fimmtudagur, 23. desember 2010

Afleikur órólegu deildarinnar

Nú er komin upp áhugaverð staða í stjórnmálunum. Farlama ríkisstjórn sér nú allt einu opnast gullið tækifæri til framhaldslífs til loka kjörtímabilsins. Það mun geta gerst með innkomu Framsóknarflokksins.

Það er rétt hjá Steingrími Sigfússyni að það er ekki annar valkostur en að þessi stjórn sitji. Flokkarnir á þingi þora ekki í kosningar og Sjálfstæðisflokkurinn hefur hvorki þor né vilja til að koma að stjórn landsins núna. Þeim er því nauðugur einn kostur....

Þegar órólega deildin í VG studdi ekki fjárlögin leystist úr læðingi illa dulinn pirringur og reiði meirihluta VG í þeirra garð. Reiði sem þurfti svo sannaralega að finn sér farveg upp á yfirborðið. Þarna datt tækifærið upp í hendur forystunnar sem hefur gernýtt það. Snúið knappri vörn í sókn og komið þessum háværa og allt of valdamikla hópi á flótta.

Það er alveg augljóst að vægi þesa hóps hefur snarminnkað og einungis tvær leiðir héðan í boði fyrir hópinn. Annað hvort fullur stuðningur eða brotthvarf úr flokknum. Klofningurinn er nú öllum ljós og þá er hægt að halda áfram veginn með þeim sem fyrir eru og án þeirra hinna sem ekki gera annað en að vera fyrir á forsendum sem ekki standast alltaf skoðun.

Þá galopnast dyrnar fyrir Framsóknarflokkinn enda ekki lengur sú hætta að ógnarsterk óróleg deild muni setja sig upp á móti þeim ráðhag. Þessi pólitíski afleikur órólegu deildarinnar í VG hefur að mínu mati gert ríkisstjórninni gott og hreinsað andrúmsloft sem var orðið hættulega mengað og styrkt samstarfið við Samfylkinguna.

Svona sé ég þetta nú

Röggi

fimmtudagur, 16. desember 2010

ESA og neyðarlögin

Í gær bárust þau tíðindi að ESA hafi komist að þeirri niðurstöðu að setning neyðarlaganna Íslensku hafi verið lögleg. Þetta er ef ég skil málið rétt stórmál sem hefur þó farið furðuhljótt. Kannski er það vegna þess að það var ríkisstjórn Geirs Haarde sem setti þessi neyðarlög sem fjölmiðlar og fleiri virðast ekki hafa áhuga.

Ég hef haldið því fram og er þess fullviss að sagan muni kenna okkur að sú ríkisstjórn gerði í raun kraftaverk við hörmulegar aðstæður hrunhaustið 2008. Sagan mun einnig kenna okkur að eigendur bankanna blekktu ekki bara öll matsfyrirtæki möguleg, seðlabanka og fjármálaeftirlit heldur og ekki síður stjórnmálamenn sem höfðu fá önnur tæki til að gera sér grein fyrir stöðu bankanna en þessa aðila.

Ríkisstjórninni tókst að halda bankakerfinu gangandi en mig rennur í grun að fólk bara átti sig alls ekki á hversu stórbrotið verk það var og geri sér enn síður grein fyrir afleiðingum þess ef það hefði ekki tekist. Ég hvet þá sem þetta lesa til að lynna sér sögu þeirra ríkja sem ekki tókst það við svona aðstæður. Það er saga vöruskorts og hungursneyðar svo eitthvað sé nefnt auk félagslegs niðurbrots.

Geir Haarde þarf nú að eyða tveimur árum í að svara til ímyndaðra pólitískra saka fyrir landsdómi. Það verður sífellt dapurlegra fyrir þá blessuðu alþingismenn sem að því stóðu. En þó það sé óhemjufáránleg niðurstaða gefst Geir þar tækifæri til að kenna Íslenskri þjóð að hann og hans lamaði samstarfsflokkur unnu gott starf við vonlausar aðstæður sem engin fagaðili eða eftirlits sáu fyrir.

Niðurstaða ESA í gær er því starfi fagur vitnisburður.

Röggi

föstudagur, 10. desember 2010

Icesave og Steingrímur J

Steingrímur Sigfússon fjármálaráðherra hlýtur að vera að berjast fyrir pólitísku lífi sínu þessa dagana. Þannig væri það hið minnsta hjá flestum þjóðum með eðlilega pólitíska vitund. Hann hefur ásamt pr sérfræðingum talað út og suður um það í nokkrar vikur að allt væri hér í svo miklum blóma bara ef við hefðum nú asnast til að samþykkja fyrri samning....

...sem allir vita nú að var algerlega fáránlegur og ekkert nema grjóthörð stjórnarandstaða og athyglissjúkur forseti kom í veg fyrir að Steingrími J. Sigfússyni tækist að ganga erinda viðsemjenda okkar og troða ósómanum upp á gjaldþrota þjóðarbú og skattgreiðendur barnabarnanna minna.

Þarna sjáum við hinn þrautreynda stjórnmálamann reyna með markvissum vinnubrögðum að snúa gjörtöpuðu tafli í vinning. Kannski tekst honum það bara enda ekki víst að sérlega steindauðir og velviljaðir fjölmiðlamenn hafi döngun í sér til að láta karlinn svara almennilega til saka í þessu efni. Enda ekki nema 98 % þjóðarinnar á bak við þá ákvörðun að fella samninginn hans.

Þessi samningur er nefnilega alls ekki samningurinn hans Steingríms. þetta er samningur sem þjóðin reyndi að ná algerlega gegn vilja Steingríms. Allar tilraunir hans til að eigna sér árangurinn núna eru hlægilegar en kenna okkur um leið að hann skuldar okkur afsökunarbeðini ef ekki hreinlega afsögn.

Röggi

mánudagur, 6. desember 2010

DV og sannleiksástin

Reynir Traustason telur sig sérstakann erindreka sannleikans og skrifar um það grein í dag. Það er gömul saga og ný að DV telur að allt eigi alltaf að vera til umfjöllun á síðum blaðsins og þar gilda tímasetningar og sönnunarbyrði og fleiri góð gildi ekki neinu.

Það sem ritstjórn blaðsins telur að muni selja þann daginn á brýnt erindi við hvern mann. Þeir sem hafa aðra skoðun en þessa eru á móti sannleikanum og að um hann sé fjallað. Þennan málflutning hafa sumir ótrúlegustu mannvonskupúkar sögunnar haft í þjónustu sinni.

Ef ég gerist blaðamaður á DV þá er það næg ástæða ein og sér að mig langi til að vita eitthvað og að birta þá vitneskju á síðum blaðsins. Engin önnur lögmál gilda. Einkalíf er ekki til. Ef einhver tekur sig til að sakar annan mann um eitthvað þá er það mögulega forsíðufrétt í DV. Tímasetningin og framvinda ákærunnar skiptir Reyni Traustason engu máli. Og af hverju?

Af því að hann er bara að segja sannleikann. Vissulega er hann ekki að ljúga í þessu tilbúna dæmi en þeir sem vilja reka alvöru fjölmiðil vita að það er ekki eina lögmálið sem gildir þegar fjallað er um einkahagi fólks.

Við verðum að vona að ekki komi til vondir menn sem smyrja einhverju á ritstjórann hugumstóra. Þann "sannleika" er ég ekki viss um að Reynir Traustason myndi vilja fjalla um á áberandi stað.

DV getur verið afar skemmtilegt aflestrar og ekki held ég því fram að þar vinni vont fólk. En hugmyndafræðin sem blaðið byggir á er hættuleg í besta falli og mælingin á gæðum hennar er ekki tekin á góðu dögunum.

Hún er nefnilega gerð á slæmu dögunum og þeir eru fleiri hjá DV en nokkrum öðrum fjölmiðli á Íslandi.

Röggi

miðvikudagur, 1. desember 2010

Svavar um Ólaf Ragnar

það telst til stórtíðinda í mínu lífi þegar ég og félagi Svavar Gestsson erum sammála. Svavar gagnrýnir Ólaf Ragnar sem enn einu sinni hefur gleymt því að hann er ekki stjórnmálamaður og gasprar um hluti sem eru ekki á hans könnu við erlenda fjölmiðla.

Forsetinn talar um Icesave og evru og önnur þau mál sem hann hefur pólitískann áhuga á og það er óþolandi og hefur alltaf verið. Mér finnst reyndar gaman að því að núna fyrst eru gamlir félagar hans og samherjar að finna að þessu verklagi Ólafs en þetta hefur verið hans háttur alla forsetatíð hans. Núna bara hentar það ekki....

Núna er hann nefnilega ekki að misnota embættið til að berja á vonda fólkinu í hinu liðinu. Og það má ekki. Þegar rætt er um hlutverk og stöðu forsetaembættissins er best að gleyma því með hverjum maður heldur í pólitík.

Ólafur Ragnar hefur verið að færa sig stöðugt upp á skaftið á Bessastöðum án umboðs til þess og það er kjarni málsins að mínu viti. Fyrst gerði hann það í fjölmiðlamálinu og fékk til þess stuðning mikinn frá Svavari og félögum. Þá var vinstri elítan ekki með neina skoðanir á því hvort þingræðinu væri ógnað og stóryrðin ekki spöruð til handa þeim sem gagnrýndu þann skandal út frá prinsippum um embættið.

Þess vegna er þátttaka manna eins og Svavars í umræðum um framgöngu Ólafs Ragnars í embætti svo máttlítil.

En samt svo þörf.....

Röggi

sunnudagur, 28. nóvember 2010

Stjórnlagaþingsfýlupokar

Þá er búið að kjósa til stjórnlagaþings. Eins og ávallt keppast aðilar við að skýra hvað gerðist og sitt sýnist hverjum. Enginn tekur auðvitað mark á þeim sem telja kosninguna sterka og gott vegarnesti í framhaldinu. Þátttakan var hörmuleg og þeir sem töldu hugmyndina góða ata nú meirihlutann auri fyrir heimsku og leti og ég man ekki hvað. Það er afar lýðræðislegt tal eða hitt þó heldur og styrkir hugmyndina um fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur.....!

Öllu er um kennt öðru en þeim möguleika að meirihluti þjóðarinnar vilji kannski ekki breyta neinu. Fýlupokarnir segja það alveg umbúðalaust að þeir sem vildu stjórnlagaþing máttu hafa opinbera skoðun á málinu. Aðrir sem ekki höfðu trú á málinu og voguðu sér að nefna það opinberlega voru að eyðileggja. Hvurslags tal er það? Af hverju má ekki hafa nema eina skoðun í þessu máli? Getur ekki verið að gagnrýni sumra á fyrirkomulag og annað í þessu hafi einmitt átt sérlega vel við skoðað í ljósi niðurstöðunnar??

Það eru örugglega margir samverkandi þættir sem urðu þess valdandi að kosningaþátttakan var svona herfilega lítil. En niðurstaðan er svona og ekki stoðar að atyrða meirihlutann þegar hann kann ekki að þóknast minnihlutanum.

Röggi

föstudagur, 26. nóvember 2010

Lögfræði landsdóms

Landsdómsmálið er auðvitað eitt risastórt klúður. Það viðurkenna allir og sumir þurfa að læðast með sínum pólitísku veggjum það sem eftir er vegna framgöngu sinnar í því efni. Geir Haarde er þó lítil huggun í því að menn sjái nú hversu fáránleg staða það er að hann þurfi að svara til einhverra saka fyrir að vera stjórnmálamaður.

Nú er ekki annað í boði en að taka þessu og gera allan þennan málatilbúnað þannig að einhver mögulegur sómi sé að. Kannski er það til marks um að enginn hefur áhuga á þessu lengur eða að hefndarþorstanum sé svalað með því að ákæra Geir einan að fjölmiðlar og almenningur virðast ekki hafa áhuga á ótrúlegum fréttum af framgangi þessa leikhúss fáránleikans.

Fréttir af skipan verjanda til handa Geir Haarde eru í raun alveg makalausar. Sækjandinn í málinu tefur skipan verjanda vegna þess að dómarinn hefur beðið sækjandann um álit á þeim gjörningi á Geir fái verjanda. Ég skil vel að þú þurfir að lesa þessa setningu tvisvar....

Þetta er svo gersamlega út í hött að ég nánast trúi varla sögunni og skil ekki hvaða lögfræði er lögð þarna til grundvallar. Ég sé þó í nýju ljósi yfirlýsingu Skúla Helgasonar sem lýsti því yfir skömmu eftir að hann greiddi atkvæði með ákæranni að þetta fyrirkomulag væri í besta falli gallað ef ekki ónýtt....

Ég reikna með því að eitthvað heyrðist í kórnum sem hvatti Ögmund til að skipta sér af dómstólum í máli níumenninganna ef sækjandinn í því máli hefði verið beðinn um það af dómaranum að hafa skoðun á skipun verjanda til handa þeim.

Á þessu tvennu er enginn munur en dauðaþögnin sem um þetta ríkir er til skammar eins og málið í heild sinni.

Röggi

miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Styrmir og samstarfið við VG

Styrmir Gunnarsson er mætur maður og ekki geri ég lítið úr skoðunum hans í neinu en mér er þó fyrirmunað að skilja tal hans um mögulegt samstarf Sjálfstæðisflokks við VG. Það eina sem Styrmir og skoðanabræður hans í þeim efnum sjá í VG er andstaðan við inngöngu í ESB. Og í því máli sýnist mér jafnvel blikur á lofti hvað VG varðar.

Kannski sér Styrmir þetta sem hentugan millileik til að koma ESB málinu frá í bili hið minnsta því varla tekst Styrmi að gleyma alveg fyrir hvað VG stendur í stjórnmálum. Stefna VG í efnahags og atvinnumálum er í grunninn afleit og ónýt. Grunnafstaða flokksins í ríkisfjármálum og hugmyndir um ríkisafskipti af öllu getur eða ætti ég öllu heldur að segja, ætti aldrei að geta samræmst stefnu Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum ef allt er með felldu þar.

Ég sjálfur hef litla sannfæringu fyrir ágæti inngöngu í ESB en tel það mál í fínum farvegi núna. Mér finnast tilraunir til þess að koma í veg fyrir að við náum sem bestum díl við ESB ekki skynsamlegar. Til þess að klára það mál og til þess að umræðan um ESB snúist ekki um öfgana á sitthvorum enda málsins þarf samning til að tala um. Og kjósa svo. Hvað mælir gegn þessari aðferðafræði?

Ég vona að hugmyndir Styrmis um samtarfs við þann hluta VG sem vill ekki undir neinum kringumstæðum skoða ESB aðild verði aldrei ofan á. Því miður er sá hópur að mestu óalandi og óferjandi í samstarfi að ég tali nú ekki um grundvallarskoðanir þess hóps í pólitík sem eru eins langt frá mínum og mögulegt er....

...og reyndar Sjálfstæðisflokksins líka.

Hélt ég

Röggi

mánudagur, 22. nóvember 2010

Pólitísk afskipti af dómsvaldinu

Stjórnmálasamtökin VG álykta um málefni níumenninganna svokölluðu. Stjórnmálamennirnir vilja skipta sér af dómsvaldinu með beinum hætti og finnst það alveg eðlilegt. Mér finnst það fráleitt af öllum hugsanlegum ástæðum.

En þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma svo mjög á óvart. Þeir sem lengst sitja til vinstri telja í prinsippinu að pólitíkusar eigi að ráða öllu. Þar með talið dómsvaldinu. Nú fyrir skemmstu beittu þeir sér fyrir því að dómsvaldið verði sett í að rétta yfir stjórnmálamanni vegna pólitískra skoðana og aðgerða hans.

