvorki hér í Hafnarfirði né annarsstaðar.

Bíð með penna í hönd...

Röggi.

p.s. Ég bý á völlunum....

Misnotkun fjölmiðla.

Ekki vantar að bloggarar og brandarakarlar ryðjist fram núna og benda á hversu fullkomlega fáránlegt er að fjárhættuspilarinn Björgúlfur Guðmundsson skuli láta blaðið sitt taka við sig viðtal sem snýst að mestu um að hvítþvo karlgarminn af óráðsíunni.

Við sem höfum reynt án árangurs að benda á það árum saman að lög um eignarhald á fjölmiðlum skipta miklu máli látum okkur fátt um finnast. Besti vinur fjárhættuspilaranna, Ólafur forseti, tók að sér að tryggja þessu fólki þessi sérkjör um leið og hann þáði far í fínu einkaþotunum forðum.

Af hverju það þykir frétt núna að Björgúflur gamli skuli nú misnota moggann sinn skil ég ekki. Hinn fjölmiðla eigandinn, Jón Ásgeir er rétt nýbúinn að svívirða og eyðileggja fyrir lífstíð blaðamanns heiður starfsmanna sinna á stöð 2. Af hverju nennti enginn að nefna það?

Getur verið að það sé vegna þess að margir trúa því að hér sé verið að fjalla um pólitík? Hún snýst eins og allir vita um að halda með sínum hvað sem tautar og raular og varla er ég betri eða verrri en aðrir í þeim efnum. Það að þessu fólki var tryggður rétturinn til að eiga fjölmiðla voru án efa einhver mestu mistök sem gerð hafa verið í nokkurri forsetatíð frá upphafi.

Létt hugsandi fólk bendir réttilega á að kolkrabbinn gamli hafi ráðið hér öllu í fjölmiðlun árum saman. Það var afleitt og algerlega fráleit röksemdarfærsla að halda því fram að vegna þess að reynslan kenni okkur að það hafi verið mistök sé algerlega eðlilegt að viðhalda því að peningamenn þjóðarinnar eigi alla fjölmiðla líka. Ítalía hvað...

Hættum að láta stjórnmál rugla okkur gersamlega í ríminu. Gerendurnir í þjóðargjaldþrotinu hafa haft beinan hag að því að gera glæpi sína að pólitísku bitbeini. Framferði þeirra hefur ekkert með stjórnmál að gera. það mál snýst eingöngu um græðgi. og sjúkt viðskiptasiðferði.

Stjórnmál voru einfaldlega notuð hugvitsamlega. Og fjölmiðlarnir lika í skjóli þeirra sem töldu sig hafa hag af því að koma höggi á sjálfstæðisflokkinn hvað sem tautaði og raulaði.

Þess vegna ætti enginn að vera hissa á því að Björgólfur kallinn skuli nú beita eigninni í sína þágu. það er alltaf gert...

Röggi.

miðvikudagur, 22. október 2008

Viggó.

Handbolti getur verið skemmtilegt sport. Nú ætti að vera sóknarfæri eftir gott sumar. Jákvætt umhverfið hlýtur að hjálpa. Menn hafa verið að gera breytingar á keppnisfyrirkomulagi til að reyna að blása lífi í deildina og koma í veg fyrir að við körfuboltamenn kaffærum handboltann eitt árið enn. Íþróttir eru eins og menn vita söluvara í harðri samkeppni við aðra afþreyingu.

Þess vegna er mikilvægt að allir rói í sömu átt. Það gera ekki allir handboltamenn. Þeir eiga nefnilega Viggó. Hann hefur þrátt fyrir að vera kominn á sextugsaldur ekkert þroskast. Veit ekki hvort vanþroski hans og ruddaskapur er áunninn eða meðfæddur.

Alltaf skal honum takast að toppa viltleysuna í sjálfum sér. Hann þolir ekki dómara og hefur aldrei gert. það er sjálfur sér ekki endilega óalgengt en hitt er nánast einsdæmi að menn skuli nenna að trúa þvi að slakur leikur hjá dómara þýði að viðkomandi hafi viljandi verið að reyna að bregða fyrir menn fæti.