Þessi hugsun öll var þekkt í ráðstjórnarríkjunum og er sem betur fer á undanhaldi. Dómsvaldið á að starfa óháð og án þrýstings frá framkvæmda og eða löggjafarvaldi en VG er hvoru tveggja. Pólitísk afskipti af dómsvaldinu er ekkert grín gott fólk.

Þeir sem fá krampakast vegna þessa pistils geta sett Sjálfstæðisflokkinn inn í mengið í stað VG til að fá rétta tilfinningu fyrir því sem hér er um að ræða.

Röggi

laugardagur, 20. nóvember 2010

Ofstæki smugunar

Hún heldur áfram pólitíska hugarsýkin vegna uppsagnar Láru Hönnu af rás 2. Vinstri menn og eigendur að smugan.is eru að ganga af göflunum og neita hreinlega að sjá staðreyndir mála. Það bara má ekki láta fólk úr þeirra röðum fara. Um það snýst þetta mál og EKKERT annað.

Þá ályktun dreg ég vegna þess að ekki er hlustað á fínan rökstuðning ríkisútvarpsins vegna málsins. Afstaða VG vefsins er út í hött og einkennist af pólitískri blindu og nú undir það síðasta af hreinu ofstæki. Smugan.is bara hefur ákveðið að þarna sé um ofsóknir og skoðanakúgun að ræða og engra frekari skýringa er þá þörf.

Smugan.is finnur ekki kjarna þessa máls enda sjónarhornið knappt og útgangspunkturinn pólitískur. Stormur í vatnsglasi sem gjaldfellir smuguna og Láru Hönnu duglega.

Röggi

miðvikudagur, 17. nóvember 2010

Ármann Jakobsson, þrískipting valds og frasanotkun

Ármann Jakobsson drepur fingri á lyklaborð og skrifar um þrískiptingu valdsins á smugan.is. Ármann er um margt skemmtilegur penni og læsilegur en hér er hann yfirborðskenndur og innihaldsrýr.

Ármann freistast til halda að margir þeir sem vilja skerpa á þrískiptingu valds viti ekki um hvað það mál snýst heldur finnst gaman að slá um sig með frasanum. Merkilega hrokafullt hjá Ármanni sem finnur hugmyndinni um þriskiptingu valds það til forráttu að Ameríkanar notist við slíka hugmyndafræði. Það gera reyndar fleiri þjóðir og ég hélt að leitun væri að fólki sem telur þrískiptingu valds nánast óþarfa eins Ármann virðist vera að halda fram.

Ármann kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert stoði að breyta kerfinu ef hugarfarið breytist ekki með. Hann kemst þá líklega að þeirri niðurstöðu að núverandi system sé í raun gott en dýrategundin. mannskepnan, þurfi bara að koma sér upp óspilltu hugafari. Ekki er í lítið ráðist segi ég

Ég skil alls ekki fólk sem heldur að tal um þriskiptingu valds, sem er vel að merkja ekki stælar í fólki út í bæ, snúist um orðaleiki og tískustrauma eða frasanotkun þeirra sem ekki skilja heildarvandann. Ég tel nefnilega að þeir sem taka pólinn hans Ármanns skilji hvorki né nenni að kafa djúpt í málið.

Við Ármann verðum trúlega ekki sammála um meginstefnu í stjórnmálum enda tilheyrir hann þeim hópi fólks sem telur að stjórnmálamenn séu best til allra hluta fallnir. Og þess vegna vill hann standa vörð um ráðherraræðið, sem heitir víst á fagmáli þingræði, en hefur afskræmst í Íslenskum meðförum.

Breytinga er þörf og mér finnst þær snúast um kerfið en Ármann telur vandann snúast um fólk með vont hugarfar.

Vonandi verður þessi skoðun ekki tískuskoðun og vonandi ekki heldur frasarnir hans Ármanns.

Röggi

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Uppsagnir á RÚV

Allt ætlar um koll að keyra hjá vinstri bloggurum vegna uppsagna Láru Hönnu og Þórhalls Jósepssonar af RÚV. Þarna þykjast menn sjá maðk í mysu og pólitík. Ég hef ekkert á móti þessu fína fólki og sýnist ríkisfjölmiðillinn vera að reyna að standa undir þeim reglum sem um hann gilda og þó fyrr hefði verið....

Hvernig ætli sumum brygði við ef einhver af pistlahöfundum AMX yrði munstraður til að vera með vikulegt erindi í morgunþætti hjá RÚV? Kannski einhver sem skilgreindi sjálfan sig sem ópóitískann....

Ég bara spyr.

Röggi

mánudagur, 8. nóvember 2010

Saari, lýðskrum og heildarlausnir

Nú er tími lýðskrumaranna. Og handónýtir fjölmiðlar halda áfram að gera lítið sem ekkert gagn. Nú ræður ríkisstjórn sem veit hvorki upp né niður og man ekki lengur hvert hún er að fara eða hverju var lofað. Skjaldborgin um heimilin lætur á sér standa og því andrúmslofti lifa menn eins og Þór Saari góðu lífi.

Þór hlýtur að vera einn afkastamesti lýðskrumari þingsögunnar. Hann heldur því eiginlega fram að ef ekki væru fyrir vondir stjórnmálamenn væri hægt að leysa skuldavanda heimilanna á einu augabragði. Þingmaðurinn rær svo í þessu fram og til baka og grunnir fjölmiðlar taka honum opnum örmum og telja hann mestan og góðastann....

Mér dettur ekki í hug að svona sé um þennan vanda farið. Lausnin sem lofað var er líklegast bara ekki til. Skuldir hverfa ekki af yfirborðinu því miður og það er sérlega dapurlegt því sumir peningar virðast geta horfið sporlaust ofan í hyldjúpa vasa bankaræningja sem sumir reyndar njóta þess enn að eiga fjölmiðla og annað sem þeim hentar.

Skjaldborgin um heimilin átti að snúast um að tryggja kaupmátt og störf. Þetta skilur þessi ríkisstjórn alls ekki og hefur leitað allsherjarlausna byggða á óraunsæi. Lausna sem eiga að "redda" málinu á íslenska vegu í snarhasti. Þetta mun ekki gerast....

Vinstri menn margir hafa alla trú á því að ríkisvaldið og það fólk sem þar velst til starfa sé til allra hluta best. Og í rökréttu framhaldi er reynt að koma okkur öllum undir algóðann verndarvæng Steingríms og Indriða með skattaofbeldi. Einkaframtakið kæft á meðan skatttekjur af allri neyslu dragast saman. Hvernig þetta á að ganga upp er mér hulin ráðgáta.

"Eitthvað annað" stefnan í atvinnumálum er keyrð áfram af festu og styrk og Björk segir okkur að við þurfum alls ekkert að nýta neinar auðlindir. Við þurfum einungis að hugsa grænt og auka svo framlög til lista og menningar. Allt raus um nýtingu auðlinda og störf í iðnaði séu frá vondu hægri fólki komið.

Hvernig væri að liðið sem stýrir aðgerðaleysisríkisstjórninni safnaði nú kjarki og segði okkur eins og er. Það voru engar lausnir í þá átt sem lýðskrumarar utan og innan ríkisstórnar standa fyrir uppi í erminni hjá Samfylkingu og VG. Röfl Jóhönnu um samráð og samvinnu er innantómt leikrit ætlað til að þyrla ryki og flestum fjölmiðlamönnum líður vel í rykmekkinum og mótmælendur eru í fríi.

Og mitt í allri þessari sögu þrífst Þór Saari á öllu saman bara af því að hann segir það sem fólk vill heyra þó vissulega sé hann á stundum einungis að enduróma það sem þjóðinni var lofað.

Hættum lýðskrumi og leitum frekar að mönnum með kjark til að segja það sem segja þarf en ekki bara það sem hljómar best og þægilegast er að heyra. Þá mun snöggkólna um stjórnmálamenn eins og Þór Saari. Og reyndar fleiri....

Röggi

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Bullið í Bubba

Ég hafði það af að hlusta á viðtal sem gamli gúanórokkarinn Bubbi Morthens lét taka við sig á rás 2 í morgun. Þar lét hann vaða á súðum eins og venjulega en innihaldið var óvenjurýrt og er þó langt til jafnað þegar laxveiðimaðurinn ástsæli á í hlut.

Bubbi er enn að reyna að selja gömlu hugmyndina um að þjófarnir sem stálu bönkunum okkar séu ekki sökudólgar heldur stjórnmálamaður einn að nafni Davíð Oddsson. Hann einn beri ábyrgð. Þessa þvælu reyndu menn að bera á borð fyrstu mánuðina en í dag er leitun að fólki sem nennir að hafa þessa skoðun. Tíminn hefur leitt ýmislegt í ljós en Bubbi nennir ekki að ferðast með okkur hinum fram veginn...

Rokkarinn eyðir mikilli orku í AMX sem hann telur klámvef í eigu LÍÚ en er auðvitað sléttsama um það hver á pressuna þar sem hann klæmist sjálfur allt of oft.

Ég hvet alla til að hlusta á þetta tímamótaviðtal við kónginn sem þarna afhjúpar sig þannig að ekki mun nokkur þörf á því að taka mark á honum framvegis. Samsæriskenningarnar svo mergjaðar að manni flýgur jafnvel í hug að ekki sé allt með felldu hjá Bubba kallinum.

Ég eiginlega vona að honum sé borgað fyrir þessar skoðanir. Mér finnst það skömminni skárra en að hann trúi því sem hann heyrir sig segja.

Röggi

fimmtudagur, 28. október 2010

Össur, ESB og erlendir fjárfestar

Össur Skarphéðinsson ráðherra ESB hamrar nú sem aldrei fyrr á ágæti inngöngu okkar. Allt gott um það að segja enda eðlilegt að stjórnmálamenn fylgi sannfæringu sinni eftir. Ég er þó hugsi yfir sumu sem Össur segir en dáist um leið að snilld spunameistarans...

Össur sér áhuga erlendra fjárfesta stóraukast við inngöngu í ESB. Þetta finnst mér áhugavert. Össur tilheyrir nefnilega ríkisstjórn sem hefur sérstaka óbeit á slíku. Hvað heldur Össur að muni geta dregið erlenda fjárfesta til Íslands? Kannski bankakerfið? Ilmrækt? Hmm, ég bara spyr... Nei, líklega eitthvað sem ekki má nefna í dagsbirtu þegar VG er annars vegar.

Eva Joly sem er nýjasta besta vinkona Össurar eftir að hún trúði okkur fyrir þvi að okkur væri best borgið inn í ESB talar helst út frá hagsmunum ESB þegar hún rökstyður þá skoðun. ESB hafi svo mikið hingað að sækja. Hvað myndi það vera??

Ég er reyndar alls ekki einn af þeim sem sé ofsjónum yfir því að ESB telji sig hafa hag af okkar inngöngu. Mér finnst eðlilegt að báðir aðilar hafi eitthvað á málinu að græða. Ég held hins vegar að bakland Össurar muni ekki þola ESB og "erlendu fjárfestunum" hans áhuga á því sem er kallað auðlindir landsins.

Össur er seigur og sér eins og nánast allir aðrir en samráðherrar hans að nú er nauðsyn að laða erlent fé til landsins annað en AGS fjármagn. Þess vegna reynir hann að slá tvær flugur í einu höggi og reimar þetta tvennt saman. Inngöngu í ESB og stóraukna erlenda fjárfestingu hér.

Sniðugt en heldur varla vatni....

Röggi

laugardagur, 16. október 2010

Leikritið heldur áfram

Jóhanna Sigurðardóttir heldur áfram með leikritið sem hún setti af stað þegar mótmælin stóðu sem hæst. Lokaatriðið hefur hún samið líka og það verður á þann hátt að öllum öðrum en henni sjálfri verður um kennt hvernig staðan er.

Stjórnarandstaðan verður talin standa í vegi fyrir lausnum og allir hagsmunaaðilar sem um lausnirnar hennar Jóhönnu hafa fjallað líka. Þetta fólk allt ásamt þeim sem eiga bankana núna og hafa flestir unnið sér það helst til saka að hafa lánað þeim peninga á sínum tíma verður líka vonda fólkið.

Þetta er söguþráðurinn í þeirri sápu sem ríkisstjórn Jöhönnu og Steingríms er með á fjölum núna. Töfralausnir á töfralausnir ofan er boðskapurinn. Engar fastar skoðanir eða kjarkur heldur bara hrakist undan háværum kröfum fjölskyldna og loforðum sem byggð eru á hreinni óskhyggju.

Hvers vegna stígur Jóhanna ekki niður? Auðvitað getur verið að þeir sem eru þjakaðir af pólitískum rétttrúnaði kaupi það að vondir menn í þjóðfélagi ætli að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin leysi vandann á augabragði með einu pennastriki. En meginþorrinn þarf væntanlega að hafa mikið fyrir því að sjá ekki í gegnum skrípaleikinn.

Verkefni ríkisstjórnarinnar hefur mistekist hrapalega. Helsta baráttumál Steingríms um að borga Icasave upp í topp ætlar líklega ekki að ganga eftir heldur eingöngu fyrir styrk stjórnarandstöðunnar. Það eina sem tekist hefur afar vel hjá ríkisstjórninni er að leggja stein í götu atvinnulífs og framfara.

Verkefnið var einmitt að byggja upp en ekki rífa niður allt þrek og frumkvæði. Ég bjóst alls ekki við því að nein ríkisstjórn eða stjórnmálaleiðtogar gætu komið með töfralausn. Grundvallarskoðanir vinstri stjórnarinnar eru þannig að hún á ekkert erindi núna.

Það tók þau tvö ár að reyna að taka á vandanum og ég ætla rétt að vona að þau taki ekki næstu tvö að koma sér úr ráðherrastólum sínum. Þjóðin hefur ekki lengur efni á þessari mislukkuðu tilraun sem vinstra vorið var alltaf.

Þessi sýning féll með stæl....

Röggi

fimmtudagur, 14. október 2010

Ögmundur; Álver eða dauði

Félagi Ögmundur Jónasson telur að Sjálfstæðismenn sjái bara álver eða dauða þegar kemur að lausnum í atvinnu og efnahagsmálum. Kannski ekki alveg svona einfalt en þó er einhver broddur í þessu hjá ráðherra aðgerðaleysisstjórnarinnar.

Ögmundur sér nefnilega dauða þegar kemur að álverum og framkvæmdum hverskonar öðrum en fjölgun opinberra starfsmanna og auknum skattaálögum. Það sem við höfum horft upp á í tvö ár er svo sannarlega dauði.

Og það er að hluta til vegna erfiðra aðstæðna en að stærstum hluta vegna þess dauða sem Ögmundur og félagar hafa dregið yfir allt frumkvæði og allar tilraunir til að koma af stað atvinnuskapandi atburðarás.

Vaxtabroddur Ögmundar er nefnilega ekki í iðnaði. Hann liggur í "einhverju" allt öðru. Þetta hefur félagi Ögmundur alltaf vitað og nú lemur hann höfðinu við steininn og kann ekki að skipta um skoðun.

Líklega á Ögmundur þægilegt sæti við samráðsborðið góða sem enginn hefur nennt að sitja við í tvö ár. Þar gefst Ögmundi kærkomið tækifæri til að láta ljós sitt skína og kenna okkur hvað hann hefur til málanna að leggja annað en að drýgja tekjur ríkisins með því að seilast í galtóma vasa fólks og fyrirtækja.

Ef ég ætti að skipta á álversframkvæmdum nú eða dauðanum sem ríkisstjórnin hans Ömma býður upp á er valið auðvelt.

Röggi

Það er víst pressa á að auka framleiðslu

Þær stöllur Björk og Eva Joly eru á móti nýtingu orkuauðlinda landsins. Þær eru í hópi ofstækisfólks sem hefur gert það að karríer að vera á móti iðnaði og orkunýtingu. Þetta fólk hefur komist að þeirri niðurstöðu að nóg sé af verksmiðjum sem framleiða málm og að nóg sé virkjað.

Ég spyr. Nóg fyrir hvern? Hvernig nóg? Þetta fólk ásamt öðrum í þeirra andstöðuiðnaði fabúlerar út í eitt um að nóg sé að gert en rökstyður það afar fátæklega. Þau notast við orðfæri sem færustu áróðursmeistarar sögunnar hefðu verið fullsæmdir að.

Það eru alver út um ALLT. Það á að virkja ALLAR sprænur. ALLIR sem vilja vinna í þessum bransa eru vont fólk, líklega útlendingar, sem vilja það eitt og helst að græða peninga á litlum varnarlausum þjóðum. Orðin alltaf og allsstaðar eru í öndvegi. ALLIR íslendingar sem vilja skoða nýtingu og aukna framleiðslu eru hirðulausir um umhverfi og náttúru. Ílla meinandi fólk sem vill sjá eiturspúandi málmverksmiðjur um allar koppagrundir....Eru ekki örugglega 20 álver á Íslandi?

Félagi Ögmundur fer mikinn núna og talar um þá sem vilja skynsamlega nýtingu í sátt og samlyndi við Guð og menn.

Það fólk vill bara álver eða dauða segir Ömmi. Ofstækið er augljóst og þegar gengið er á hann með hugmyndir um nýtingu auðlinda eða atvinnulíf almennt kemur annað orð sem atvinnuandstæðingarnir nota mikið. Við gerum auðvitað "eitthvað annað". Hvað það er höfum við séð undanfarin tvö ár.

Það er enginn pressa á að auka framleiðslu segja græninginn og söngkonan. Ég held því fram að því sé öfugt farið en hávaðinn í þessu liði og aðgengið að fjölmiðlum er stórt. það er pressa á að auka framleiðslu á Íslandi. Við getum ekki öll lifað á því að vera listamenn eða atvinnustjórnmálamenn með aðsetur erlendis.

Skoðum okkar möguleika í sátt við Guð og menn. Náttúru og umhverfi. Og losum okkur við þvælukreddur og ofstæki í leiðinni. Dellan um að við "þurfum" ekki að framleiða meira af rafmagni er svo fáránleg firra að engu tali tekur og líka að öll slík framleiðsla sé vond fyrir land og þjóð, náttúru og umhverfi.

Hverjum dettur í hug að Norðmenn eigi að hætta að vinna olíu úr sjó af þeirri ástæðu að nóg sé komið? Og það þeir ættu að snúa sér að "einhverju öðru"?

Röggi

þriðjudagur, 5. október 2010

Ólína og töfralausnirnar

Ég er nefnilega aldrei þessu vant algerlega sammála Ólínu Þorvarðadóttur sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu til neinar töfralausnir handa skuldugri þjóð. Pólitíkin sem forsætisráðherrann hennar er að spila núna eru sjónhverfingar.

Vinstri stjórnin sem nú situr skilur ekkert af hverju staðan er orðin eins og hún er. Kannski trúðu vinstri flokkarnir þvi að hægt væri að leysa þjóðina úr snörunni með einhverjum sértækum aðgerðum stjórnmálamanna. Þar er vinstri mönnum reyndar rétt lýst. Þeir trúa allra helst á mátt stjórnmálamanna.

Núna hefur þessi stjórn eytt tveimur árum í að rífast innbyrðis og meðfram því komið í veg fyrir að atvinnulíf geti blómstrað með fjölmörgum hamlandi aðgerðum. Heilt ár fór í að fá Steingrím ofan af því að gefa Bretum og Holendingum stóran hluta af óinnheimtu skattfé barnanna hans.

Vandann átti að leysa með því að gera allt ríkis eitthvað og skattleggja svo allan pakkann fyrir skuldunum. Þetta var og er gersamlega vonlaus aðferðafræði og nú er svo komið að meira að segja Indriði getur varla fundið nýja skattstofna og því fátt annað eftir en að draga úr útgjöldum.

Ef haldið hefði verið öðruvísi á málum en gert var gagnvart atvinnulífinu væri kannski að skapast jarðvegur fyrir fólk og fyrirtæki til sköpunar og frumkvæðis og þá væri kannski einhver möguleiki á rísandi kaupmætti og minna atvinnuleysi.

Það fólk sem situr í ríkisstjórn er svo sannarlega ekki verra fólk en ég eða hver annar. Það bara trúir á mátt stjórnmálamanna og ríkisins. Og vegna þess að bankakerfi heimsins hrundi hefur því tekist að koma óorði á einkaframtak og frelsi. Og afleiðingarnar eru að koma í ljós.

Stjórnmálamennirnir ráða ekki við neitt og þeir bara skilja ekki af hverju öll þeirra góðu ráð og allar þeirra góðu aðgerðir virka ekki. Hvernig stendur á því að við sem höfum skattlagt allt nema hugsanir fólks og fyrirtækja eigum ekki fyrir skuldum?

Kúrsinn sem var tekinn var rangur alveg eins og kúrsinn sem fyrri ríkisstjórnir tóku í góðærinu var líka rangur. Skattaæðið hefði hentað vel í góðæri en drepur allt niður í hallæri. Þarna liggur meinið meðal annars og því fyrr sem við hverfum frá þessari stefnu því betra.

Það er engin alsherjar töfralausn að lækka skatta og ýta þannig undir framkvæmdir atvinnulífs og einstaklinga. En það er örugglega alrangt að standa í veginum eins og VG og Samfylking hafa komið sér saman um að gera.

Hættum að reikna með því að Jóhanna Sigurðardóttir eða einhver annar forsætisráðherra birtist okkur einn daginn og segist hafa reddað málinu. Það mun ekki gerast. Stjórnmálamenn eru ekki töframenn. Þeir geta sett okkur reglur og lög og þeir marka stefnuna. Það erum við, þjóðin sem vinnum okkur út úr vandanum en þá þurfum við ríkisstjórn sem rambar á rétta leið handa okkur.

Það hefur þessi stjórn ekki gert og Ólína hittir naglann á höfuðið. Þau eru ráðþrota og þau eru líklega verr stödd en ég hélt ef þau halda að hægt sé að draga kanínu úr hattinum núna til lausnar á skuldavanda heimila og fyrirtækja.

Við þurfum öðruvísi stjórn með aðra stefnu.

Röggi

mánudagur, 4. október 2010

Jóhanna þumbast við

Ég sit hér og horfi á Jóhönnu Sigurðardóttir tala frá alþingi í fréttatíma. Hún er reynslubolti hún Jóhanna og ætlar sér ekki að fara frá. Hún talar um að hún ætli sér að taka mótmæli alvarlega en þá með því að reyna að fá stjórnarandstöðuna að borðinu til að leysa vandann. Hún treystir á að hinir flokkarnir séu jafn lafhræddir við kosningar og hennar eigin og þannig muni þessi sameiginlega hræðsla þrýsta flokkunum saman. Það kann að vera rétt mat og margt er til þess vinnandi að koma góðum verkum í gang. En kosningar verða vart umflúnar....

Þetta er því snilldarbragð atvinnustjórnmálamannsins Jóhönnu. Takist ekki að fá stjórnarandstöðuna til liðs mun hún reyna að kenna henni um að ekki tekst frekar en fyrr að leysa nokkurn vanda.

Jóhanna virðist ekki átta sig á að þjóðin hefur glatað tiltrú á ÞINGINU en ekki bara ríkisstjórninni. Þessa tiltrú hef ég ekki trú á að verði hægt að kaupa með sjónhverfingum eða töfralausnum sem allt í einu virðast til en hafa í raun bara beðið samþykkis stjórnarandstöðunnar!

Hver dagur sem þingið og ríkisstjórnin mun taka sér í að stinga hausnum neðar í sandinn mun bara kosta meira á endanum. En svo hlýjir eru ráðherrastólarnir að ekkert annað kemst að en að sitja þar hvað sem á dynur. Og spila pólitík, pólitík sem svo margir eru orðnir þreyttir á.

Röggi

laugardagur, 2. október 2010

Enn um mótmæli og efbeldi

Hún Heiða vinkona mín á DV bloggar í dag um mótmæli og ofbeldi. Við verðum seint sammála við Heiða um skilgreininguna á ofbeldi og ég verð að leggja orð í belg einu sinni enn um þessi mál.

Mótmælendur skýla sér oftast á bak við réttinn til tjáninga þegar þeir telja málsstað sínum best þjónað með ofbeldi. Ekki megi undir neinum kringumstæðum banna fólki að tjá sig hvort heldur það er gert með truflandi uppivöðslusemi eða eggjakasti að ég tali nú ekki um rúðubrot og svo framvegis.....

Réttur til þess að tjá skoðanir sínar nær ekki út yfir allt og allan annan rétt sem borgurum og eða opinberum aðilum er einnig tryggður. Kannski finnst Heiðu í lagi að ég og þeir sem eru mér sammála geri mér ferð á klukkustunda fresti eða svo og tjá skoðanir mínar á DV með eggjakasti og rúðubrotum eftir mínum eigin smekk.

Lærdómurinn sem draga má á af búsáhaldamótmælunum var meðal annars sá að besta leiðin er að mótmæla friðsamleg. Stigvaxandi ofbeldi eins og við sáum þar endar bara með hörmungum þar sem slagsmál við lögreglu, öryggisverði eða þingverði verður markmið en auðvitað alls engin nauðsyn.

það sem oft einkennir þá sem telja að eðlilegt sé að beita ofbeldi sem tjáningu er hentistefna. Ofbeldi sem á sparidögum er stundum kallað borgaraleg óhlýðni er alltaf réttlætanlegt ef málsstaðurinn er "góður" en skilgreiningin á því hvað er góður málsstaður er svo handahófskennd eðlilega.

Kannski má hártogast um það eitthvað hvort hin eða þessu hegðunin sé alvarlegt ofbeldi eða ekki alvarlegt en eggjakast og rúðubrot er ofbeldi og um það ætti ekki að þurfa að rökræða.

Hugsum okkur að til væru hagsmunasamtök eiturlyfjainnflytjenda sem teldu að réttindi þeirra til að afla sér lífsviðurværis væri skertur mjög í hérlendri löggjöf. Hvernig ætli Heiðu litist á ef þeir hyggðust nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn sem borgara þessa lands til tjáningar með sama hætti og mótmælendur gerðu núna fyrir helgina? Auðvitað ýkt dæmi og bragðvont en hugsum um prinsippið....

Fer þá tjáningarfrelsið að snúast aftur um góðan málsstað eða slæman eða erum við þá kannski að tala um ofbeldi?

Þessari spurningu þarf að svara því þetta er grundvallarspurning. Ef einum er leyft að beita ofbeldi við tjáningu í hvaða formi sem það er hver ætlar þá að banna öðrum?

Svar óskast.

Röggi

föstudagur, 1. október 2010

Váleg tíðindi af álveri

Þau válegu tíðindi voru að berast að álverið í straumsvík sé að breyta um framleiðslu og stækka. Þar hafa útlenskir menn með útlenska peninga sem líklega er vondir peningar, hugsanlega mafíósapeningar, ákveðið að fjárfesta hér á landi. Og ekki nóg með það....

..þessi hegðun mun skapa 150 ný störf. Hvernig gat þetta farið framhjá Andra Snæ og ríkisstjórninni? Vita eigendur álversins ekki að við framleiðum nóg handa okkur sjálfum af áli og álver er vondur vinnustaður? Auk þess kaupa svona fyrirtæki orku af okkur en Andri Snær vill nota þá orku í "eitthvað annað" eins og það er gjarnan kallað þegar þarf að finna eithvað fyrir vinnandi fólk að gera.

Þetta eru skelfileg tíðindi og sýnir okkur svart á hvítu að ef ríkisstjórnin slakar á eitt augnblik er stórhætta á því að atvinnulífið reyni að koma undir sig fótunum.

Röggi

fimmtudagur, 30. september 2010

Að standa í lappir

Sjálfstæðisflokkurinn stóð sem betur fer í lappirnar í atkvæðagreiðslunni á þriðjudag. Þar héldu menn sig við grundvallarniðurstöðu í málinu áháð því hvort flokksmenn áttu hlut að máli eður ei. Samfylkingarfólk sumt telur að þarna hafi flokksagi ráðið og þingmenn ekki kosið eftir sinni sannfæringu. Kannski það...

Ég held þó ekki. Það var og er samfella í málflutningi Sjálfstæðismanna í málinu frá upphafi til enda. Menn settu sig upp á móti landsdómi og kynntu það málefnalega og án skætings. Þessu var öðruvísi farið með Samfylkinguna.

Þar höfðu þingmenn skoðun eftir því hver átti í hlut og bættu svo um betur þegar niðurstaðan lá fyrir og sögðu landsdóm ónýta aðferð! Þetta er ólýsanlega vitlaus málflutningur hjá annars óvitlaus fólki en sýnir hvað pólitík getur leikið suma grátt.

Ég læt mér í léttu rúmi liggja þó Mörður og Ólína eða hvað þau heita sem breyttu svona reyni að spinna sig út þessari glórulausu stöðu. Og það sem meira er...

...ég held að enginn reyni að koma þeim til hjálpar á undanhaldinu. Flóttanum undan eigin klúðri.

Röggi

miðvikudagur, 29. september 2010

Uppgjöri klúðrað

það hefur verið óhemju áhugavert að sjá og heyra þingmenn Samfylkingar reyna að selja hugmyndafræðina á bak við atkvæðin sín í gær. Önnur eins afhjúpun hefur ekki sést í sögunni og er þó af ýmsu að taka.

Skúli Helgason vill líklegast bara leggja landsdóm niður en þó ekki fyrr en hann hefur sent einn mann þangað áður. Hvernig verður þetta toppað? Liðið sem sendi Geir fyrir landsdóm er nú það alharðasta í því að það fyrirbrigði sé ónýtt...

Pólitísk fötlun og vandræðaástand á klíku núverandi og fyrrverandi formanns flokksins voru sett öllu öðru ofar. það átti að "róa" þjóðina eins og leiðtoginn orðaði það en þó bara þannig að hinir yrði ákærðir. Reynsluleysi og skammtímahugsun réði aðgerðum og nú er of seint í rassinn gripið og verður afar skemmtilegt að fylgjast með spunanum sem hreinlega hlýtur að fara í gang svo lýðurinn gleymi þessu máli.

það mun ekki duga því margir trúðu því í raun og veru að Samfylkingin meinti það sem hún segir. Það fólk er nú orðlaust og þögult. Það fólk finnur að núna var of langt gengið og að málsstaðurinn sem átti að vera uppgjör við hrunið hefur beðið mikinn skaða.

Röggi

þriðjudagur, 28. september 2010

Afleikur Samfylkingar

Það var augljóst frá upphafi að alþingi myndi ekki geta unnið í landsdómsmálinu af neinni reisn hvorki pólitískri né persónulegri. Nú eftir atkvæðagreiðsluna er dauðaþögn. Góður maður og reyndur sagði mér að svona myndi þetta fara. Ég hélt í mínum barnaskap að meira að segja Samfylkingin hefði ekki svona aðferðir í vopnabúri sínu.