Frá mínum bæjardyrum séð er það rakinn skepnuskapur að saka menn um það opinberlega að vera óheiðarlegir. Ég bíð eftir því að einhver kæri Viggó til dómstóla fyrir svona þvætting. Greinilegt er að HSÍ er búið að gefast upp á því að reyna að aga manninn. Nú er ákveðið að að gera ekkert í þessum ummælum af því að hann sendi frá sér yfirlýsingu sem var í besta falli niðurlægjandi og hæðin og engin tilraun gerð til að draga til baka ummælin.

Í mínum bókum eru endurtekin brot og ítrekuð ærin ástæða til aðgerða. því oftar sem Viggó svívirðir starfsheiður dómara opinberlega því léttar sleppur hann! Þetta er sannarlega fín auglýsing fyrir sportið.

Sem betur fer búa ekki allar greinar að svona manni.

Röggi.

Nú er þolinmæði dygð.

Nú gætir óþolinmæði hjá okkur. Við viljum fá lausn á peningavandræðum þjóðarinnar. það er eðlilegt. þessa óþolinmæði má greina vel hjá sumum sem vinna við að tala í útvarp. Ég hlusta stundum á Heimi og Kollu á bylgjunni á leið til vinnu á morgnana.

Oftar en ekki er ekki verið að kafa mjög djúpt hjá þeim skötuhjúum. Heimir lætur það fara í taugarnar á sér að ekki fæst upplýst hvað er að gerast nákvæmlega í viðræðum ríkisins við erlendar stofnanir. Í morgun lagði hann það til að ríkið myndi aðstoða "fólkið" í vandræðum sínum!

Frábært heilræði finnst mér og í raun merkilegt að ríkisstjórninni skyldi ekki hafa dottið þetta snjallræði í hug. það tók fólkið sem á bankana nokkur ár að koma okkur í þessa stöðu. Gefum nú þeim sem eru að taka til tíma til að gera það.

Er einhver sem heldur að menn séu ekki að gera neitt? Ekki sé neitt mál að redda bara nokkur þúsund milljörðum sísona. Fjöldi fólks vinnur nótt og nýtan dag út um allar koppagrundir í vinnu sem ekki sést en er nauðsynleg þó hún sjáist ekki á fréttastofum.

Trúnaður og þagmælska eru örugglega mikilvægir þættir þegar svona vinna fer fram. Óþarfa innantómt gaspur er ekki líklegt til að skila neinu þó það þjóni hagsmunum fjölmiðlamanna til skemmri tíma.

Nú eru þeir eðlisþættir Geirs sem pirra stundum, rólegheitin og yfirvegunin, til bóta. Gefum þessu fólki tíma til að moka flórinn og það almennilega.

Hins vegar er afstaða Heimis og Kollu alveg týpísk fyrir okkar þjóð. Redda bara málinu og það fljótt. Loka bara augunum og vona að vandinn verði farinn þegar við opnum aftur. Patentlausna þjóðin lætur ekki að sér hæða.

Röggi.

þriðjudagur, 21. október 2008

Er allt leyfilegt sem ekki er bannað?

Hér hamast margir við það að kenna stjórnvöldum um að dusilmenni áttu og ráku bankana. Eftirlit og reglur voru ekki nógu öflugar og þess vegna voru bankarnir misnotaðir. Við áttum þetta þá líklega skilið og sökin liggur ekki hjá þeim sem klúðruðu. Við áttum nauðgunina inni enda glannalega klædd og óvarlega...

Þetta er mögnuð söguskýring. Breska ríkisstjórnin er með bankana í gjörgæslu vegna þess að reglur og eftirlit gátu ekki komið í veg fyrir að svona færi. Og gott ef ekki nánast öll Evrópa..og bandaríkin. Svíar eru að dæla peningum núna en ekki dettur mönnum í hug að stjórnvöld séu vandinn.

Greinilega þarf þetta kerfi allt meira og strangara aðhald. Við vitum það núna eins og aðrir. Velti því samt fyrir mér hvort nokkrar reglur haldi aftur af mönnum sem vilja reka fyrirtæki sín illa eða fara óvarlega.

Við lifum í stóru alþjóðlegu lagaumhverfi þó sumir hér haldi að við séum einangraðir kotbændur. Fullkomlega er eðlilegt að dreginn verði lærdómur af þessu en algerlega er út í hött að kenna stjórnvöldum um. Síðan hvenær varð allt leyfilegt sem ekki er beinlínis bannað spyr ég enn og aftur?

Hverjum datt í hug að Guðmundur í Byrginu væri eitthvað annað en glæpamaður þegar hann fór óvarlega með peninga Byrgisins? Vissulega reyndist eftirlit með rekstrinum ekki fullkomið en glæpurinn lá ekki í eftirlitinu, hann lá í þjófnaðinum.

Sagan kennir okkur. þannig höfum við þróað með okkur reglur sem hafa breyst í tímans rás eftir þvi sem þekkingu hefur fleygt fram. Stundum höfum við þurft að fara erfiðu leiðina. það er heimsbyggðin að gera núna. Ekki bara Íslensk stjórnvöld heldur meira og minna allir.

Röggi.

Ingvi Hrafn og silkihanskarnir.

það er ýmist í ökkla eða eyra. Silfurrefurinn Egill Helgason missti sig í vitleysu þegar hann fékk höfuðpaurinn í þjóðargjaldþrotinu í heimsókn til sín um daginn og í gær tók gamli strigakjafturinn Ingvi Hrafn á móti snillingnum.

Jón Ásgeir lék á alls oddi, brosti og var léttur. Enda ekki furða. Ingvi Hrafn var eins og maður sem hittir gamla kærustu á endurfundaballi. Vantaði ekkert annað en að hann ræki Jóni rembingskoss svo augljós var aðdáunin. Ömurlegt að horfa upp á þetta og án efa lægsti punkturinn hjá Ingva Hrafni lengi. Kallinn læddist um yfirborðið og passaði sig á að styggja ekki milljarðamæringinn enda hann í fullri vinnu við að bjarga því sem hann kallaði "eigur þjóðarinnar". Þessar eigur eru í raun skuldirnar sem hann og hans líkar komu okkur öllum í með svívirðilegum viðskiptum árum saman. Þessar skuldir vildi bjargvætturinn kaupa af okkur um daginn fyrir 5 %. Er engum nóg boðið??? Þessar eigur/skuldir eru eina von þeirrra sem nú horfa fram á að tapa öllu sínu sparfé. Þær má ekki gefa.

Næst ætti hann að fá til sín feðgana sem hafa nú sett hvert fyrirtækið á fætur öðru á hausinn hér og eftirláta þjóðinni sinni að borga brúsann á meðan þeir rassgatast um heim allan að sinna fótboltafélögum sínum og öðrum arðbærum og vonandi skuldlausum fjárfestingum.

Við erum ekki öfundsverð af því hvernig menn hafa leitt okkur áfram í viðskiptum eftir að við opnuðum hér fyrir frelsið. Og ekki verður heldur sagt að fjölmiðlamenn okkar séu á vetur setjandi. það fólk kann eingöngu að tuskast í stjórnmálamönnum en annað hvort nennir ekki eða kann ekki að tala við þessa menn.

Röggi.

föstudagur, 17. október 2008

Ritskoðun á stöð 2?!

Einar Már er grautfúll yfir þvi að fá ekki að skammast út í vinnuveitendur Sigmundar Ernis á stöð 2. Talar um ritskoðun og fer mikinn. Skil manninn vel en er í huganum að reyna að ryfja upp hvaða skoðun hann hafði á fjölmiðlafrumvarpinu...

það frumvarp var kæft af þeim sem mestra hagsmuna áttu að gæta. Persóna Davíðs var notuð óspart til að sverta það. Framganga 365 í baráttunni fyrir því að að drepa málið hefði ef allt væri hér með felldu átt að færa mönnum heim sanninn um gildi þess að koma málinu gegn.

Ólafur forseti kom svo og kláraði málið þegar hann neitaði að skrifa undir og tók fram fyrir hendurnar á þeim sem reyndu að koma í veg fyrir að auðmenn sem eiga hér allt kæmust í þá fáránlegu stöðu að geta líka átt fjölmiðlana.

Hvernig ætli sagan dæmi Ólaf sem hefur síðan þvælst um heiminn í einkaþotum eigenda þeirra fyrirtækja sem mest áttu undir þvi að fella furmvarpið? Varla hafa tengsl forseta við Sigurð G sem þá var að mig minnir forstjóri 365 skipt neinu í þessu samhengi??