Ég held hreinlega að ekki nokkur einasti Íslendingur telji að Geir verðskuldi að vera dreginn einn til pólitískrar ábyrgðar með þessum misráðna hætti. Plottið gékk upp hjá spunameisturunum gott fólk. Þetta er væntanlega skilgreint sem sigur á einhverri af klíkum Samfylkingarinnar. OKKAR fólk slapp!!!

En þannig verður þetta því miður ekki. Réttarhöldin yfir Geir verða þannig að mesta athyglin mun fara í að tala um þá sem hefðu þá átt að vera með honum á þessum mjög svo hæpna sakamannabekk.

Sumt af því fólki vélaði um hlutina í dag á löggjafarþinginu og skömm þess verður ævarandi. Samfylkingin hefur tekið margar ákvarðanir undanfarna mánuði sem eingöngu eru teknar til að halda ráðherrastólum. Dagurinn í dag er bara enn einn slíkur dagur...

...nema, að nú held ég að Samfylkingin hafi eiginlega gengið fram af sjálfri sér. Svipurinn á Jóhönnu Sigurðardóttur í kvöldi sagði allt. "Hvernig gat þetta gerst?"

Hvernig gat þetta orðið niðurstaðan? Búsáhaldabyltingin hefur étið börnin sín og skaði Samfylkingarinnar af málinu verður ekki auðbættur.

Röggi

þriðjudagur, 21. september 2010

Tækifæri VG

Hversu mikil þarf pólitísk örvæntingin að vera til þess að Jóhanna Sigurðardóttir taki þá ákvörðun að snúa baki við vikugömlum skoðunum sínum og leggjast á augabragði eins og maðurinn sagði gegn Atla nefndinni og allri hennar vinnu?

Hversu hryllilegt er ástandið innandyra í Samfylkingunni? Helmingurinn sem mætti til að hlýða á Ingibjörgu ræður í dag? Hvað gerir hinn helmingurinn á morgun? Nú þarf ekki lengur að "róa" almenning eins og leiðtoginn sagði hnarreyst í ræðustólnum fyrir viku eða svo. Nú skiptir flokkurinn einn máli. Þar þarf að vera ró hvað sem hún kostar. Ráðherrastólarnir ofar öllu...

Og VG er í þeirri stöðu að geta eignað sér alveg skuldlaust uppgjörið við hrunið. Þrýstingurinn á Steingrím um að slíta þessu handónýta samstarfi hlýtur að vera óbærilegur. Staðan hefur algerlega snúist VG í vil með þessu pólitíska útspili Jóhönnu.

Vandinn er þó sá að Steingrímur hefur týnt öllum pólitískum metnaði og prinsippum öðrum en að hækka skatta og borga Icesave upp í topp. Hann mun án efa reyna allt til að fá Atla Gíslason til að fara heim aftur að mála svo troða megi þessari hneysu ofan í hólkvítt og sístækkandi kokið á VG.

Svar órólegu deildar VG er að slíta samstarfinu og neyða Samfylkingu í kosningar þrátt fyrir bestaflokksóttann. Samfylkingin er ekki í nokkurri stöðu til þessa að ganga til kosninga. Leiðtogi er þar ekki neinn sjáanlegur hvert sem augað eygir og eina baráttumálið ESB á sáralítinn hljómgrunn. VG getur ekki haldið þessu áfram án þess að eiga það á hættu að klofna í herðar niður og tækifærið dettur hér upp í hendurnar á þeim.

Stundin er runnin upp...

Röggi

Skrípaleikurinn

Það fór eins og mig grunaði. Þingið, það er að segja framkvæmdavalds hluti þess, er að heykjast á því að þola þinginu, það er að segja löggjafanum, að senda ráðherra fyrir landsdóm! Leiðtoginn sjálfur sem stýrir öllu í þinginu hefur nú komist að því að nefndin sem hún bjó til var ónýt...

..og þar er ég henni að vísu fullkomlega sammála. Ég fullyrði þó hér að afstaða Jóhönnu Sigurðardóttur til vinnu nefndarinnar hans Atla Gíslasonar snýr eingöngu um það að nefndin hyggst draga Ingibjörgu Sólrúnu fyrir landsdóm.

Ruglandaháttur þessarar ríkisstjórnar hefur frá fyrsta degi verið Íslandsmet í hverju stórmálinu á eftir öðru. Í þessu máli er Jóhönnu að vísu vorkun að nokkru leyti. Útfærslan á hugmyndinni virðist gölluð og vinnuumhverfi nefndarinar þannig að enginn skilur til fullnustu á hvaða forsendum skal ákært.

Og svo gamla sagan. Framkvæmdavaldið mun koma í veg fyrir að "einhverjir" þingmenn eins og Atli Gíslason séu að ákæra ráðherra rétt sí svona. Það er skrípaleikur að að ríghalda í þetta system gott fólk. Engu skiptir hverjir sitja í ráðherrastólum.

Kerfisvillan kemur í veg fyrir að þetta muni nokkru sinni ganga upp. Þingið hefur ekkert sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu. Og það jafnvel þó um sé að ræða nefnd sem framkvæmdavaldið skipaði sjálft til handa löggjafanum!

Hvenær skyldi okkur lærast að sjá það sem augljóst er í þessum efnum?

Röggi

mánudagur, 20. september 2010

Er maðurinn klikk?

Andri Snær Magnason rithöfundur var í kastljósinu áðan. Hann er ekki eins skemmtilegur og mig minnti en greinilega finnst honum hann sjálfur afar skemmtilegur því sjálfsánægja var geggjuð alveg.

Honum finnst skrýtið að vera afgreiddur sem 101 eitthvað eða listaspýra sem hann þó klárlega er en veigrar sér ekki við að kalla þá sem ekki hafa sömu skoðanir og hann klikkaða eða vangefna og gott ef ekki geðveika.

Andri segist hitta menn og koma með tölur og skilur ekkert í því að þeir menn sem stundum eru sérmenntaðir í faginu skuli þá koma sínar eigin tölur. Hvurslags ósvinna er það?? Hann talar flott hann Andri og segist hafa hitt "strákana" á stórum fundum og spurt þá hvort þeir séu vangefnir en þó halda þeir áfram.

Rithöfundurinn bendir á það sem afvega hefur farið og ætlar sér að stöðva alla nýtingu á auðlindum landsins með tilvísan í þannig mál. Hann gleymir því að nú er tekin við ríkisstjórn sem hefur lagt stein í götu framkvæmda sem stundum var búið að heimila og undirbúa og telur þá sem heimildina höfðu stundum vera geðbilaða að hafa farið af stað....

Þeir eru komnir aftur til byggða bændurnir að mótmæla símanum. Í þetta sinnið í líki sjálfumglaðs rithöfundar. Andri Snær er afturhald nútímans og segir sögur af rússneskri mafíu og vondum mönnum erlendum sem enginn vill vinna með. Stórhættulegt fólk sem hefur búið til stór alþjóðleg fyrirtæki sem ætli sér að eyðileggja landið okkar. Þessu kastar hann fram í kastljósi og kannski telja sumir að þetta sé staðreynd af því að viðmælendurnir geta ekki hrakið fullyrðinguna. Þekkt aðferð sem hefur verið misnotuð af mun verra fólki en Andra Snæ með mælanlegum árangri.

Andri Snær er öfgmaður eins og við höfum stundum séð í kringum veiðarnar okkar. Hann elur á hræðslu sem aldrei hefur verið auðveldara og spilar svo fallega á tilfinningar fólks gagnvart sérfæðingum og opinberum aðilum.

Fólk trúir því að það eigi að virkja ALLT sem mögulega hægt er að virkja og byggja endalaust af álverum og það EITT eigi að bjarga okkur úr vandanum og að vonda fólkið hirði hvorki um hagfræðina í kringum málið né umhverfisþáttinn. Vonda og heimska fólkið. Þetta stef hefur aldrei átt meiri hljómgrunn en nú og skáldið góða rær til sjós....

Og nýtir sér skáldaleyfið til að búa til rússneska mafíu og norræn en þó alþjóðleg glæpafyrirtæki til að krydda söguna.

Er maðurinn klikk??

Röggi

föstudagur, 17. september 2010

Predikarinn Andri Snær

Andri Snær Magnason er svona Gunnar í krossinum. Hann sýður saman gríðarlega skemmtilegan orðgraut og söfnuðurinn hlustar dolfallinn. Predikarinn Andri Snær kann að setja saman frasa og orð. það er víst.

Eins og aðrir predikarar segir Andri Snær það sem söfnuðurinn vill heyra. Það er vissulega stór hópur sem telur iðnað á Íslandi mikinn óþarfa. Virkjanir einnig. Andri Snær er litlu betri en þeir sem telja álver upphaf og endi alls lífs. Hann er bara öfgamaður í hina áttina.
Jarðvegur fyrir spámenn er frjór um þessar mundir og Andri sáir akurinn...

Andri Snær er nákvæmlega eins og höfuðsnillingarnir sem góðærið flutti hingað inn aftur og aftur til að messa yfir hinni hjörðinni í fokdýrum hádegisverðum. Hann er bara með annan markhóp. Og passar sig á að segja það sem lýðurinn vill heyra.

Álvers og virkjanaþráhyggja rithöfundarins er magnað fyrirbrigði sem leggst á listamenn helst. Eitthvað segir Andra að 3 álver sé nóg og við virkjum meira en sumir aðrir og það er ótækt. Af hverju er þetta vandamál í sjálfu sér?

Kannski rennur sá dagur upp að við þurfum ekki að framleiða neitt annað en beservissera í líki rithöfunda. Lifum af því að lesa bækur og halda fyrirlestra í háskólum og horfa á bíó. Það væri draumur....

Röggi

föstudagur, 10. september 2010

Landsdómur og löggjafarþingið

Nú er það landsdómur sem er mál málanna. Verulega áhugavert mál frá ýmsum hliðum og við verðum öll að reyna að forðast að horfa á það út frá pólitískri stöðu. Mig langar mjög til að treysta löggjafanum til að leggja skynsamlegt mat á hlutina en reynist það erfitt.

Aðskilnaður löggjafa og framkvæmdavalds er stundað á Íslandi og er ekki til almennilegrar umræðu. Og nú á löggjafarþing sem situr og stendur eins og framkvæmdavaldið vill að fara að taka ákvörðun um það hvort tilteknir fulltrúar valdsins verði dregnir fyrir landsdóm.

Er ekki eitthvað bogið í þessu? Þetta er enn eitt dæmið um nauðsyn þess að við förum að notast við system sem gerir út á þrískiptingu valds. Við erum oft að rífast um afleiðingar en nennum ekki að tala um orsakir.

Röggi

fimmtudagur, 9. september 2010

Svavar og Icesave

Svavar Gestsson gefst ekki upp í baráttu sinni fyrir Icesave samningnum sínum. Karlinn er pikkfastur í tíma sem er liðinn og missti af fjörinu öllu þegar þjóðin hafnaði klúðrinu hans eftirminnilega og afgerandi. Svavar veit greinilega ekkert hvar víglínan í þessari baráttu liggur núna og þusar bara um gamla tíð.

það sem er auðvitað verst í þessu er að gamli allaballinn á sér dygga stuðningsmenn í ríkisstjórninni. Ef eitthvað er að marka félaga Svavar er þetta fólk enn sannfært um að Icesave samningurinn sér stórsigur.

Hvað þarf til að opna augu þessa fólks?

Röggi

miðvikudagur, 8. september 2010

Guðmundur Ólafsson og skattamálin

Ég reyni að missa helst ekki af spjalli Guðmundar Ólafssonar við sjálfan sig á rás 2. Hann er víðáttuskemmtilegur þó að mér finnist hagfræðin hans ekki fimmauravirði á löngum köflum. Í morgun hafði hann eðlilega nokkrar áhyggjur af skattamálum.

Guðmundur taldi skatta alltof háa hér og þeir stæðu framþróun fyrir þrifum. Um þetta deilum við Guðmundur ekki nema þá helst við Indriða sjálfan og þórólf Matthíasson.

Guðmundur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það hafi verið ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem hafi hækkað skattana og þess vegna væri þetta svona. Ríkisstjórnin sem nú sæti hafi að mestu skorið niður en ekki hækkað skatta.

Þetta minnir mig á annan merkilegan fræðimann, Stefán Ólafsson, sem þrætti árum saman fyrir það að ríkisstjórn Davíðs væri að lækka skatta en þegar allt féll hér taldi þessi sami Stefán að skattalækkanir Davíðs hafi verið fóðrið sem hrunið nærðist á.

Vissulega skemmtilegir fýrar báðir tveir en hver getur tekið mark á svona tali? Sú ríkisstjórn sem nú situr mun verja alltof stórt ríkisapparat út yfir gröf og dauða með skattahækkunum og forðast niðurskurð.

Þannig er þetta og er öllum kunnugt nema einstaka hagfræðingum sem ruglast á fræðunum sínum og stjórnmálum.

Röggi

mánudagur, 6. september 2010

Rétthugsandi fjölmiðlar....

Lög um fjölmiðla eru nauðsyn. það er leitun að fólki sem viðurkennir það ekki. Meira að segja þeir sem vildu af ónýtum pólitískum ástæðum ekki styðja lög um fjömiðla á sínum tíma hafa opnað augu sín og séð það sem blasti við allan tímann.

Því miður kemur það í hlut núverandi menntamálaráðherra að lemja saman frumvarp um fjölmiðla. Því miður vegna þess að VG þekkir ekkert annað en forsjárhyggju og ríkisskoðanir. Fátt er meira gaman en að setja á laggirnar stofnanir sem eiga að hugsa og ákveða fyrir okkur borgarana.

Inn í slíkar stofnanir eru þá settir rétthugsandi og góðir aðilar sem munu leiða okkur áfram. Hver á að ákveða hvað eru góðar skoðanir og á hvaða forsendum á að loka fjölmiðli vegna þess sem þar er sagt?

Hugmyndin um að búa til apparat sem hefur alræðisvald í þá veru að ákveða hvað eru góðar skoðanir og hollar og hverjar ekki eru stórvarasamar en ekki óvæntar úr þessari áttinni. Þetta má ekki verða.

Röggi

fimmtudagur, 2. september 2010

Uppstokkunin.......

Ríkisstjórnin hefur fundið leið til að viðhalda sjálfri sér. Skipt er út ráðherrum og tilgangurinn er eingöngu einn. Að tryggja í ofboði eitthvert það jafnvægi sem gæti gefið vinnufrið. Þetta er í sjálfu sér smart allt saman og kannski heldur þetta ógnarjafnvægi og fólk getur farið að vera heiftarlega ósammála við ríkisstjórnarborðið í miklum kærleik.

Ríkisstjórnin er eins og stökkbreyttur vírus. Það eru engin málefni sem halda henni saman. Hún lifir bara til að lifa. Samfylkingin hefur gefist endanlega upp á VG og heldur bara sinn veg á leið sinni í ESB og VG fær að leika lausum hala á meðan með fáránlega afstöðu til atvinnuuppbyggingar og skatta.

Niðurlæging Samfylkingarinnar er fullkomnuð og spái því að óþol flokksins til VG muni vaxa en ekki minnka við þennan kapal.

Og við öll súpum seyðið af vitleysunni.

Röggi

þriðjudagur, 31. ágúst 2010

Baugsfjölskyldan og bankarnir

Auðvitað er geggjað að þurfa að borga Jóhannesi Jónssyni til að "gefa" bónuskeðjuna eftir. Hann og hans fólk hefur "gefið" okkur öllum meira af skuldum en nokkurt annað fólk sögunnar.