Þessi gjörningur Ólafs er án efa vanhugsaðasti greiði sem nokkur forseti okkar stuttu sögu hefur gert. Hann sagðist vera að gera þjóðinni greiða en nú vita þeir sem ekki vildu vita þá að þjóðin þurfti ekki á þessum bjarnargreiða að halda.

Og nú er ljósið runnið upp fyrir Einari Má. Og kannski kviknar líka á perunni hjá þeim sem veittu vondu köllunum pólitískan stuðning allan tímann í viðleitni sinni til að klekkja á pólitískum andstæðingi.

Það er ekki bara slæmt að vera með stjórnmálamenn í seðlabanka. Þeir geta líka verið afleitir þegar þeir eru forsetar.

Röggi.

sunnudagur, 12. október 2008

Hann er þolandi....

Sit hér og fylgist með silfri Egils. Egill reynir að þjarma að Jóni Ásgeir sem virkar óöruggur og deigur. Egill byrjaði ekki illa en missti svo gersamlega dampinn. Endurteknar spurningar hans um það hvort Jón ætlaði að fara að vinna í bónus eða pælingar um lífsstíl fyndust mér hallærislegar. Tap Jóns Ásgeirs snýst í engu um það að hann þurfi að breyta ym lífsstíl. Nokkrar þúsundir milljóna tryggja það í allra nánustu framtíð. Póker spilarinn þolir bara ekki að tapa neinu spili. Og það jafnvel þó hann útvegi ekki spilapeningana sjálfur..

Jón Ásgeir kom því skilmerkilega til skila að hann og hans fólk hefur tapað peningum. Ég fann reyndar ekki til vorkunnar en Jóni svíður þetta augljóslega. Ekkert var honum að kenna eins og áður. Fyrirtæki í hans eigu öll í skilum og allt í dúddí. Hann finnur ekki til sektarkennadar eins og ég vissi. Það var ekkert fals hjá honum. Meira þarf varla að segja um hans karakter...

Auðvitað fengust engin svör. Sumpart vegna þess að Jón Ásgeir svarar engu og sumpart vegna þess að Egill var ekki nógu góður. Kannski hefði verið betra að Ragnar Önundarsson hefði rætt við Jón. Þá hefði hann ekki sloppið undan svíðandi spurningum.

En Jón er ekki að baki dottinn. Nú hefur hann sett pressu á að Björgvin viðskiptaráðherra selji sér skuldirnar sem við eigum inni hjá honum á niðursettu verði. Mr Green flaug með honum til landsins og hefur gefið okkur nokkra klukkutíma til að ganga að tilboðinu.

Þetta segist Jón vera að gera okkur öllum til heilla. Björgvin er að mínu viti nánast vanhæfur til að taka þessa ákvörðun. Stutt er síðan hann ók um nótt langveg til að láta Jón lesa sér pistilinn enda tengdur Sigurði G fjölskylduböndum svo hann munaði ekki um að skultast þetta. Björgvin ætti að segja sig frá þessari ákvörðun.

Fólkið sem tapar öllu sínu fékk ekki það sem það vildi út úr þessum þætti. Milljarðamæringurinn alsaklausi hefur nefnilega tapað líka. Það er niðurstaðan. Hann er nefnilega þolandi líka gott fólk eins og við hin. Góðir menn verða að setjast niður og endurskrifa kaflann um siðleysi..

Röggi.

laugardagur, 11. október 2008

Go Egill!

Þá styttist í að guðfaðir útrásarinnar og skuldsettra yfirtaka komi fram í silfri Egils. Bíð spenntur þó augljóst sé að ekkert nýtt muni koma fram í þættinum.

Hann mun nota sama trikkið og áður. Reyna að búa til stjórnmál úr málinu og fara með hefðbundna útgáfu af Davíðssálmum sem hann söng svo listilega í fjölmiðunum sínum með glæstum árangri í kringum baugsmálið. Kostnaðinn af þessum flutningi berum við svo öll eins og sumir hafa reynt að benda á árum saman.

Hvert stórfyrirtækið á fætur öðru rústir einar eftir kappann þó hann sjálfur hafi mokað undir sig tugþúsundum milljóna sem við sem þjóð skuldum útlendingum núna. Hann hefur margsýnt það áður að sómatilfinning er honum óþekkt.

Það geta menn séð á því hver viðbrögð Glitnismanna eru við ósómanum. Eins og venjulega er bara sparkað í allar áttir og núna í frekjukasti yfir því að fá ekki meira lánað til að setja í súpuna bragðvondu. Viðbrögð hinna bankanna gerólík.

Vonandi hefur Egill dug í sér til að þjarma að manninum. Margra ára svívirða hefur komið okkur á kaldan klakan á meðan þessir menn auðgast ótrúlega. Það er ekki okkur að kenna eða neinum öðrum. Ef Davíð hefur klúðrað þá er það gagnvart þjóðinni en ekki bankamönnum. Höfum það á hreinu.

Beinum spjótum okkar að þessum mönnum líka. Hættum að fjargviðrast eingöngu út í stjórnmálamenn þó þeir séu mistækir. Þeir hafa varla mikinn hag af því að klúðra. Jón Ásgeir og Bjöggarnir hafa hins vegar allan hag.

Ég hef ekkert á móti því að menn græði. Við eigum mikið af mönnum sem eru að græða án þess að skilja allsstaðar eftir sig rjúkandi rústir. Við ættum kannski að þakka okkar sæla fyrir það að Jón Ásgeir missti fljótlega áhuga á matvælabransanum hér heima og eftirlét pabba að græða þar. Þá væri sennilega búið að sjúga alla peninga þar út líka og yfir skuldsetja.

Ef augu þjóðarinnar opnast ekki núna þá er okkur ekki viðbjargandi. Þá eigum við svona menn skilið. Og hann og Thor fljúga á brott í fínu einkaþotunum sínum á vit auðæfa sina erlendis. Auðæfa sem við erum að stórum hluta greiðendur að þó við njótum aldrei kostanna.

Bind vonir við Egil. Nú er tími til kominn að sækja að þessum mönnum í stað þess að þeir komist upp með að ráðast að öllum með ásökunum. Láta menn svara óþægilegum spurningum. Það veitist fjölmiðlamönnum auðvelt þegar stjórnmálamenn eiga í hlut.

Þetta er dauðafæri. Höfuðpaurinn ætlar í vitnastúkuna.

Go Egill.

Röggi.

fimmtudagur, 9. október 2008

Snilld og dylgjur...

Hvort sem mönnum finnst ástandið í dag vera ríkisstjórninni að kenna eður ei er morgunljóst að þar á bæ er verið að vinna ótrúlegt starf þessa dagana við ömurleg og nánast vonlaus skilyrði á meðan gerendur í málinu flugu burt í einkafákum sínum til eigna sinna erlendis. Geir og Björgvin standa í stefninu og reyna að halda andliti og berja í okkur ró og skynsemi. Frá mínum bæjardyrum séð eru þeir að brillera.

Ég hef aldrei verið ráðherra en veit að allajafna er það erfitt og erilsamt djobb. Takist ríkisstjórninni að koma plottinu í framkvæmd eins og vonast er til yrði það afrek. Hlýtur samt að vera erfitt að taka gjaldþrota fyrirtæki og liða það í sundur og hirða það sem er í lagi en henda skuldunum í lánadrottna erlendis. Vonum það besta...

Ríkisstjórnin stendur sterk sýnist mér og samhent. Í öllu nema einu. Sumir ráðherrar birtast nú og eru hreinlega hættir að reyna að tala undir rós þegar kemur að stjórn seðlabankans. Nú skal hreinsa til og það strax.

Burtséð frá því hvaða skoðun menn kunna að hafa á seðlabankanum er mikilvægt að ráðherra séu ekki að dylgja hver í sínu horni. Annað hvort er tekin ákvörðun um breytingar eða ekki. Ef ekki þá er eðlilegt að ráðherrar standi að baki þeirri ákvörðun.

Nóg er grafið undan bankanum og vandséð að stjórn hans lifi lengi úr þessu. Þá ganga menn hreint til verks og samhentir og gera breytingar vafningalaust. Þannig á að gera hlutina. Og þannig gerir ríkisstjórnin hlutina best eins og við sjáum nú dag eftir dag.

Röggi.

Ekki benda á mig.