Jóhannes og sonur hans hafa klifað á blankheitum sínum eftir að "þeir" þ.e. þjóðin tók þá niður svo vitnað sé í soninn. Samt hefur fjölskyldan nurlað saman ófáum þúsundum milljóna til að kaupa sér fjölmiðla, skútur, flugvélar, milljarða íbúðir og eitt og annað smálegt sem þau hefur langað í.

Og nú dúkkar pabbinn upp með vel á annað þúsund milljónir og handvelur sér fyrirtæki í góðu samstarfi við Arion banka og lofar að reyna að kaupa allt dótið aftur við fyrsta hentugleika, væntanlega staðgreitt. Þetta er gullfallegt ævintýri fyrir alla nema okkur hin sem borgum afskriftir og niðurfellingar fyrir þetta fólk.

Samt verð ég að segja að þessar litlu 90 millur sem Arion banki ákveður að millifæra á gamla manninn er vel varið, þannig séð. En hugmyndafræðin á bak við þetta allt er í raun brandari fyrir okkur almúgan sem sitjum eftir og skiljum hvorki upp né niður í því hvernig skuldugasta fólk sögunnar valsar út og inn í bönkunum og ákveður að því er virðist sjálft hvaða skuldir það borgar og hverjar ekki.

Og velur sér svo einn og einn mola úr safninu...staðgreitt.

Við erum höfð að fíflum...

Röggi

mánudagur, 30. ágúst 2010

Aukin Ríkisforsjá?

Egill Helgason skrifar pistil um stjórnmálamenn í braski í dag. Þetta finnst mér áhugaverður punktur nú þegar alltof margir telja að lausn allra mála sé að færa aukin völd á hendur stjórnmálamönnum.

Ríkisforsjárflokkur númer eitt, VG, rær að því öllum árum að koma okkur öllum undir forsjá ríkisins og hefur til þess stuðning Samfylkingar sem er föst í netinu þó þar inni viti ýmsir að þessu stefna er handónýt.

Vissulega munu einhverjir hrópa núna og benda á heimskreppuna og ekki reyni ég að þræta fyrir hana né heldur að halda því fram að einkaaðilar geri ekki mistök og þar þrífist ekki eitt og annað misfagurt.

Staðreyndin er samt sú þar sem völd hafa verið færð um of til stjórnmálamanna og þeim ætlað að véla um öll okkar mál hefur tekist hörmulega til. Við þekkjum þau dæmi og ég hirði ekki um að nefna þau.

það þarf að skapa umgjörð um einkarekstur og reglugerðir sem halda og þar vorum við og aðrir úti að aka og því fór sem fór. En grunnhugmyndin stendur eftir rétt enda munu fáar þjóðir hverfa til ofstækisríkisforsjár eins og við stefnum í ef ekki tekst að skipta um ríkisstjórn hið fyrsta.

Ríkið er ekki einhver góð mamma. Ríkið eru þeir stjórnmálamenn sem við kjósum okkur hverju sinni.....

Röggi

miðvikudagur, 25. ágúst 2010

Hver skilur Jón Bjarnason?

Er eðlilegt að ráðherrann Jón Bjarnason berjist fyrir þeim prýðilega málsstað að við göngum ekki inn í ESB úr stóli ráðherra? Ögmundur Jónasson virðist telja að svo sé og þar greinir okkur gróflega á.

Þegar anganin af ráðherrastólum bar fyrir vit VG skrifaði Jón Bjarnason undir sáttmála um stefnu. Eitt veigamesta atriðið í sáttmálanum var að ganga til viðræðna við ESB um mögulega aðild. Mér er stórlega til efs að þetta hafa farið fram hjá karlinum.

Ráðherrar berjast ekki gegn eigin sáttmála og stefnu. Sé mönnum þannig innanbrjósts er eina leiðin fyrir þá að hverfa úr stjórninni. Það kallast staðfesta og styrkur og þá geta menn haldið áfram baráttunni.

Fyrir mér er þetta barnalega einfalt mál enda hefði ég sjálfur hvorki geð eða nennu til að vinna með mönnum sem berjast gegn því sem þeir hafa nýlega fallist á að sé stefnan. Og enn síður hefði ég þrek til að sitja í stjórn sem ynni að málum sem ég væri eins afgerandi á móti eins og ráðherrann Jón Bjarnason.

Hver skilur Jón Bjarnason?

Röggi

Kirkjan

Kirkjan er í vanda og öllum er ljóst að hún kann ekki að vinna úr stöðunni. Kirkjan er eins og stjórnmálamennirnir okkar eftir hrun. Allir sjá stórfellt klúðrið í málefnum Ólafs Skúlason en hver á fætur öðrum hlaupa kirkjunnar munn undan og halda að málið snúist um að vernda þeirra eigið skinn. En hér er meira undir......

Biskupinn okkar tafsar og muldrar þegar málið er við hann rætt. Karl Sigurbjörnssson telur sig ekki þess umkominn að dæma látinn manninn, það muni aðeins einn geta og muni gera og á þar við almættið sjálft á dómsdegi. Orðhengilsháttur segi ég og er sannfærður um að almættið muni veita honum undanþágu til að fara inn á verksviðið og hafa skoðun á málinu verði eftir því leitað.

Karl Sigurbjörnsson og kirkjunnar menn mega ekki komast upp með svona undanbrögð. Það virðist liggja afgerandi fyrir að kirkjan vissi en hafði ekki verkreglur sem réðu við málið og því var það þaggað niður. Sú skömm er ekki auðveldlega hreinsuð af en tilraunir til þess að komast undan því mun að líkindum verða bæði persónum og kirkjunni dýrkeypt og loða lengi við.

Og hollt fyrir Karl og félaga að muna að þeir þurfa svo líka að standa skapara sínum reikningsskil gerða sinna....

Röggi

föstudagur, 20. ágúst 2010

Bófaslagur

Nú er allt að gerast. Björgólfur Thor og Robert Wessmann farnir að slást opinberlega og sumir birta skjöl. Það besta sem gæti gerst er að bófarnir fari að stíga hressilega á tær hvor annars í spunavörninni.....

Röggi

miðvikudagur, 18. ágúst 2010

Vælið í kringum Egil

Þetta er skemmtilegt. Hirðin í kringum Egil Helgason hefur sett af stað væluherferð og talar um einelti í hans garð og ritstjóra Eyjunnar finnst þetta merkilegt allt saman og gerir mikið úr.

Af hverju má ekki gagnrýna Egil? Egill er ekki óskeikull frekar en aðrir menn er það?. Hver eru efnisatriðin? Er það sérstakur glæpur í sjálfu sér að vera ósammála Agli og benda á hvernig hann snarsnýst í skoðunum af ástæðum sem ekki eru alltaf ljósar?

Egill er opinber starfsmaður og þiggur laun frá okkur öllum til að halda úti sjónvarpsþætti sem fjallar um þjóðmál og pólitík í víðum skilningi í hinu hlutlausa ruv.is. Hann heldur úti gríðarvinsælu bloggi og hefur skoðanir á flestu. Til eru þeir sem voga sér að benda á að hann dregur taum ákveðinna skoðana og stjórnmálaflokka. Af hverju má ekki ræða það?

Stuðningslið Egils er með gagnrýnendur hans á heilanum og eyða engu púðri í málefnalega afstöðu og umræður. Hvernig væri að taka þátt í pælingunum i stað þess að fá sífelld krampaköst yfir þvi hver setur gagnrýnina fram og hversu oft eða hvar.

Þetta væl er óþarft og ómálefnalegt.

Röggi

þriðjudagur, 17. ágúst 2010

DV

DV breytist lítið. Grundvallaratriðið saklaus uns sekt er sönnuð telur ekki á ritstjórn Reynis Traustasonar frekar en fyrri daginn. Maður nokkur situr í yfirheyrslum vegna morðs og ritdónarnir á DV eru með mynd af honum öllum til sýnis.

Ég þekki ekki marga sem ekki skilja hversu tært dæmi svona "blaðamennska" er um siðleysi. Einhverjir hafa þóst sjá breytingar á blaðinu hans Reynis en hér fellur DV gersamlega á prófinu.

DV vinnur eftir prinsippi sem dómstóll götunnar nærist á. Ritstjórn DV telur sig þess umkomin að dæma þennan mann. Hvað hefur þetta fólk lært af Geirfinnsmálinu? Meira að segja játningar eru engin ávísun á ákæru og það geta virtustu réttarmeinafræðingar og sagan kennt okkur.

Sekur uns sakleysi er sannað er eitthvert ömurlegasta prinsipp sem blaðamaður getur burðast með.

Röggi

sunnudagur, 15. ágúst 2010

RÚV klúðrar bikarútsendingu

Nú er nýlokið bikarúrslitaleik kvenna í fótbolta.Stærsti viðburður hvers tímabils í öllum greinum. Í gær léku strákarnir og þetta er stór helgi fyrir þá íþróttamenn sem spila þessa leiki. Auðvitað er þetta sjónvarpsviðburður....

Og gamla RÚV hefur réttinn til sýninga á kvennaleiknum. Nú brá svo við í dag að ekki reyndist tími til að klára að sýna verðlaunaafhendingu sem hafn var. Í gær var útsendingin teygð svo lengi sem einhver fékkst til að ræða við fréttamenn eftir afhendinguna og stemningin komst glæsilega til skila í sófann minn.

Hver tekur svona ákvörðun? Fyrir mig er þetta virðingarleysi við stelpurnar og áhorfendur. Hvernig hefði verið tekið á framlengingu að ég tali nú ekki um tímafreka vítaspyrnukeppni?

RÚV skuldar skýringu á þessari furðuákvörðun.

Röggi

föstudagur, 13. ágúst 2010

Gylfa verður fórnað

það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera Gylfi Magnússon núna. Hann er ekki stjórnmálamaður í sinni tærustu mynd og nú þegar hann liggur vel við höggi hefur hann því ekkert bakland. Fátt mun því verða honum til bjargar enda ekkert kjördæmi í hættu þó honum sé fórnað.

Gylfi var auðvitað ekki í góðri aðstöðu til þess að básúna þetta lögfræðiálit á sínum tíma. Um málið ríkti réttaróvissa og allt hefði farið á hvolf hefði hann talað. Og hvað ef niðurstaða dómstóla hefði orðið á hinn veginn...?

Hann hefur hins vegar komið sér í afleita stöðu núna með þvi að reyna að bulla sig út úr málinu og hinir hefðbundnu stjórnmálamenn og flokkar munu ekki reyna að verja hann. Í því er bæði fegurð og ljótleiki.

Við sjáum alveg bráðónýta ráðherra njóta verndar langt umfram það sem nokkur maður skilur. Gylfi Magnússon verður því afar hentug fórn fyrir þessa afleitu ríkisstjórn að færa þjóðinni á þessum tímapunkti.

Röggi

Eiður Smári

Íþróttafréttamenn er í fýlu út í Eið Smára. Hann vill ekki vera almennilegur og tala við þá. Auðvitað er það verra enda hefur hann skyldum að gegna í þessum efnum. Ekki gott að sniðganga fjölmiðla og ef hann þarf andrými væri skynsamlegt hjá honum að biðja um það.

Við viljum öll að honum gangi vel enda okkar besti maður en hann getur ekki skorast þegjandi og hljóðalaust undan því að tala við okkur þegar honum hentar. Kannski vill Eiður að helstu fréttir sem við fáum af honum séu djammsögur og viðtöl tekin í gríngolfmótum. Eða sprell með Audda og Sveppa....

Eiður Smári er greinilega með vindinn í fangið núna. Hann ætti frekar að sækja sér styrk hingað heim heldur en hitt.

Röggi

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Kögunarhóllinn og þrískipting valds

Ég er dálítið sérstakur með það að hafa eindreginn áhuga á þrískiptingu valds. Ég hef burðast með þetta síðan Vilmundur Gylfason tók það mál upp á sína arma. Þeir sem fóru með völdin þá fussuðu og þeir sem hafa farið með þau síðan hafa fundið öllum hugmyndum um þessa þrískiptingu allt til foráttu.

Fólk sem ég ber virðingu fyrir segir mér stundum að ég misskilji málið. Okkar kerfi bjóði helst ekki upp á svona lagað. Ég man ekki í augnblikinu hvað þær heita skilgreiningarnar á fagmáli og mér er í raun sama. Þrískipting valds er ekki eitthvað ofan á brauð. Skiptingin er grunnatriði í okkar stjórnarskrá og ekkert samningsatriði.

Ef systemið okkar passar ekki utan um þrískiptingu valdsins þá þarf að breyta systeminu en ekki öfugt. Þorsteinn Pálsson er einn besti rýnir okkar i dag og skrifar læsilegasta texta allra. Hann var að tæpa aðeins á þessu máli af kögunarhóli sínum í Fréttablaðinu.

Tilefnið var hugmynd Samfylkingar um að ráðherrar flokksins ættu ekki að sitja á þingi en það gera þeir reyndar enn. Þorsteinn er ekki hrifinn af þessu og telur að þetta myndi ekki styrkja stöðu þings gagnvart framkvæmdavaldinu og myndi auk þess auka á ójafnvægi milli meiri og minnihluta þings ef ég skil hann rétt.

Vel kann að vera að þetta sé rétt enda held ég að það eitt að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn dugi hvergi nærri til þess að skilja að framkvæmda og löggjafarvald. Það "lúkkar" kannski vel en dugar ekki.

Kjósum framkvæmdavaldið, forseta eða forsætisráðherra, beint og löggjafann í öðrum kosningum. Framkvæmdavaldið sæi ekki ekki um að setja lög, skipa dómara og svo framvegis enda gerir stjórnarskráin ráð fyrir að svo sé ekki.

Ég veit að þetta er stórt mál og að mörgu er að hyggja ef við viljum færa þetta til betri vegar hjá okkur. En af hverju ekki? Voru menn að grínast þegar þetta var sett í stjórnarskrá? Er það kannski hluti af endurskoðun hennar að hverfa frá hugmyndum um þrískiptingu valds af því að það er flókið?

Ég hvet Þorstein Pálsson til að setja saman grein um þrískiptingu valds, kosti þess að skerpa á henni af hverju við höfum sleppt því að praktisera hana.

Röggi

mánudagur, 9. ágúst 2010

Kosningar eina leiðin.....

Hún er mögnuð undiraldan í pólitíkinni núna. Allir vita að ríkisstjórnin er tæknilega búin að vera en þetta er eins og í sovét í gamla daga, menn reyna að þræta og halda andliti alveg fram í dauðann sjálfan.

Í raun merkilegt hversu vel tekst að halda því sem er að gerast undir yfirborðinu en það helgast fyrst og fremst af því að fjölmiðlar hafa ekki áhuga á að vera að ónáða þessa ríkisstjórn. Þetta er jú búsáhaldastjórnin eftir allt....

Illa duldar hótanir og daður Lilju Mósesdóttur við Hreyfinguna eru til þess fallnar að fá menn ofan af þeirri hugmynd að reyna að fá Framsókn til liðs við hina andvana ríkisstjórn.

Á meðan á þessu stendur dedúa ráðherrar við sín gæluverkefni án afskipta verkstjórans Jóhönnu hvort heldur sem þau snúast um að eyðileggja fyrir allri framþróun eða að ráða vini sína baneitraða til starfa og þá allra helst án þess að auglýsa. Nú má bara ekki vera að slíku fíneríi....

Svo birtast hagfræðingarnir á næstu dögum með tillögur sínar um uppsagnir opinberra starfsmanna í stórum stíl og helst frystingu launa þeirra sem eftir verða. Benda svo VG á að svigrúm til skattahækkana er fyrir löngu sprungið. Þá springur allt endanlega og meira að segja þeir sem reynt hafa að sannfæra sjálfa sig um að þetta sé eini möguleikinn við landstjórnina munu sjá ljósið.

Kosningar gott fólk. Kosningar.....

Röggi

fimmtudagur, 5. ágúst 2010

Egill Helgason í dag

Stundum er gaman að Agli Helgasyni og í dag skrifar hann spunagrein um krísur stjórnmálaflokka. Allt er gott um það að segja en hvernig hann getur komist hjá því að nefna Samfylkinguna þar á nafn er mér hulin ráðgáta...og þó, hvernig læt ég?

Röggi

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

Árni Páll úr leik

Og ég sem hélt að Árni Pall væri mögulega næsti formaður Samfylkingarinnar? Ekki algerlega vegna þess að hann væri þess verður heldur ekki síður vegna þess að hann er einn örfárra sem hefur sýnt því áhuga og hafði það fram yfir hina að hafa ekki gert stórlega í buxurnar alveg nýverið.

það er sorglegt þegar "hæfasti" maðurinn er ónýtur. Ég efast ekki um að Runólfur Ágústsson yrði afburðafinn umboðsmaður skuldara. Trúverðuleiki manna fæst ekki keyptur í kaupfélaginu á horninu og það er ekki nóg að ráðherra bara viti að hann sé bestur og auk þess í réttum flokki.

Ég þekki ekki viðskipti Runólfs öðruvís en þau eru sögð og deili að einhverju leiti með honum áhyggjum af því hvernig mórallinn er almennt gagnvart þeim sem stundað hafa viðskipti. Það sem hér virðist undarlegt er að ráðherra þekkti söguna alla en lætur eins og þannig sé það ekki enda hefur hann nýtt sér þjónustu Runólfs víðar og vel og ekki látið þessa vitneskju trufla sig. Slysalegt sjálfsmark Árna Páls..

En Árni Páll situr væntanlega í stólnum sínum áfram eins og ekkert hafi í skorist og meira hefur nú gengið á í ríkisstjórn Jóhönnu án þess að það hafi haft afleiðingar en þessi smáræðis trúnaðarbrestur ráðherra við allt og alla.

Og hann heldur áfram að byggjast upp kvíðinn hjá Samfylkingunni. Kvíðinn fyrir kosningunum óhjákvæmilegu. Og kvíðinn vegna formannskrísunnar sem engan endi ætlar að taka.

Í dag heltist enn kandidatinn endanlega úr lestinni.....

Röggi

miðvikudagur, 28. júlí 2010

Bankaleynd og kjarklausir pólitíkusar

Núna er ég að hugsa um bankaleynd. Mér er ljóst að lög um bankaleynd er ekki slæm hugmynd. Tilhugsunin um að allir komist í upplýsingar um viðskipti banka við fólk og fyrirtæki er ekki góð. Og almennt ekki til umræðu til þessa dags myndi ég halda.

Núna er óvenjulegir tímar og við höfum gripið til óvenjulegra ráða til að berjast við hrunið. Settum til að mynda neyðarlög sem voru og eru umdeild en þar var reynt að bregðast við gríðarvanda og til þess þurfti kjark og áræði í þröngri stöðu.

Þar var gripið inn í það sem mætti kalla eðlilegan framgangsmáta til að ná fram ákveðnum markmiðum. Óvenjulegar aðstæður óvenjulegar aðgerðir og tilgangurinn vænn. Að við gætum kannski lifað hrunið af og haldið veginn áfram.

Núna situr ríkisstjórn sem hefur engan kjark og enga sýn. Þar situr fólk eins og Lilja Mósesdóttir og skýlur sér á bak við lög um bankaleynd ef hún er spurð um afskriftir banka. Fólkið sem tók við og ætlaði að sigla okkur inn í nýtt Ísland felur sig á bak við lög sem hið gamla bjó til og starfar enn eftir í skjóli Lilju Mósesdóttur og félaga.

Þessi lög koma í veg fyrir að nokkur maður viti hvað er að gerast í bönkunum. Hvað er afskrifað og hverjir fá þær og hversu miklar eru þær? Hverjr fá að kaupa á útsölunni og hvað þurfa viðkomandi að borga fyrir? Hvað eru skilanefndir eða slitastjórnir eða hvað þetta heitir allt að bauka? Hverjir eru hinir nýju eigendur Íslands? Og hverjir eiga bankana.......

Ef lög um bankaleynd koma í veg fyrir að hægt sé að vita um þessa hluti þá þarf kannski að breyta þeim lögum eitthvað. En til þess þarf kjark og vilja og sú stjórn sem nú situr hefur hvorugt.

það fólk er bara á móti og segir nei án þess að gera nógu vel grein fyrir atkvæði sínu.

Röggi

Skuldir umboðsmanns

Allt ætlar um koll að keyra vegna skipunar Rúnólfs Ágústssonar í embætti umboðsmanns skuldara. Árni Páll gerir auðvitað eins og alltaf er gert sama hver á í hlut. Hann finnur einhvern samflokksmann hentugan og munstrar hann í starfið. Það er eitt.....

....hitt er að Runólfur hefur persónulega reynslu af því að skulda og það sem meira er, að borga ekki. Ég veit ekkert hvort eitthvað óeðlilegt var á seyði þegar hann kom sér upp þessum skuldum eða hvort maðkur var í mysu þegar þær voru afskrifaðar og vonandi eru eðlilegar skýringar til rétt eins og hjá meginþorra þjóðarinnar....

...sem eru einmitt umbjóðendur skuldarans og Samfylkingarmannsins Runólfs. Hvernig verða menn hæfir í svona djobb? Eða óhæfir með öllu? Ég bara er ekki viss.

Nú er vandlifað.

Röggi

þriðjudagur, 27. júlí 2010

Gálgafrestur framlengdur

Ég sit og klóra mér í kollinum og skil sem fyrr hvorki upp né niður í ríkisstjórninni. Núna hefur hún ásamt tussugóðum aðstoðarspunameisturum búið til plögg sem Jóhanna Sigurðardóttir las upp í dag að viðstöddum fjölmiðlamönnum.

Ríkisstjórn þessi hefur almennt ekki gert neitt og hún hefur sérhæft sig í að gripa of seint í rassinn sinn. Og þá helst ekki fyrr en allt bendir til þess að stjórnin springi. Önnur sjónarmið hafa litið eða ekkert vægi.

Óánægðir eru sáttir í dag og trúa því að viðskiptin með orkuna verði stöðvuð en ég sjálfur sé ekkert sem bendir til þess. Fýlupokunum í VG finnst þeir hafa unnið sigur enda skal málið skoðað...

Þá er friður í bili og ekki þarf að hafa áhyggjur af því í bráðina. Grundvallarskoðanir stjórnarinnar í Magma málinu eru engar. Ráðherrar og tveir flokkar sátu hjá og gerðu ekkert fyrr en það er líklega of seint. Ekkert hreyfði við þeim fyrr en það sem kallast nú grasrót VG hótaði að fella stjórnina og leit út fyrir að ætla að standa við það í þetta sinnið.

Þetta hefur sést áður. Ríkisstjórnin hafði ekki skoðanir á því hvernig bankarnir tóku á skuldavanda heimilanna fyrr en þeir voru ekki lengur í ríkiseigu. Þa bara datt andlitið af ráðherrum af hneykslan vegna aðgerða og eða aðgerðaleysis bankanna.

Þessi stjórn virðist lifa frá einum degi til annars og tekur bara á einum vanda þegar hann kemur upp og hann kemur reglubundið upp. Það er vandinn við að halda áfram að fá að vera ráðherra í friði fyrir vandræðaliði hjá VG.

Í dag keyptu ráðherrar sér nokkra daga í viðbót og ef allt gengur upp jafnvel nokkra mánuði.....

Því miður segi ég.

Röggi

mánudagur, 26. júlí 2010

Mörður og ég

Hvað ætli sé að gerast með mig þessa dagana? Mér finnst Mörður Árnason setja saman afburðaskemmtilegar greinar bæði hvað varðar efni og niðurstöður aftur og aftur og ekki skemmir stíllinn. Hið minnsta tvær í röð núna.....

Sennilega er ekkert að gerast með mig en mun líklegra að Mörður sé að koma til....

..eða hvað?

Röggi

föstudagur, 23. júlí 2010

Dómurinn

Héraðsdómur hefur fellt sinn dóm í gengistryggingamálinu lánveitendum í hag eins og það heitir. Ég veit ekki hvort mig langar að sjá niðurstöðuna þannig. Hver tapar á þessari niðurstöðu staðfesti hæstiréttur hana?

Er ósanngjarnt að endurreiknað sé og lántakandi haldi áfram að borga lánveitanda fé sitt til baka? Tvennt stóð aldrei til. Að lánin hækkuðu um 100% var aldrei inni í myndinni. Né heldur að forsendur gætu breyst þannig að gengistryggingin félli niður óbætt og strípaðir samningsvextir stæðu eftir. þetta er öllum augljóst....

....og hvoru tveggja er ósanngjarnt. Skuldarar hafa kallað eftir sanngirni og leiðréttingu. Nú er hún í boði og þá vilja menn meira. Þá koma lántakendur og benda á að forsendur hafi breyst svo mikið að á þá halli stórlega. Varla verður því mótmælt með haldbærum rökum.

Samningurinn sem gerður var milli aðila var báðum hagfelldur á sínum tíma samanborðið við gömlu verðtryggðu lánin. það reyndist ólöglegt og því sanngjarnt að færa þau til þess sem er eðlilegt hér á landi með leiðréttingum afturvirkt.

Löggjafinn virðist tryggja samningsaðila gagnvart stórvægilegum forsendubreytingum og það gildir í báðar áttir. Snýst þetta mál ekki um það?

Röggi

fimmtudagur, 15. júlí 2010

Örvænting götustráks

Götustrákurinn Jón Ásgeir grípur til gamalla úrræða þegar ekki virðist ætla að takast í einu hendingskasti að fá erlenda dómstóla til að gleypa fjarstæðukenndan málflutning hans.

Nú ræðst hann á persónurnar sem vinna störfin. Honum tókst í baugsmálinu að hræða svo allt systemið hér að ekki var nokkur leið að fá hann sakfelldan og varla saksóttann!. Hann réðist persónulega á alla saksóknara og lögreglumenn sem mögulegt var að nafngreina og fékk til þess fokdýra lögfræðinga....

...í fjölmiðlum sem honum voru tryggðir. Svona gékk þetta árum saman og virkaði á endanum. Og það svo vel að enn eru til fullorðnar konur sem trúa því að Jón Ásgeir og pabbi hans séu bestu synir þessa lands og skilja ekki sífelldar árásir á þá.

Örvæntingin er augljós og opinber þegar Jón Ásgeir leyfir sér að nefna mögulega kyrrsetningu eigna formanns slitastjórnar Glitnis.

Auðvitað er hann að djóka....eða hvað?

Röggi

miðvikudagur, 14. júlí 2010

Ópólitískur mótmælabransi?

það er ekki nýtt að ég fatti ekki alltaf hvað rekur menn til mótmæla. Núna er einhver örsmár hópur mótmælenda að þvælast á milli stofnana dag eftir að mótmæla. Alltaf hægt að andæfa einhverju og ekki skemmir blíðan.

Fólk mætmælti fyrir framan Seðlabankann í tómum misskilningi og svo færði hópurinn sig lauslega og mótmælir nú fyrir framan skrifstofur AGS. Og allt er þetta skemmtilegur misskilningur eins og maðurinn sagði.

Þetta fólk á að mótmæla fyrir framan stjórnaráðið. Þar situr fólk sem á að vera að vinna okkur til hagsbóta en gerir ekki neitt og hefur gert ekki neitt í tvö ár. Þar situr forsætisráðherra sem sérsaumaði starf handa Seðlabankastjóranum. Þar situr ríkisstjórn sem vinnur í samstarfi við AGS.

Þar situr ríkisstjórn sem gat reynt að grípa inni í og leiðrétta vanda þeirra skuldugu en gerði ekki. Af hverju er ekki setið á tröppunum hjá því fólki og andæft? Líklega verður næst borið niður hjá Magma þó það fyrirtæki hafi ekki gert neitt af sér annað en að vera ekki frá Svíþjóð.

Hver ætlar að reyna að segja mér að mótmælabransinn sé ópólitískur?

Röggi

sunnudagur, 11. júlí 2010

HM, frábær Howard Webb

Betra liðið vann úrslitaleik HM í fótbolta. Úrslitaleikurinn var ótrúlegur en öðruvísi en margir áttu von á. Hollendingar komu feikna ruddalegir til leiks og tókst næstum því að brjóta Spánverja niður í bókstaflegri merkingu. Ég hélt með Hollandi en þó mest með Howard Webb fyrir þennan leik og hann fékk trúlega erfiðasta verkefni sitt til þessa.

Mér fannst hann frábær en hann gerði sín mistök eins og við má búast í hverjum einasta leik þó auðveldari séu en þessi. Bókstafstrúarmenn á reglur geta klárlega fundið eitt og annað og kannski sluppu Hollendingar vel með ruddaskap sinn í fyrri hálfleik.

Webb sýndi mikinn leikskilning þegar hann fann leikinn vera að byrja of sterkt og þá sáum við skapfestu hans og styrk en hann féll þó ekki í þá gryfju að reka menn út af í bunum heldur beitti öðrum aðferðum til að koma mönnum á rétt ról. Það gerði mikið fyrir leikinn.

Sumir munu tala um að Holland hafi átt að fá hornspyrnu í sókninni áður en Spánn skoraði og það með réttu. En menn fá ekki á sig mörk vegna þess að dæmd er markspyrna í stað hornspyrnu hinu megin á vellinum....

Mistök dómara eru hluti leiksins og ég er handviss um að Webb fær toppeinkunn fyrir þennan leik enda besti dómari heims núna.

Röggi

föstudagur, 9. júlí 2010

Leiðinlega fullkomnir Spánverjar

Nú líður að lokum HM í fótbolta. Aldrei þessu vant hefur mér tekist að sniðganga allmarga leiki enda golf tímaferk íþrótt og mun skemmtilegri en leiðinlegur fótboltaleikur en nægt framboð var af þeim sér í lagi framan af.

Spánverjar eru með besta liðið og ekki mikill business að veðja á sigur þeirra. En mér finnst þeir leiðinlegur að sjá. Þeir spila vissulega algeran fótbolta eins og það heitir og geta ákveðið að halda boltanum í 3 vikur sýnist þeim það henta. En þeir eru óspennandi að sjá.

Fleiri hundruð heppnaðar stuttar sendingar á litlu svæði á félaga sína heilu og hálfu korterin er ekki spennandi áhorfs til lengdar. En árangurinn er frábær og fræðingar telja þetta fullkomnun en það dugar mér ekki......

Ég ætla því að halda með Hollandi á sunnudag og svo ætla ég líka að halda með Howard Webb dómara sem er langbesti Englendingurinn á þessu móti.

Röggi

þriðjudagur, 6. júlí 2010

Peninga á ég enga

Peninga á ég enga. Þessi orð sagði bankaræninginn Jón Ásgeir fyrir stuttu og bætti því við að hann væri búinn að vera. "þeir" þ.e. íslenska þjóðin hefði tekið hann niður. Ég varaði við því að þessum leikþætti skyldi enginn trúa. Diet coke getur hann þó keypt og eina litla íbúð í Ameríku líka og pabbi nurlar saman fyrir sumarhúsi á Florida. Það þarf dugnað til að redda sér svona í kreppunni.

Auðvitað fellur ekki nokkur maður fyrir þvælunni sem frá honum kemur lengur en alveg er þó kengmagnað að þau heiðurshjón skuli fá að halda fjölmiðlarisanum skuldalausa og vera í samningaferli með restina.