Þau eru mörg mögnuð augnablikin þessa dagana. Eitt af þeim var í gær þegar Gunnar Smári Egilsson var tekinn tali á förnum vegi. Umræðuefnið var að sjálfsögðu ástand mála...

Gunnar Smári var að vanda með munninn fyrir neðan nefið. Röskur í tali laus við tilgerð. En það voru efnistökin sem vöktu furðu. Hann nánast las útrásarmönnum og bankaeigendum pistilinn.

Menn hafi farið offari og ekki gáð að sér og nú væri komið að skuldadögum. Allt satt og rétt en umræddur Gunnar var á kafi í miðju peningasukkinu. Virkur þátttakandi og örlagavaldur. Og þiggjandi líka.

Nú forða menn sér á hlaupum hver á fætur öðrum...

Röggi.

þriðjudagur, 7. október 2008

Vilhjálmur Bjarnason er með málið...

Vilhjálmur Bjarnason var í speglinum áðan. Hann er að vakna blessaður og virðist loks gera sér grein fyrir þvi að í rekstri sumra fyrirtækja hér er munstur.

Eigendurnir eru allstaðar og þeir eru þurftafrekir á peninga sem þeir lána sjálfum sér og félögum sínum til að kaupa af sjálfum sér og félögunum endurtekið. Svo borga einhverjir aðrir vesalingar lánin...

Af hverju er þetta að renna upp fyrir honum núna?? Hann kemst að þeirri niðurstöðu að þeir sem bera ábyrgð á hörmungum okkar séu varla fleiri en 20 - 30 manns. Og það sem er merkilegast...

Engir stjórnmálamenn eru í þeim hópi. Hann tiltekur nákvæmlega eigendur nokkurra fyrirtækja og stjórnendur. Fólk sem misnotaði frelsið til að sölsa undir sig auðæfi heillar þjóðar.

Eins og alþekkt er þá drepa byssur ekki fólk. Frelsið kom okkur ekki í þessa klemmu. Spyrjið þið bara Vilhjálm. Hann er með málið.

Loksins....

Röggi.

Reisn.

Þá er Landsbankinn fallinn. FME tók hann barasta yfir í nótt og stjórnin hætt að reka bankann. Þetta gerðist allt í fullri sátt og samvinnu. Hagsmunir heildarinnar skipta öllu og eigendur bankans greiða götu þeirra sem koma að rústunum og reyna að bjarga því sem bjargað verður.

Auðvitað er litil reisn yfir því að reka bankann svona kylliflatan en þeir Landsbankamenn hafa allavega ekki enn ráðist á yfirvöld með stóryrðum og ásökunum. Kannski kunna þeir að skammast sín og biðjast fyrirgefningar. Sýna auðmýkt og iðrun. Þannig mönnum er auðveldara að fyrirgefa...

Ólíkt hafast mennirnir að í þesum efnum. Munurinn á því hvernig eigendur Landsbankans og Glitnis bregðast við er ótrúlegur. En kemur ekki á óvart...

Röggi.

mánudagur, 6. október 2008

Sökin er bankanna.

Sökudólgurinn er fundinn! Einkavæðing bankanna er vandinn. það var kerfið sem bjó til vonda bankamenn eða óhæfa. Auðvitað getum við alltaf bætt í götin og lagað í ljósi reynslunnar. Reynslan kenndi okkur að ríkisbankar voru ferleg hugmynd. Þessir verða vonandi ekki lengi ríkisbankar.

Ef við þurfum að finna sökudólga þá finnast þeir örugglega báðu megin við klúðrið. En jafnvel þó kerfið sé bernskt og í einhverju ekki fullkomið þá er ekki þar með sagt að alger nauðsyn sé að misnota það eins og sumir hafa gert skefjalaust árum saman.

Málflutningur margra núna er eins og að kenna svívirtu konunni um nauðgunina af því að hún hafi ekki passað sig nægilega vel. Hún hafi eiginlega boðið upp á þetta. Þetta skrifast á þá sem ráku bankana og áttu eða eiga.

Ég nefni einn mann oftar en aðra í þessu samhengi og það er vegna þess að í mínum huga er mikill munur á þvi að gera heiðarleg mistök og hinum mistökunum. Mig grunar að þegar bækurnar verða aðgengilegar munu menn sjá að engar reglur halda aftur af mönnum með verulega einbeittan brotavilja.