Getur einhver sem þetta les skýrt fyrir mér í hverju hreðjatök Jóns Ásgeirs á bankamönnum Íslenskum eru fólgin? Þau gera grín að bæði þessum bankageira og okkur öllum og kaupa og selja íbúðir og skíðaskála eins og þeim hentar hverju sinni.

Það er svo sem rétt hjá kappanum. Hann á ekki þessa peninga.....

Röggi

Mótmæli og lánamál

Nú virðist mótmælabransinn vera að lifna við aftur með hefðbundnu sniði þar sem lögin og verðir þeirra eru vandamál en ekki hegðun mótmælenda. Í gær safnaðist fólk saman við seðlabankann og í dag við stjórnarráðið.

Full ástæða er til að andæfa mögnuðu kjark og dugleysi Gylfa Magnússonar og félaga frá því ríkisstjórnin tók við. Á meðan ríkisstjórnin röflar um villfé og bannar sólbekki og stripp hefur það sem skiptir máli verið látið reka á reiðanum. Ríkisstjórnin hafði tækifæri til að grípa inn í þegar bankarnir voru í ríkisumsjá og finna lausn fyrir alla skuldara en ekki bara suma eins og nú blasir við.

það var auðvitað ekki gert og því er sú staða upp komin núna að einungis þeir sem tóku mesta áhættu og græddu á henni fyrir hrun fá ríflega lausn sinna mála en aðrir síður. Um þá lausn verður aldrei friður enda slik skilaboð fráleit.

Mér sýnist seðlabankinn vera að reyna að verja bankakerfið með tilmælum sínum. Kannski setja lán til einstaklinga kerfið ekki á hliðina en hvað með lán til sveitarfélaga og fyrirtækja? Úr vöndu er að ráða og fáir góðir leikir í stöðunni.

Ríkisstjórnin sem ætlaði að mynda skjaldborgina en gerði minna en ekkert til þess er sökudólgurinn hér, ekki seðlabankinn. Tækifærið til þess að gera eitthvað í málinu var ekki nýtt. Það er mergurinn málsins og eðlilegt að mótmæla því.

Ég sjálfur er með bílalán og reikanði hvorki með því að það myndi hækka um 100% né að mér stæði á einhverjum tíma til boða að fá lán án verðtryggingar, gengistryggingar og nánast án vaxta. Dómur hæstaréttar virðist tryggja mér þau kjör að ég þurfi kannski ekki að borga lánið mitt til baka.

það var aldrei meiningin......

Röggi

föstudagur, 2. júlí 2010

Hvar er Framsókn?

Hvar er Framsóknarflokkurinn og hans kjaftagleiði formaður? Nú heyrist ekki múkk vikum saman og það þýðir að öllu jöfnu bara eitt. Flokkurinn stendur frammi fyrir möguleikanum á að komast í ríkisstjórn og þreifingar þar um eru í gangi.

Ætli Össur viti af þessu?

Röggi

miðvikudagur, 30. júní 2010

Mark eða ekki mark

Fótbolti er vinsælasta sport í veröld og HM er því stórviðburður á heimsvísu. Ég hef áunninn áhuga á dómgæslu í öllum iþróttum enda ótrúlega margir hlutir sameiginlegir með dómgæslu í boltagreinunun þremur. Viðfangsefnin þau sömu í grunninn og lausnir líka.

Þeir sem mest skrifa um fótbolta og mest hafa vitið fyrtast við í hvert skipti sem nefndar eru breytingar á reglum leiksins. Í körfubolta er sífellt verið að bæta reglur og umgjörð til að auka gæði og skemmtanagildi leiksins.

Ég geri mér grein fyrir því að það er viðkvæmt og mikilvægt að vel takist til. Ákveðin íhaldssemi er góð í þessum efnum. Í grunninn finnst mér ekki ástæða til breytinga á reglum fótboltans eins og ég þekki þær.

Nú ræða menn mjög um atvikið þegar boltinn fór inn fyrir marklínuna og sitt sýnist hverjum eðlilega. Í bandarískum íþróttum nota menn sjónvarp hiklaust og gera þá eins löng hlé á skemmtuninni og þurfa þykir. Mér finnst þróunin þar vera óæskileg...

...en velti því fyrir mér af hverju ekki má setja skynjara í fótbolta til að hjálpa mönnum að sjá hvort mark er mark eða ekki. Ekki hefur slíkt í för með sér neina töf á leiknum.

Liðið sem fær á sig mark getur varla kvartað undan slíku og klárlega ekki hitt liðið heldur. Það þarf ekki að vera mat dómarans hvort bolti fer innfyrir eða ekki. Það á að vera mat dómarans hvort um brot er að ræða, hver á innkast og svo framvegis og það er hans vinna.

Ég vill taka þetta mat af dómurnum enda oft afar erfitt að sjá þetta og meta. Tal um að kostnaður við að koma upp svona búnaði verði fótboltahreyfingunni að fjötjóni held ég að standist lítt enda varla hægt að gera kröfur um að allir vellir og allr tuðrur allsstaðar í smákimum veraldar verði svona á einum degi. Og hver ætli kostnaður verði við að fjölga dómurum til að fylgjast bara með þessu verði eins og nú er talað um?

Þessi hræðsla við breytingar í fótboltanum er óþörf í þessu tilfelli. Á þessari breytingu græða allir. Enda er það ekki mat einhvers dómara hvort boltinn fór inn fyrir línuna eða ekki.

Annað hvort gerði hann það eða ekki og bráðeinföld tækni getur úrskurðað um það á sekúndubroti.

Röggi

laugardagur, 26. júní 2010

Öfgar Árna Páls

Hann er þverhníptur formannskandidat Samfylkingar Árni Páll þegar hann kallar Sjálfstæðisflokk öfga hægri flokk vegna þess að hann hefur efasemdir um aðildarviðræður við ESB á þessum tímapunkti hið minnsta.

Þessi ágæti Árni Páll vísar í vilja þjóðarinnar í þessu samhengi. Greinilegt að glundroðaástandið í ríkisstjórninni er farið að bíta á kallinn sem sér nú fram á að Samfylking er að einangrast ekki bara á pólitíska sviðinu í þessu máli heldur ekki síður frá þjóð sinni...

..sem hefur lítinn áhuga á inngöngu í ESB núna. Og reyndar tel ég að þetta að blessaða mál sé ekki stærsta mál dagsins í dag.

það eru önnur mál sem brenna á okkur og Árni Páll ætti kannski að hafa stærri áhyggjur af því vilji hann rísa upp úr meðalmennskunni.

Röggi

Stjórnarmyndun í gangi?

Magnað að fylgjast með stofnunum stjórnarflokkanna þessa helgina. Þessir flokkar hafa geta ekki haldið landsfundi enda logar þar allt stafna á milli og og alger upplausn. Þess í stað eru haldnir minni rabbfundir sérvalinna gæðinga.

Niðurstöður þessara funda eru svo sér atriði. Fyrir þá sem ekki vita þá er ekki betur séð en að nú fari fram stjórnarmyndun. VG lýsir sig andsnúin flestu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera.. Og forsætisráðherra kemur með óskalista um mál sem hún nú telur nauðsynlegt að nái fram að ganga. Um hvað snérist samstarf þessa fólks hingað til?

Þessi ríkisstjórn er búin að vera. Fundir flokkanna nú um helgina eru fullkomin staðfesting á því. Stjórnarmyndunar fundirnir nú um helgina munu ekki skila neinu öðru en að opinbera sístækkandi gapið sem er milli flokkanna.

Röggi

mánudagur, 21. júní 2010

Lilja sendir Gylfa tóninn

Lilja Mósesdóttir var í viðtali á bylgjunni í morgun. Þar var mál málanna til umræðu, nefnilega dómur hæstaréttar um gengistryggðu lánin. Lilja var brött að vanda og hreinskiptin með afbrigðum.

Hún talaði um 18 mánaða aðgerðaleysi ríkisstjórnar í skuldavanda heimilanna eins og henni kæmi þetta aðgerðaleysi ekki við. Það er vissulega áhugavert að heyra Lilju tala um þetta á þennan hátt enda veit hún manna best hvað er satt og rétt í þessu.

Svo var hún spurð út í ummæli Gylfa Magnússonar sem talar um að dómur hæstaréttar muni hafa jákvæð áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar. Þau ummæli virtust koma flatt upp á Lilju sem fullyrti að enginn einn maður hefði lagst eins mikið gegn því að gera eitthvað í skuldavanda heimilanna en einmitt þessi Gylfi Magnússon. Hann hafi ekki mátt heyra minnst á neitt í þá veru að hreyfa við þessum lánum....

Kannski er rétt að minna á í þessu sambandi að Lilja Mósesdóttir er þingmaður VG og formaður efnahags og skattanefndar og er hluti af ríkisstjórn þessa lands. Hún veit því væntanlega hvað hún syngur....

Röggi

miðvikudagur, 16. júní 2010

Leiðinlegur fótbolti

Flestir virðast sammála um að fótboltinn sem boðið er upp á á HM þyki bragðdaufur og þurr. Ég hef ekki séð nógu marga leiki reyndar en mig minnir að svona fari þessi mót oft af stað enda ekki gott að byrja keppnina með tapleik. Vonandi hressist Eyjólfur...

Ég velti því fyrir mér hvort hér séu á áhrif Jose Morinho að koma fram. Hann er númer eitt í bransanum og virðist ekki geta annað en unnið allt sem í boði er. Hvernig fótbolta spilar Morinho?

Hann spilar að mínu viti leiðinlegasta fótbolta mögulegan. Hjá honum snýst allt um að fá ekki á sig mark og sjá til þess að loka á andstæðinginn. Morinho gefur ekkert fyrir það að hafa boltann. Vörn vinnur mót.....

Árangursríkt er það sannarlega og árangur er vist það sem gildir. En skemmtanagildið er takmarkað nema fyrir þá sem horfa á fótbolta með vísindalegum gleraugum fagmannsins.

Röggi

fimmtudagur, 10. júní 2010

Stjórnarandstæðingur í ráðherrabíl

Auðvitað er alveg eðlilegt að ráðherrar takist á um mál og á stundum þurfa menn að gefa eftir í stórum hjartans málum. Flokkar geta verið ólíkir og snúið að smyrja stefnuna saman. Ekki eru allir dagar góðir í svona samstarfi. Þess vegna hafa menn brugðið á það ráð að setja saman sáttmála um það sem gera skal. Ekki tekst þó alltaf að smíða þá þannig að allir séu sáttir en afar sjaldgæft er einstakir ráðherrar séu beinlínis á móti því sem ákveðið er í slíkum sáttmála. En engin regla er án undantekninga....

Hún hangir hreinlega saman á hræðslunni einni nú orðið þessi ríkisstjórn. Hræðslunni við sanngjarna og tímabæra refsingu kjósenda. það er þeirri stöðu sem Jón Bjarnason kemst upp með að vera stjórnarandstæðingur i ráðherrabíl.

Maðurinn er hreinlega á móti málum sem samið var um í stjórnarsáttmálanum. Hvaða prinsipp ráða því að hann er við ríkisstjórnarborðið? Ég veit ekki hvort þessi fáránlega staða er meira þreytandi fyrir Samfylkinguna eða VG en veit þó að þetta lýsir best stöðunni á heimilinu.

Forystumenn eru komnir á stjá og tala um breiða samstöðu en það stef þekkjum við þegar ríkisstjórnin hefur ekki þingmeirihluta fyrir því sem hún hefur ákveðið að gera. það er í raun ekkert eftir annað en að rifa seglin. það ætti þetta fólk að koma sér saman um öllum til heilla. Um það mál ætti að nást breið samstaða...

Þessi vesalings stjórn mun þó auðvitað ekki koma sér saman um neitt annað en að vera ríkisstjórn. Og vona að allt lagist bara af sjálfu sér áður en hún neyðist til að horfa framan í okkur næst í kjörklefanum.

Og á meðan geta ráðherrar eins og Jón Bjarnason verið með neitunarvald í sérmálum þvert á það sem hann samþykkti þegar hann ákvað að sniðugt væri að vera á ráðherralaunum.

En farsinn heldur líklega áfram.....

Röggi

Árni Páll tekur frumkvæði

Venjulega taka menn ekki mikið mark á því sem Árni Páll er að segja. Mörgum finnst hann vera snotrar umbúðir utan um lítið. Hann reynir of mikið að verða alvöru leiðtogi í stað þess að láta það gerast með alvöru vinnubrögðum.

Núna kemur hann blaðskellandi með tillögur um sparnað í ríkisrekstri og ærir óstöðuga. Hin heilaga kýr sem opinberir starfsmenn eru fyrtast við þegar hann leggur til frystingu launa. Árni Páll gerir sér kannski grein fyrir því ekki verður bæði haldið og sleppt þegar kemur að hinum óhjákvæmilega niðurskurði í útgjöldum ríkissins. Mér finnst mannsbragur að þessu hjá Árna þó ekki séu tillögur hans gallalausar.

Og kjarkur sem er eiginleiki sem virðist vera að glatast hjá stjórnmálamönnum dagsins. Þarna stígur fram maður sem þorir að segja það sem honum finnst þótt hann megi búast við stormi í andlit. Mér finnst auðvelt að bera virðingu fyrir því.

Leiðtogaleitin í Samfylkingunni er leitin að nálinni í heystakknum. Dúllubossinn Dagur B virðist úr leik og dæmdur eftir niðurlægjandi útkomu í borginni. Sviðið er því opið fyrir öfluga menn með bein í nefi og mér sýnist að Árni Páll geti hugsanlega verið að taka ákveðið frumkvæði....

Ég verð seint hrifinn af pólitík Árna Páls og þá á ég bæði við stíl og innihald almennt. Og kannski segir það allt um stöðuna í Samfylkingunni að hann skuli vera orðinn einn öflugasti ráðherrann.....

Röggi

miðvikudagur, 9. júní 2010

Veit Davíð af þessu?

þau eru oft óljós mörkin milli þess að vera álitsgjafi og spunaséní. Guðmundur Ólafsson er einn af þessum aðilum. Hann þykir skemmtilegur karlinn og er fenginn til að tala í útvarp vikulega um það sem honum finnst merkilegt.

Í morgun heyrðist mér hann vera að tala um leiðtogamál Sjálfstæðisflokksins en þeim málum hlýtur Guðmundur að vera sérfróður og hlutlaus algerlaga. Hann telur að nú sé hópur manna að ryðja veginn fyrir formannsendurkomu Davíðs.

Guðmundur segist nefnilega hafa þetta eftir tengiliðum sínum innan flokks. þetta myndi teljast sérlega skemmtilegur spuni á sumum heimilum. Og vel heppnuð samsæriskenningasmíð hjá spunameistaranum en algert bull auðvitað og gert til þess eins að hræra í flokknum rétt fyrir landsfund. Hvaða hagsmunum þjónar það......

Allir vita hvaðan Hannes Hólmsteinn er að koma þegar hann tjáir sig. Það er mikilvægt og hollt og sanngjarnt en vita allir hvaðan Guðmundur Ólafsson er að koma þegar hann talar um stjórnmál eins og hlutlaus fræðimaður? Skiptir það ekki máli nema þegar Hannes Hólmsteinn talar?

Ætli Davíð viti af þessu?

Röggi

þriðjudagur, 8. júní 2010

Prnisippin hans Lúðvíks

Lúðvík Geirsson er hreint ótrúlega prinsippslaus stjórnmálamaður. Maðurinn er viðkunnanlegur í alla staði en sem pólitíkus gersamlega handónýtur. Það sannaði hann eftirminnilega þegar hann þorði ekki að standa við samning sem hann gerði um stækkun álversins í Hafnafirði. Kannski voru einhverjir búnir að gleyma því hversu Lúlli bæjó getur verið pólitískt léttvægur.

Lúðvík lagði allt undir í kosningabaráttu Samfylkingar í Hafnarfirði. Spunameistarar drógu fram alla frasana og Lúlli lagði störf sín óhræddur í dóm kjósenda. Allt annað en áframhaldandi meirihluti væri ósigur og skýr skilaboð. Barráttusætið tekið og allt var þetta stórmannlegt og strangheiðarlegt.

Söguna þekkjum við og Lúðvík var kjöldreginn og dómur féll af þunga. Engum manni flaug í hug að niðurstöðuna þyrfti að ræða frekar og næstu skref augljós enda Lúðvík lýðræðislega þenkjandi maður sem ber virðingu fyrir sjálfum sér og kjósendum.

Pólitísk og persónuleg niðurlæging Samfylkingarinnar og Lúðvíks er fullkomnuð nú þegar fulltrúi VG tryggir honum áframhaldandi starf sem bæjarstjóra næstu 2 árin.

Hvenær sigra menn í pólitík og hvenær tapa menn? Um það getum við þrasað út í hið óendanlega en í þessu máli liggur allt fyrir. Kjósendur voru hafðir að fíflum og allir tapa.

Og hér er ekki verið að grínast neitt....

Röggi

mánudagur, 31. maí 2010

Dellan hjá Illuga og Hallgrími

Ég heyrði á tal þeirra Illuga Jökulssonar og Hallgríms Thorsteinssonar í ríkisútvarpinu mínu nú síðdegis. Ég veit ekki hvað þessi þáttur heitir en hann ætti að heita útvarp Samfylking enda getur Hallgrímur illa dulið það hvert hans pólitíska blóð rennur þó hann vinni hjá okkur öllum.

Hallgrímur fullyrti þar að stjórnandastaðan í þinginu hafi farið neðar í leðjuna í málflutningi sínum, öfugt við stjórnarflokkana, en áður hafi þekkst. Þarna er Hallgrímur líklega að vísa í baráttu stjórnarandstöðu og þjóðar fyrir höfnun Icesave samninganna. Kyngimögnuð söguskýring hjá útvarpsmanninum og hún verður fáránlegri með hverjum deginum.

Þegar kom að umræðum um fjórflokkinn margumtalaða opinberaði fyrrverandi ritstjóri DV delluhrokann sem hann ber til Sjálfstæðsflokksins og þess stóra hóps sem kýs þann flokk.

Hann talaði um að sá flokkur stæði ekki fyrir neitt nema þá kannski frelsi einstaklingsins og annað ekki og hann væri í raun bara fyrir öðru fólki sem hefði almennilegar hugsjónir. Auk þess væri fólk þar sífellt að takast á um hlutina eins og það sé vond staða fyrir stjórnmálasamtök. Gaman væri að heyra Illuga setja Samfylkinguna og VG inn í þetta sama mengi...

Alveg magnað hvað menn sem telja sig vera stadda í Samfylkingarkaffiboði en ekki í útvarpsþætti allra landsmanna geta missti sig í þvælu þegar pólitísk hjörtu slá fallega saman.

Og í raun stórmerkilegt að ég skuli láta þetta pirra mig því þetta er daglegt brauð og algerlega fyrirséð.

Röggi

Gnarr og Besti flokkurinn

það er þetta með Besta flokkinn. Hann ætlar að fara að stjórna borginni og það með húmorslausasta stjórnmálamanninum. Manninum sem er eiginlega lifandi dæmi um akkúrat það sem Besti flokkurinn vill ekki standa fyrir. Dagur B ryður út úr sér innihaldslitlum frösum í löngu máli á þann hátt að Georg Bjarnfreðarsson gæti vart betur.

Nú fer málið nefnilega að vandast. Gnarr sýndi það síðustu dagana fyrir kosningar og nú eftir þær að hann er hættur að djóka. Enda er ekkert djók að stjórna borginni. Reyndar talaði hann um að borgin byggi vel að embættismönnum og því væri öllu óhætt.

Ég hélt að flestir vildu færa völdin frá alltof valdamiklu embættismannakerfi borgarinnar og aftur til fólksins í gegnum kjörna fulltrúa. En Gnarr ætlar að láta þetta gamla kerfi taka ákvarðanir sem hann sjálfur þarf svo að bera pólitíska ábyrgð á. Byltingin lifi!

Besti flokkurinn er besti flokkurinn þegar hann er í minnihluta þó stærstur sé. Margt bendir til þess nú þegar að Jón Gnarr sé að tapa húmornum. Vissulega fékk hann innivinnuna sem hann langaði í en ég er ekki alveg viss um að hún verði svo þægileg....

Röggi

Ríkisstjórnarblús

það verður stórmerkilegt að fylgjast með því hvernig mál munu þróast hjá ríkisstjórninni eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Allt benti eindregið til þess að hennar auma líf væri á enda runnið og einungis væri beðið eftir pólitískt heppilegum tíma til að rifa seglin og kjósa. En það var fyrir helgina...

Auðséð er á forystumönnum hennar að þeim er alvarlega brugðið við niðurstöður kosninganna. Og auðvitað laukrétt hjá þeim að í mörgum tilfellum er hinum mætustu sveitarstjórnarmönnum refsað fyrir framgöngu þeirra sjálfra í landsmálum. Spurningin sem eftir stendur er þá hvaða lærdóm þau ætli sér að draga af því.

Nú þegar eru öll merki þess að fótgönguliðar ýmsir ætli sér að hjóla í forystumenn flokkanna vegna þessa. Aðgerða og úrræðaleysið er að éta flokkana upp innanfrá. Vonirnar sem bundnar voru við birtingu skýrslunnar að engu orðnar. Ósigurinn blasir við og súrefnið á þrotum.

Forsætisráðherra er augljóslega úti á þekju og í mikilli geðshræringu. Hún grípur bara næsta hálmstrá og tekur undir allt sem hún heldur að kjósendur Besta flokksins vilji heyra. Nú er stjórnlagaþing skyndilega lausn....Dagur B ætlar að fanga hamingjuna í faðmi Gnarr en eitthvað segir mér að það verði skammgóður vermir. Vinnu og ferðalúinn Steingrímur veit hvorki í þennan heim né annan núna og endurtekur í sífellu sömu orðin um ný vinnubrögð en segir ekki hvernig þau eiga að vera. Liklega skilur hann ekki að margir í hans flokki telja að þeim vinnubrögðum fylgi nýjir leiðtogar...

Öllum ætti að vera ljóst eftir þessa helgi að enginn safi er eftir í ríkisstjórninni og flokkarnir tveir sem hana skipa eru að liðast í sundur innanfrá í þessu vonlausa samstarfi. það er ekkert eftir annað en að horfast í augu við það og hætta.

Jóhanna og Steingrímur vita þetta en upp er komin undarleg staða. Hræðslan við konsingar núna gæti hreinlega lengt líf þessarar ríkisstjórnar. Nú verði reynt að berja í brestina til að forðast dóm kjósenda. það mun að mínu viti verða að algerum hörmungum innandyra í þessum tveimur flokkum.

Dómur kjósenda er fallinn. Vinstri flokkarnir eru í henglum og þurfa ekki aðra óvini en sítt eigið fólk sem er rétt að byrja að grafa undan forystumönnum sínum. Við höfum ekki séð fyrir endann á þeim slagsmálum.

Röggi

mánudagur, 17. maí 2010

S. Einarssyni sagt upp

Hvurskonar Íslendingur er Sigurður Einarsson? Þessi bankamógúll hefur alið hér manninn og búið til fyrirtæki sem hefur haft gríðarleg umsvif og leikur lykilhlutverk í kreppu sem er að fara með okkur til andsk...

Við erum að rembast við að rannsaka málið af öllum góðum ástæðum mögulegum. Það er okkur nauðsyn og skylda. Til þess að okkur takist þetta eiga engir að hlaupast undan merkjum. það er einfaldega ekki með í þessum leik.

Sigurður lýsir sig saklausan af öllu og það áður en hann er spurður. Þar með telur hann málinu lokið af sinni hálfu og fær til sín mafíu lögfræðing nr 1 til að halda sér utan yfirheyrsluherbergja.

Í mínum huga hefur Sigurður sagt sig úr lögum við litla landið sitt og býr nú við sín eigin lög á peningafjallinu sínu. Ég hef ekkert umboð til eins eða neins en skili hann sér ekki "heim" til að svara eðlilegum spurningum saksóknara og staðfesta þar með sakleysi sitt þá segi ég honum fyrir mína parta upp ríkisborgararéttinum.

Enda vill hann ekkert með okkur hafa. Hér er ekkert meira að fá....

Röggi

sunnudagur, 16. maí 2010

Pólitísk misbeiting lögreglunnar?

Ég var á Austurvelli í gær. Þar var blásið til stuðningstónleika til handa níumenningunum. Blíðskaparveður og margir mættir enda góðgæti á boðstólum. Einn níumenninganna, Snorri minnir mig að hann heiti, fór með algerlega magnað ljóð sem mér finnst endilega að einhver ætti að koma á prent.

Fleiri níumenninga tóku til máls og reiðin er stór en hún beinist á köflum í undarlegar áttir. Ein yfirlýsingin var að lögreglunni sé beitt í pólitískum tilgangi. það er ekki rökstutt á neinn hátt en lýðurinn fagnar....

Hver beitir lögreglunni á pólitískan hátt og hvernig er slíkt framkvæmt? Ef réttarsalur myndi fyllast af fólki sem vildi trufla réttarhöld yfir bankaræningjum væri það þá pólitísk aðgerð lögreglunnar þegar hún sæi til þess að slíkt viðgengist ekki?

Ætli þingvörðum sé ekki nokk sama hvort fólk sem fyllir þingpalla og truflar þingstörf geri það af einum hvötum frekar en öðrum? það vantar ekki stóryrðin og skrautlega hugtakanotkun hjá reiðum mótmælendum.

En inntakið rímar bara ekki við raunveruleikann stundum þó áheyrilegt sé á útifundum. Og alls ekki þegar fullyrt er að lögreglunni sé beitt í pólitískum tilgangi.

Röggi

föstudagur, 14. maí 2010

Steingrímur og skattahækkanirnar hans

Steingrímur skattamálaráðherra lærir seint. Hann hækkaði álögur á bensín og skatttekjur ríkisins af bensínlitranum drógust saman. Þá taldi hann það reyndar ekki skipta máli því skatturinn hefði verið hækkaður til að draga úr bensínnotkun!

Það er varla nokkur eftir sem nennir að rökræða hagfræðina á bak við skattahækkanir í samdráttartímabili. Þórólfur Matthíasson myndi að vísu líklega fást til þess enda hann helsti sérfæðingur vinstri manna um skatta.

Niðurstaðan er ávallt sú sama. Auknir skattar skila minni skatttekjum í ríkissjóð. Yfirlit um greiðsluafkomu ríkissins staðfestir þetta en Steingrímur lemur höfðinu við steininn af mikilli list. Góður maður Steingrímur en þessu villutrú hans er afleit og dýrkeypt.

Til að gæta allrar sanngirni er þó rétt að geta þess að einn liður er að skila meiru en áður. Það er liðurinn skattur á einstaklinga.....

Röggi

miðvikudagur, 12. maí 2010

Nei, Jón Ásgeir. Við töpuðum...

Jón Ásgeir þykist vera kominn að fótum fram. það er flott taktík og fer vel í landann sem vill sjá blóð renna. Mér dettur ekki í hug að þannig sé um hann farið. Vígstaðan hefur breyst og hann berst nú fyrir öðrum málsstað. Sú barátta á að snúast um að við trúum því að hann sé búinn að vera og eigi ekkert.

Vissulega hefur nafn hans skaðast og hann gæti þurft að nota sömu aðferð erlendis og hann notar hér heima með eftirtektarverðum árangri. það er hin sígilda aðferð að nota leppa. Við sjáum þetta glöggt á fjölmiðlarisanum hans sem eiginkonan ásamt þöglum andlitslausum aðilum á. Haga ætlar pabbi hans að eiga ásamt útlendingum.

Gott fólk. Þetta er honum að takast beint fyrir framan nefið á okkur. Samningsstaða fjölskyldu Jóhanneasr Jónssonar í bönkunum Íslensku hlýtur bráðum að fara að laskast. Gleymum ekki sögunni og gleymum ekki stóryrðum kaupmannsins sem situr í yfirveðsettri "eign" sinni fyrir norðan á meðan þjónar skottast um í nýju glæsivillunni í útlöndunum.

"þeir unnu" sagði svikahrappurinn í dag og vísaði í Davíð en hjörðin sem dansaði með öll árin er að missa trúna. Þarna skjöplast Jóni Ásgeir stórlega. það er nefnilega þannig að "VIÐ TÖPUÐUM".

Íslensk þjóð tapaði kæri Jón Ásgeir. Stríðið sem þú háðir við andstæðinga þína var háð til að geta fengið að ræna Íslenska þjóð óáreittur. Vonandi tekst Jóni Ásgeir ekki að telja meðvirka þjóð trú um að hann sé píslarvottur núna.

En verið þið viss. Það mun hann reyna....

Röggi

Ég mótmæli ofbeldi gagnvart valdstjórninni

Sagan endurtekur sig í sífellu. Núna er héraðsdómur Reykjavíkur sneisafullur af fólki sem telur ofbeldi góða leið til tjáningar. Þar er verið að taka fyrir mál fólks sem ákært er fyrir brot gegn valdstjórninni ef ég skil þetta rétt. Mótmælendur svokallaðir en sú tegund fólks telur sig ekki þurfa að lúta öðrum lögum en sínum eigin.

Ég veit hreinlega ekki nákvæmlega hverju er verið að andæfa þarna núna. Er þessi hópur að verja málsstað mótmælanna í upphafi? Telur þetta fólk að verið sé að lögsækja fyrir skoðanir? Á hvað rétti er troðið? Hver er málsstaðurinn núna?

þetta er gamla sagan. Á Íslandi er öllum tryggður réttur til að halda skoðunum sínum hátt á lofti. Menn geta mótmælt af lífs og sálar kröftum án þess að nokkur valdstjórn reyni að koma í veg fyrir. Þetta er grunnurinn....

En á hinn bóginn er ÖLLUM bannað að fara á svig við lög hvort sem menn eru að mótmæla eða ekki. Þeir sem ekki telja sig hafa geta farið eftir þeim umgengisreglum sem gilda fyrir ALLA þegna þessa þjóðfélags hvort sem það er í eða við Alþingi eða annarsstaðar verða auðvitað að svara fyrir þá hegðun. Hvað annað??

Dómstólar og lögregla hafa ekki sérstaka skoðun á því hvort ofbeldis eða brotamenn eru með rauð augu eða blá. Hugmyndin um að allir seu jafnir fyrir lögunum er heilög og ófrávíkjanleg. Hún er grunnurinn sem við byggjum allt á.

Lögreglu og dómstólum ber hreinlega að sjá til þess að svo sé. það hefur ekkert með góðan málsstað þeirra sem detta af veginum þrönga að gera eða hvort það sé í stóru eða smáu.

Einmitt og akkúrat þessa dagana ættum við að hafa þessi merkilegu gildi í heiðri. Vegum ekki að grunnstoðunum núna þegar dómstólar eru að reyna að standa í lappirnar.

Jafnvel þó gott fólk með góðan málsstað eigi í hlut.

Röggi