Lærum lexíuna og byrgjum brunninn en gleymum ekki hverjir bera ábyrgð á þessu. Síðan hvenær varð allt skynsamlegt sem ekki er bannað?

Röggi.

Arfleifð götustrákanna.

Þá er það skollið á óveðrið. Af fullum þunga og við finnum öll fyrir þunganum þó hann sé kannski ekki farinn að snerta okkur beint, ennþá. Nú er allt bara stopp. Tíminn hreyfist ekki og mig langar eiginlega ekkert í sundlaugina sem ég heimsæki á eftir. Fer samt...

Enda heldur lífið áfram. Glamúr og glæsilífið hjá Jóni Ásgeir og félögum sem hafa tekið þúsundir milljóna bæði úr bönkum og öðrum fyrirtækjum sem þeir hafa keypt og vélað með árum saman heldur væntanlega áfram líka eins og ekkert hafi í skorist.

Vonandi eru æ fleiri að kveikja á perunni. það að gagnrýna að þessir menn hafa farið eins og stormsveipur um allt þjóðfélagið og skuldsett okkur og bankana eins og þeir gerðu snérist aldrei um pólitík. Kannski kemur að því Jónína Ben fái uppreisn æru. Vonandi eru véfréttir um sjóði Glitnis alrangar þó ég bindi engar vonir við það.

Hrun Glitnis setti allt á annan endann endanlega. Hvenær kemur að því að menn hætta að hampa þessu liði og kenna Davíð um allt sem þessir aðilar hafa gert miður fallegt í sínum viðskiptum? Var ekki of miklu til fórnað?

Ef að líkum lætur mun fréttastofa stöðvar 2 tala um fleiri bankarán og þjóðin dansar bara með eins og undanfarin ár. Ruddaskapur stærsta eigandans í því máli verður aldrei toppuð. Ekki dettur mér í hug að eigendur Landsbankans munu haga sér þannig gangvart hluthöfum síns banka ef jafn illa fer fyrir þeim.

Hvar er nú fólkið sem vildi bara lána 48 000 milljónir til Glitnis með veðum í bílalánum? Hættum að hengja bakara fyrir smið og opnum augun. Þegar það tekst munu menn ekki sjá geðveikan seðlabankastjóra og spillta stjórnmálamenn.

Þá munu menn sjá hóp af mönnum sem gömbluðu með okkur öll. Sópuðu til sín peningum sem við þurfum síðan að borga fyrir þá. Þó er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þeirra velferð. Þær þúsundir milljóna sem höfðust upp úr krafsinu duga til að setja dropa á þotuna og fljúga á burt. Við hin sitjum eftir í skuldasúpunni og reynum að moka flórinn.

Röggi.

Líkræða?

Ég vill hvorki né get dregið úr alvarleika þeirrar stöðu sem upp kom í dag og leiddi til þess að ríkisstjórnin þarf að taka bankana til sín meira og minna.

En mér fannst ræða Geirs áðan full dramatísk. Mér leið eins og um líkræðu væri að ræða. Fátt gefið upp og depurðin yfirgengileg. Núna þurfum við hreinskilni umfram allt og smá kraft.

Að okkur sé blásið í brjóst. Himnarnir eru ekki að hrynja yfir okkur. Geir átti að segja okkur að nú yrði tekið á málum af festu og öllu væri óhætt.

það gerði hann að nokkru leyti en fór svo að tala um að við ættum öll að halda utan um hvort annað og passa börnin okkar. Það var niðurdrepandi og erfitt að hlusta á Geir áðan en gat að vísu aldrei orðið skemmtiefni.

En það vantaði alla ástríðu og baráttu í kallinn. Það kemur dagur eftir þennan og nú er að bretta upp ermar. Veiða fisk og kannski virkja og byggja álver svo við getum haldið áfram að lesa bækur þegar betur árar.

Hann verður svo holur tónninn um að allt verði í lagi þegar boðskapurinn er fluttur eins og Geir flutti hann áðan.

Röggi.

fimmtudagur, 2. október 2008

Í fréttum er þetta helst.

Ég hef oft bölvað því að ekki eru til reglur hér um eignarhald á fjölmiðlum. Ítalir hafa ekki heldur slíka löggjöf enda sjá allir hvurslags afleiðingar það hefur. Maðurinn með aurana ræður algerlega hvað er til umræðu. það gæti hugsanlega sloppið ef viðkomandi eru sæmilega siðferðilega innréttaðir. Í hvorugu landinu er um slíka heppni að ræða.

Fréttastofa stöðvar 2 heldur áfram að boða fagnaðarerindi eiganda síns kvöld eftir kvöld. Sigurður G. fær það pláss sem hann telur sig þurfa til að segja okkur að það sé seðlabankanum að kenna að bankinn hefði farið til fjandans 15. október vegna auraleysis. Mér vitanlega hefur enginn starfsmanna eiganda Glitnis gert minnstu tilraun til að reyna að sjá hina hlið málsins. Veit fréttastjórinn kannski ekki að það eru til fleiri hliðar á þessu máli en hlið hluthafa í Glitni?

Dettur engum á fréttastofunni í hug að efast? Er það óttinn við að missa vinnuna þegar spilaborg eigandans hrynur sem rekur fólk áfram? Er öllum sem þarna starfa fyrirmunað að sýna snefil af fagmennsku? Ég efast stórlega um að gömlu flokksblöðin sem voru þó klárlega ekki í felubúningi hefðu getað verið jafn einhliða í fréttaflutningi og stöð 2 er í dag.

Mér virðist sem fréttastjórinn hafi bara hætt að reyna að vera fagmaður. Hann flytur ekki fréttir. Fólk sem hefur gríðarlegra persónulegra hagsmuna að gæta birtist nú dag eftir dag með samsæriskenningar órökstuddar og þetta er flutt gagnrýnislaust eins og um hlutlausa sérfæðinga sé að ræða.

Hvenær ætlar einhver þarna að þora að spyrja skussana sem klúðruðu hlutafé þeirra sem eiga bankann eðlilegra spurninga? Af hverju var bankinn í þessari stöðu? Af hverju fór bankastjóri Glitnis til Seðlabankans til að biðja okkur skattgreiðendur um fleiri þúsund milljónir án þess að hafa fullnægjandi tryggingar ef þær reynast svo vera fyrir hendi? Voru innlánssjóðir Glitnis að fjárfesta stórlega í fyrirtækjum sem tilheyra stærsta hluthafa bankans? Og ef svo er, er víst að það þjóni hagsmunum hinna hluthafanna? Hvernig stendur á því að reiðin beinist að þeim sem tóku á móti Glitni gjaldþrota og leystu eigendurna undan þeirri skömm að þurfa að loka bankanum með miklu verri afleiðingum en við horfum á núna?

Af hverju er málflutningur þess sem keyrði fyrirtækið í gjaldþrot og leitaði til seðlabankans trúverðugri en þeirra sem stýra seðlabankanum og hafa alls engra hagsmuna að gæta? Ekki hagnast bankastjórar seðlabankans persónulega og engu hafa þeir að tapa öfugt við suma.

Fullkomlega er rökrétt að spyrja þessa menn að því hvernig þeim tókst að koma því þannig fyrir að banki sem þeir segja alveg skotheldan að öllu leyti komst í þá stöðu að vera auralaus með stóran gjalddaga eftir hálfan mánuð. Enginn bað þá um að fara á hausinn. Enginn bað þá um að fara til seðlabankans.

Svörin við þessum spurningum eru reyndar öllum kunn. Davíð Oddsson er glæpamaður! það er bara þannig jafnvel þó alls ekki hafi verið sýnt fram á hver glæpurinn er annar en að tryggja að þeir sem áttu bankann taka þátt í tapinu frekar en þeir sem áttu inni hjá bankanum.

Fréttastofa Jóns Ásgeirs mun aldrei spyrja þessara spurninga. Kannski breytist þetta allt saman þegar nýjir eigendur koma að rekstrinum. Það gæti orðið fyrr en seinna og vonandi ekki þannig um samþjöppun verði að ræða.

Svo þurfum við að koma okkur saman um að setja okkur reglur um eignarhald á fjölmiðlum svo við þurfum ekki að horfa upp á jafnvel fínasta fagfólk taka jafn herfilega niður um sig faglega eins og blasir við daglega á stöð 2.

Röggi.